Enn eitt árið

Það er notalegur siður við áramót, að líta til baka, reyna að átta sig á hverju maður hefur áorkað, hvað hefur drifið á dagana og samhliða að horfa aðeins til framtíðar.

Árið sem er að líða hefur verið mér gott, engin stór áföll í mínum allra nánasta hring. Þó má geta þess að það fækkar í hópi þess fólks sem skipaði mikilvægan sess í æsku minni, Heiða frænka, Hanna hans Kalla og Elli í Dal kvöddu þennan heim, þeirra er sárt saknað. Einnig máttu tvær æskuvinkonur mínar horfa á eftir syni og tengdasyni og við þessi tímamót hugsa ég til Önnu, Rósu og fjölskyldna þeirra.

Það voru einnig nokkrir atburðir tengdir gleði, dóttir mín fékk fasta stöðu hjá ríkisskattstjóra og líkar vel, hvort sem er í skattaeftirliti eða að eltast við virðisaukaskatt. Hennar markmið þessa dagana er að ná aurum inn fyrir ríkissjóð og ekki veitir af. Sindri og Krissa fluttu búferlum og keyptu íbúð í næsta nágrenni við mig og búa nú allir mínir afkomendur í stuttu göngufæri sem er afar notalegt.

Barnabörnin dafna vel, Sara hóf sitt seinasta leikskólaár en Arnar sitt fyrsta. Þau hafa notið þess seinustu mánuði að vera bæði í nágrenni við afa og ömmu. Ég hef nokkrum sinnum tekið þau saman í hjólatúr þar sem þau sitja saman í hjólakerrunni og ferðast um nesið, skoða fugla, fara á róló eða bara rúlla um. Smám saman eflast tengslin milli þeirra þó þrjú og hálft ár skilji á milli.

Stór gleðiatburður átti sér svo stað á Jónsmessu þegar mín kæra vinkona Þóra gekk að eiga sinn heittelskaða Örvar. Sú ástarsaga snertir mig svo djúpt að ég (hrossið sjálft) grét eins og Gullfoss sjálfur þegar þau gengu inn kirkjugólfið að Mosfelli.

Sem oft áður sinnti ég útivistaáráttunni vel. Hvað það varðaði var þetta gott ár, gönguskíði með gönguskíðagengi Íslenskra á hverju þriðjudagskvöldi eftir vinnu, með höfuðljós í niðamyrkri fyrri hluta árs en í skínandi vorbirtu þegar sól hækkaði á himni. Um helgar voru svo á dagskrá skíðaferðir með þeim hópi eða öðrum þegar veður gaf. Ef lítið var um snjó og eftir að snjóa leysti voru svo gönguferðir með Flökkukindum eða öðrum vinum. Þannig var mitt líf þetta árið svona í stuttu máli.

Fjallgönguannáll ársins er sem hér segir.
Janúar:
Gönguskíði: Brennisteinsfjöll, Heiðmörk, Skálafell, Hellisheiði, Lambafell
Göngur: Helgafell Hafnarfirði, Þyrill
Febrúar:
Gönguskíði: Leiti, Húsfellsbruni, Heiðmörk, Sköflungar, Seltjarnarnes, Sandskeið, Lakahringur
Mars:
Gönguskíði: Glerárdalur (2 dagar), Gönguskarð, Flateyjardalur, Hrossadalur
Göngur: Skarðshyrna
Apríl:
Gönguskíði: Fremstidalur, Grænland (7 dagar), Helgrindur
Maí:
Gönguskíði: Bláfjöll
Göngur: Hróarstindar
Júní:
Göngur: Álútur, Esja (2x), Mosfellsku Alparnir,
Júlí:
Göngur: Ófeigsfjörður (3 dagar), Jökulfirðir (5 dagar)
Ágúst:
Göngur: Kattahryggir (Þórsmörk), Lambatindur, Kaldbakshorn, Skarðsheiði
September:
Göngur: Leggjabrjótur
Október:
Göngur: Grunnbúðir Everest (13 dagar)
Nóvember:
Göngur: Sveifluháls, Kirkjustígur

Það fylgir því óneitanlega ákveðin trega og saknaðartilfinning að skoða þennan lista, ótal minningar og tilfinningar rifjast upp tengdum náttúrunni, menningu og félagsskapnum. Að þessu sinni voru tvær ferðir utan Íslands sem báðar fara á topplista.

