Í landi andstæðnanna

Hálendið norðan Vatnajökuls hefur í mínum huga yfir sér ótrúlega dulúðlegan blæ. Endalaus svört víðátta með gígum upp úr sléttunni. Yfir þessu öllu trónir svo tertan á sléttunni, Herðubreið. Þetta svæðir heillar mig og kallar á mig.

IMG_3362

Eftir vel heppnaða göngu um víknaslóðir Austurlands héldum við Darri inn á þetta land andstæðnanna. Við beygðum af þjóðvegi nr 1 og héldum að Möðrudal á Fjöllum þar sem þessi fegurð blasir við, Herðubreið, Upptyppingar, Kverkfjöll.

Við gerðum stutt nestisstopp í blíðunni sem var þennan dag, horfðum á fjöllin og hvernig þau með seiðmagni sínu lokkuðu okkur til sín og héldum síðan inn á öræfin. Ferð okkar var heitið inn í Kverkfjöll. Frá veginum við Möðrudal eru þangað 100km og svo sannarlega ekki færi þar sem ekið er á fullu gasi enda er engin ástæða til, þarna stöðvast tíminn í fegurð fjallanna.

IMG_3367

Kverkfjöll eru fjallgarður í norðanverðum Vatnajökli milli Jökulsár á Fjöllum og árinnar Kreppu. Þessar ár mynda tungu niðurundan Kverkfjöllum, kallast svæðið milli þeirra Krepputunga. Þetta svæði er alsett hraunum, gígaröðum og vikursöndum, nánast gróðursnautt. Undantekning frá því eru Hvannalindir, gróðurvin í eyðimörkinni þar sem Lindáin kemur undan hrauninu. Þarna eru hleðslur frá fyrri tímum, sagan segir að Fjallla-Eyvindur hafi haft þar a.m.k vetursetu. Um sannleiksgildi þess veit ég ekki, við skoðuðum rústirnar og ljóst er að það hefur verið köld vist. Hvernig hann hefur komist yfir Kreppu eða Jöklu er mér spurn, líklegast þá yfir jökul. Hvernig honum tókst að lifa veturinn af við þær aðstæður sem þarna eru er svo önnur ósvöruð spurning. Hvað sem því líður þá eru hleðslurnar staðreynd og fórum við og skoðuðum þær. Þær eru stórmerkilegar, þarna er reynt að sporna við að ferðamenn fari yfir þær á grófum sólum sínum en miklu meira þarf að gera til að afmarka það svæði sem má ganga á því gróður þarna er afar viðkvæmur í ca 800m hæð.

IMG_3381

Eftir viðkomu í Hvannalindum styttist í fyrirheitna landið, Kverkfjöll. Þar er veglegur skáli, góð salernisaðstaða og sturtur, allt til mikillar fyrirmyndar. Mest dáðist ég þó að tjaldstæðinu. Minntist ég þess að þegar ég kom þarna árið 1987 varð að tjalda á melnum. Nú eru þarna gróðurræmur fyrir tjöld og merkilegt nok, grasið dafnar ágætlega þrátt fyrir kaldranalegar aðstæður. Tjaldstæðið er því bara ágætt og þann tíma sem við dvöldum þarna var lofthiti þokkalegur og því áttum við ágæta vist á tjaldstæðinu.

IMG_3387

Okkur langaði til að ganga á Kverkjökul og upp á Hverasvæðið, til þess þarf fullan jöklabúnað sem við höfðum ekki tekið með okkur í þessa sumarfrísferð. Ferðafélag Íslands er með ferðir þarna upp með leiðsögumanni en því miður var fullbókað í ferðina daginn eftir að við komum. Það var reyndar ekki mikið vandamál því við bókuðum bara daginn þar á eftir, ekki mikið vandamál að finna styttri gönguleiðir þennan aukadag sem við hefðum þá þarna.

