Gekk ég yfir sjó og land – Dagur 1

Draumurinn rætist

18. apríl 2018

Fyrir tveimur árum sá ég myndir úr gönguskíðaferð um nágrenni Kulusuk á Grænlandi, kyrrðin og birtan á myndunum heillaði mig algerlega. Litlu síðar átti ég þess kost að fara í vikulanga gönguferð um þetta svæði, allan þann tíma hugsaði ég um hvernig það væri að ferðast þarna um að vetri til. Þegar ég kom heim lét þessi hugsun mig ekki í friði og var ég staðráðin í að einhvern tíma skyldi ég láta þennan draum rætast. Þegar viku gönguskíðaferð með gönguskíðagengi Íslenskra fjallaleiðsögumanna var sett á dagskrá var það létt ákvörðun að vera með.

Í allan vetur hefur þessi ferð verið takmarkið, við Darri höfum viðað að okkur búnaði sem þarf og vorum við mjög spennt að reyna allar græjurnar en það var einnig hægt að leigja búnað, vetrartjöld og púlkur af Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.

Fyrir svona ferð er það nokkur höfuðverkur hvað skal taka með en fyrir fólk sem hefur stundað gönguferðir með tjald að sumarlagi á Íslandi er undirbúningurinn mjög svipaður, heldur hlýrri svefnpoki, heldur hlýrri fatnaður og þykkari og fleiri sokkar. Matarundirbúningur er mjög svipaður en við ætluðum að einhverju leyti að treysta á kaupfélagið í Kulusuk.

Það var svo þriðjudaginn 18. apríl sem við hittumst á Reykjavíkurflugvelli, 14 farþegar og leiðsögumaðurinn Einar Torfi.

Folk1

Einar Torfi, Helgi, Rúna, Ágúst, Ásdís,
Kristjana, Darri, Lilja, Hörður, Þorbjörg,
Daði, Grímur, Jóhanna, Steinar, Helga.

Mikill spenningur var í loftinu, ferðin langþráða var að hefjast. Flugtíminn til Kulusuk er rétt um 1klst og 30 mín, og breiddargráðan er svipuð og sunnanverðir Vestfirðir. Þetta hvoru tveggja segir hins vegar afskaplega lítið því þrátt fyrir stutta landfræðilega vegalengd lendir maður í svo allt annarri veröld að því er vandlýst. Í Kulusuk eru nánast engir bílar, engin frárennsli, þangað kom fyrsti Evrópumaðurinn 1884 og þá var þetta samfélag á steinaldarstigi. Breytingarnar sem samfélagið hefur gengið í gegnum frá þeim tíma eru ólýsanlegar en ég reyndi að koma einhverju af því til skila í fyrri ferðasögu og vísa til þess.

Flustöðin í Kulusuk er mjög smá og við fengum farangurinn okkar fljótt, þá var bara að raða á púlkur og halda niður í þorpið um 2,5km leið.

DSCN4480

Fæst okkar höfðu mikla reynslu af því að draga hlaðna púlku og þarna hófust fyrstu slagsmálin við að stjórna henni því stundum vill hún hafa sjálfstæðan vilja og ýmist renna á félagann við hliðina, hælana á manni sjálfum eða taka auka snúning.

DSCN4499

Þorpið í Kuluskuk er ekki stórt, þar búa nú innan við 300 manns, húsin eru hins vegar mörg litrík, máluð sterkum rauðum, bláum eða gulum litum.

Fjallaleiðsögumenn eiga tvö hús í Kulusuk, eitt með gistiaðstöðu fyrir ca 16 manns og annað starfsmannahús. Við komum okkur fyrir í öðru húsinu, þar er góð eldunaraðstaða og aðstaða til að matast á neðri hæðinni en svefnloft uppi.

Þarna var strax ákveðið að við skyldum strax morguninn eftir leggja af stað í fjögurra daga leiðangur um og kringum Apusijakeyju. Þar sem við höfðum ekki flutt mikinn mat með okkur þurftum við að fara strax í verslunarleiðangur og kaupa vistir til ferðarinnar auk þess sem við þurftum að kaupa kvöldmat fyrir þetta fyrsta kvöld og áætlunin hljóðaði upp á að koma til baka á sunnudegi og því þyrftum við jafnframt að huga að kvöldmat það kvöld.

DSCN4508

Við lögðum leið okkar í búðina (kaupfélagið) sem stendur stutt frá höfninni sem nú var frosin. Þarna koma menn hins vegar á hundasleðunum inn í þorpið af ísnum og var þarna mikið líf manna og hunda.

DSCN5073

Kaupfélagið í Kulusuk minnir um margt á kaupfélög úti um land á Íslandi fyrir 40 árum. Þar fæst bókstaflega allt en þó svo takmarkað. Rifflar, ferðatöskur, skúringafötur og svo kaffi má sjá hér á mydninni fyrir ofan. Þarna má finna rjóma frá MS, Húsavíkurjógúrt og ferska ávexti. Þessi ferskvara er flutt með flugi sem er frá Reykjavík nokkrum sinnum í viku. Þurrvaran og frystivaran er hins vegar flutt frá Danmörku á haustinn áður en það verður ófært vegna ísa. Því getur maður ekki gengið að neinu sem vísu og fannst okkur með ólíkindum hvað Ásdís og Þorbjörg voru hugmyndaríkar við matarinnkaupin en þær sáu um innkaup fyrir sameiginlega máltíð. Við hin áttum í nægum erfiðleikum að átta okkur á hvort væri gáfulegara að kaupa beinfreðið og hrímað brauð eða ófrosið extra vel rotvarið rúgbrauð. Það var svo þrautin þyngri að kaupa inn og áætla nestismagn fyrir 4 daga. Við Darri höfðum reyndar vigtað morgunkorn 100gr per mann á dag og tekið með og allir höfðu tekið þurrmat í kvöldmáltíðirnar í ferðinni.