Fyrstu nóttina okkar blés hressilega, vorum við ekki viss hversu sendinn jarðvegurinn héldi og vöknuðum við upp um miðja nótt og bárum aukagrjót á hælana á tjaldinu, tjaldið haggaðist ekki en vissara er þó að hafa með sér góða tjaldhæla þegar tjaldað er á þessum slóðum.

Morguninn eftir gengum við stikaða hringleið á Biskupsfell.  Þar er ágætis útsýni yfir næsta nágrenni og eins yfir Dyngjujökul, Kistufell, Trölladyngju, flæður Jökulsár á Fjöllum, Dyngjufjöll, Herðubreið og Upptyppinga. Engar myndir, engar lýsingar geta fangað þá sýn sem þarna blasir við, víðáttuna, jökulbreiðu Dyngjujökuls, hversu gríðarlega umfangsmikil hún er.

IMG_3410

Við fórum okkur rólega í göngunni og vorum komið aftur í tjaldstað um kl 14. Þá keyrðum við inn að Kverkjökli og skoðuðum íshellana sem taka sífelldum breytingum. Oft falla ísstykki niður úr þeim og því ekki vænlegt að vera mikið á rölti inni í þeim enda ófært inn í þá þar sem beljandi jökuláin rennur undir hellunum.

Næsta dag var komið að göngunni á Kverkjökul. Við vöknumum við rigningu á tjaldhimininn en spáin sagði að það ætti að létta til. Dagana sem við vorum í Kverkfjöllum var hlýtt en stundum hvessti. Því þorðum við ekki að láta stóra tjaldið okkar standa daginn sem við fórum á jökul og tókum því allt dótið okkar saman.

Við hittum leiðsögumanninn okkar í skálanum kl 8.30 og komumst að því okkur til mikillar ánægju að við vorum bara tvö skráð í ferð þennan daginn. Það var mikill kostur því þá var hægt að laga ferðina að okkar hraða og getu. Leiðsögumaðurinn, Kiddi, komst fljótt að því að við hefðum áður notað jöklabrodda og gengið í línu. Hann var greinilega ánægður með að fá svoleiðis túrista og gat hann lagað ferðina að því.

Kverkjökull hefur minnkað mjög mikið seinustu ár. Fyrir tveim árum kom hlaup í ána Volgu og tók það með sér göngubrú. Síðan þarf því að ganga yfir skriðjökulinn og er nauðsynlegt að þekkja aðstæður þarna til að vita hvar sé best að fara, þessar aðstæður eru síbreytilegar og mæli ég því með að fólk kynni sér þær vel áður en farið er þarna um. Þar sem skriðjökullinn mætir jöklinum eru sprungur faldar snjóbreiðu. Það svæði er varasamt yfirferðar en með aðgát, línu og kunnugum leiðsögumanni er þetta rétt eins og hver önnur jöklaganga.

IMG_3469

Þegar leið á morguninn létti mikið til og skyggni yfir umhverfið var gott. Eins og áður sagði fanga myndir ekki víðáttuna sem þarna er, Dyngjujökul, flæður Jökulsár og öll öræfin. Mest var ég þó ánægð með að greina Urðarhálsinn og gíginn í honum.

Þegar hærra dró gengum við upp í skýin og skyggnið minnkaði snarlega. Við Darri vissum ekki hvert Kiddi ætlaði með okkur en skyndilega stoppaði hann og benti okkur á mikinn sigketil í þokunni. Við vorum komin að svokölluðu Gengissigi sem er allnokkur sigketill í jöklinum. Þokunni létti lítillega og við ákváðum að fara þarna niður. Þegar niður var komið hafði þokan yfirgefið okkur og við fengum fína sýn á ketilinn. Þarna var lón með ísjökum og allnokkur strönd við bakkann. Við athuguðum hitastigið á vatninu og var það sumsstaðar ylvolgt við bakkana vegna jarðhita sem var þarna. Svo sannarlega var þetta land andstæðnanna.

IMG_3523

Fyrir ofan Gengissigið var skáli Jöklarannsóknafélagsins. Þangað hafði ég gengið sem leiðsögumaður fyrir 27 árum. Þá hafði ég aldrei komið inn á hálendið, aldrei inn í Kverkfjöll en fór þarna eigi að síður sem leiðsögumaður. Vissulega var ég með hnút í maganum en heppnin var með mér og slóst ég í för með skálaverði sem var með skipulagða ferð á jökulinn þennan dag. Þá voru menn ekkert að vesenast með jöklabúnað, bæði var jökullinn auðveldari yfirferðar og einnig hefur þekking manna á jökulsprungum aukist sem og allar öryggiskröfur. Mig dauðlangaði til að koma aftur í skálann og gerðum við það. Skálinn stendur uppi á hrygg milli tveggja sigkatla, útsýni frá skálanum er stórkostlegt yfir báða katlana. Við skoðuðum skálann sem er afar lítill en eigi að síður gott skjól fyrir ca 12 manns.

IMG_3530

Að skálaskoðun lokinni gengum við að efra Hverasvæðinu. Þarna er eitt mesta háhitasvæði landsins og ekki síðri andstæður þar en í Gengissiginu, háitasvæði inni á jökli. Telja sumir að þarna sé fegursta útsýni á Íslandi þar sem maður horfir yfir háitasvæðið með þeirri litadýrð sem því fylgir og á Herðubreið, tertuna á sléttunni.

IMG_3540

Við slepptum því að fara niður á hverasvæðið, létum nægja að horfa þarna yfir enda var Kiddi búinn að fara með okkur á nokkra sparistaði sem hann fer yfirleitt ekki með túrista á. Við fengum alveg fullkomna sérmeðferð hjá honum og nutum þess í botn að vera þarna með einkaleiðsögumann.

Eftir að hafa litast um yfir hverasvæðið frá ýmsum sjónarhornum var komið að því að arka niður. Á niðurleiðinni tókum við útúrdúr að kletti vestan við skriðjökulinn þar sem er mjög gott útsýni yfir Brúaröræfin, Snæfell, allt austur á land og einnig Norðausturlandið, Dyrfjöll og Smjörfjöll ofan Vopnafjarðar. Kiddi benti okkur einnig á Kverkárrana eða Kverkárnes sem liggur milli Kreppu og Kverkár, þangað hafa fáir komið.

Eftir þennan útsýnisútúrdúr, settum við í efsta gír og af einskærri hugulsemi við mig lét Kiddi mig vera fremsta til að ráða hraðanum. Það er líka miklu þægilegra að ganga fremstur í línunni því þá flækist línan minna fyrir manni.

Þegar við komum niður á skriðjökulinn fossaði vatnið þar um allar skorur, það hafði verið hlýtt um daginn og mikil bráðnun. Var mikill munur á vatnsmagninu frá því um morguninn. Eftir 9 tíma göngu og skoðunarferð um jökulinn komum við aftur í bílinn. Ganga á Kverkjökul er mikið sjónarspil, útsýni er einstakt og jarðhitasvæði í jöklinum er mikið sjónarspil. Ekki skemmdi fyrir að við fengum algera sérmeðferð hjá mjög góðum leiðsögumanni sem var öruggur, yfirvegaður og næmur á okkar getu og væntingar.

Á jöklinum var þennan dag mjög gott veður, lítill vindur og eftir að þokunni létti yfir Gengissiginu vorum við í besta veðri. Niðri við skála var hins vegar nokkur vindur og var okkur sagt að við værum heppin að hafa tekið niður tjaldið. Við vorum löt þegar í skála kom og ákváðum að gista inni seinustu nóttina okkar í Kverkfjöllum.

Næsta dag var ferðinni heitið í Snæfell. Sú ferðasaga er í smíðum og kemur síðar.

Um Kristjana Bjarnadóttir

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com
Þessi færsla var birt undir Ferðalög. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Í landi andstæðnanna

  1. Bakvísun: Annáll ársins 2014 | Efst í huga

Færðu inn athugasemd