DSCN4510Innkaupunum var síðan raðað á púlku og Helgi fékk það hlutverk að draga þetta gegnum þorpið heim í húsið okkar. Meðan við vorum að pjakka leið okkar gegnum þorpið sáum við hvar maður dró nýveiddan sel á eftir sér. Hundarnir sem eru víða bundnir urðu alvitlausir við þetta og höfðu hátt. Hér má sjá sýnishorn af þessu.

Við fengum okkur svo smávegis snarl þegar heim var komið. Þar sem þetta var nú skíðaferð var að því loknu stigið á skíðin og umhverfið kannað. Hiti var yfir frostmarki, snjórinn nokkuð blautur og skíðin runnu vel.

DSCN4530

Sjórinn umhverfis Kulusuk var ísi lagður, það er helst upp við landið sem hann er varasamur en vegna sjávarfalla brotnar ísinn við landið upp og þar eru vakir og sprungur sem þarf að gæta að þegar farið er út á ísinn og einnig aftur upp á landið. Einar tók okkur í smá kennslustund og fór yfir helstu reglur og þætti sem ber að varast þegar skíðað er á ís. Við skyldum alltaf skíða í halarófu, hann væri alltaf fremstur og hafa skyldi 2-3 metra á milli manna.

DSCN4532

Við fórum síðan upp á hæð nokkra við þorpið þar sem við sáum vel yfir umhverfið og horfðum yfir í áttina til Ammassalik eyju en þar er nánast enginn ís þar sem miklir straumar eru þarna á milli.

DSCN4536

Ef litið er af hæðinni í átt að Apusijakeyju sést hvar ísinn byrjar, þarna myndi leið okkar liggja á skíðunum daginn eftir.

DSCN4544

Leið okkar lá þennan dag um víkur og voga, ýmist á ís eða landi. Hér að ofan má sjá þar sem Fjallaleiðsögumenn hafa útbúið eitt af mörgum klifursvæðum í nágrenni Kulusuk en þeir hafa seinustu tvö sumur staðið fyrir klifurnámskeiðum fyrir börn í Kulusuk. Í umhverfi þar sem ekki bjóðast mörg tækifæri er þetta mjög gott og merkilegt framtak.

Á myndinni hér að ofan má einnig sjá hvar heimamenn eru að koma að landi með báta sína og geyma þá við ísbrúnina. Þarna veiða menn gjarnan sel og voru veiðimenn einmitt að koma að landi með einn slíkan þegar okkar leið lá þarna um.

DSCN4547

Hér má sjá hvernig menn festa bátana með krók í ísinn.

DSCN4552

Nú var komið að því að komast á land, leiðin lá eftir veiðimönnunum sem rétt áður höfðu dregið nýveiddan sel af ísnum yfir á land. Við vorum heldur klunnalegri að klöngrast yfir á fastalandið.

DSCN4553

Þegar inn í þorpið kom mátti víða sjá veiði dagsins og hundana liggja stutt frá. Selir eru mikið nýttir til manneldis og eru einnig mikilvæg fæða fyrir hundana. Eins og ég hef áður nefnt er stutt síðan þetta var afar frumstætt veiðmannasamfélag og enn eru veiðar mikilvægur hluti tilveru fólksins sem þarna býr.

Við komum okkur heim í húsið og komum okkur fyrir. Ásdís og Þorbjörg gerðust yfirkokkar og göldruðu fram kvöldmat úr freðnum fiski og frosnum kartöfluskífum. Með þessu útbjuggu þær dýrindis sósu.

Á morgun tæki alvöruferðalagið við og því þurftum við um kvöldið að flokka dótið sem við vorum með, hvað við ætluðum að taka með í leiðangurinn og hvað við töldum okkur geta verið án og vildum geyma í húsinu.

Það var óraunverulegt að sofna þarna á loftinu í Kulusuk út frá spangólandi sleðahundunum.

Næsti hluti þessarar ferðasögu er hér

 

 

Um Kristjana Bjarnadóttir

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com
Þessi færsla var birt undir Blogg. Bókamerkja beinan tengil.

7var við Gekk ég yfir sjó og land – Dagur 1

  1. Bakvísun: Gékk ég yfir sjó og land – Dagur 2 | Efst í huga

  2. Bakvísun: Gekk ég yfir sjó og land – Dagur 3 | Efst í huga

  3. Bakvísun: Gekk ég yfir sjó og land – Dagur 4 | Efst í huga

  4. Bakvísun: Gekk ég yfir sjó og land – Dagur 5 | Efst í huga

  5. Bakvísun: Gekk ég yfir sjó og land – Dagur 6 | Efst í huga

  6. Bakvísun: Gekk ég yfir sjó og land – Dagur 7 | Efst í huga

  7. Bakvísun: Enn eitt árið | Efst í huga

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s