Að venju ætla ég að nefna bestu ferðir ársins, þar eru utanlandsferðirnar tvær mér minnisstæðastar. Mér er ómögulegt að gera þar upp á milli, ferðin í Grunnbúðir Everest nú í október er þó líklega mesta ævintýrið, þetta var svo mikið ferðalag og ævintýri tengt framandi menningu og ólýsanlegs landslags sem orð ná ekki að lýsa.

Í apríl fórum við Darri með gönguskíðahópnum okkar til Grænlands. Þessi ferð er án efa með stærstu ævintýrum sem ég hef upplifað, skíðaganga á ís, ferðast með púlku í eftirdragi og tjalda í snjó auk þess að kynnast austur Grænlandi að vetrarlagi er upplifun sem ekki er hægt að lýsa í stuttu máli.

Það er hörð samkeppni um þriðja sætið. Líklega verð ég að velja helgarferð okkar Darra á slóðir forfeðra minna þegar við fórum í helgarferð norður á Strandir, slógum upp tjaldi í Asparvíkurdal og gengum á Lambatind og Kaldbakshorn. Þetta voru langþráðir tindar og hrepptum við ótrúlegt veður og skyggni þar sem þokan lá með ströndum og inn um víkur og voga en ofar á fjallatindum skein sólin og fjallgarðarnir risu sem eyjaklasar ofar skýjum.

Að þessu sinni eru engin stór ferðaplön á borðinu fyrir árið 2019, það má þó gera ráð fyrir að okkur detti eitthvað skemmtilegt í hug, hugmyndavinnan er hafin, hvað verður mun skýrast á nýju ári.

Heilsufarið hefur verið gott og að venju hef ég stundað ýmis konar hreyfingu stíft og skráð samviskusamlega niður í exelskjalið góða sem er ágætis aðhald til að fylgja eftir æfingum. Markmiðið mitt hefur undanfarin ár verið að ná 200 hreyfidögum á ári, slíkt er ætíð háð skilgreiningu á hvað er hreyfidagur. Hef ég skilgreint það sem að lágmarki 30 mín hreyfingu, minnst 30 mín hjólatúr eða ganga á dag. Þar sem ég fer oft í spinning snemma á þriðjudögum og síðan á gönguskíði á þriðjudagskvöldum þá hef ég leyft þessum tveimur skiptum að telja sem 2 daga. Já, margir hafa gert grín að mér fyrir þetta en svona er mín skilgreining.

Hreyfimarkmiðin hafa seinustu ár verið sem hér segir:

  1. að ná að lágmarki 200 hreyfidögum á árinu. Hreyfing telst að hjóla í og úr vinnu, puð í ræktinni í að lágmarki 30 mín eða gönguferð að lágmarki 30 mín. Enginn bónus er fyrir hreyfingu oftar en 1x á dag eða langar göngur í þessari talningu fyrir utan hvað spinning á þriðjudögum og gönguskíði á þriðjudögum teljast sem 2
  2. að hjóla í vinnuna frá aprílbyrjun til septemberloka
  3. að fara í gönguferðir a.m.k. 52 daga á árinu 2018 (lesist fjallgöngur og gönguskíði)
  4. að skrá þetta allt samviskusamlega niður

Göngudagar á árinu urðu 63 og hreyfidagarnir 200 og allt var vandlega skráð þannig að markmiði nr 1, 3 og 4 náði ég. Ég var hins vegar ekki dugleg við að hjóla í vinnuna, skýrist það af ýmsu, stundum þurfti ég að keyra og sækja barnabarn, stundum lét ég veður aftra mér og stundum var ég hreinlega of löt, já ég get það líka. Hins vegar fjárfesti ég í nýju cyclocross hjóli um mitt sumar og þvílíkur gripur sem það er. Eftir þau kaup jukust hjólreiðar mikið og svo sannarlega vona ég að ég nái að fylgja því eftir á nýju ári.

Hér að neðan birti ég súlurit yfir hreyfiárangurinn.

Fyrir næsta ár ætla ég að halda sömu hreyfimarkmiðum með sömu skilgreiningum, þ.e. spinning kl 6.10 að morgni og gönguskíði að kvöldi sama daginn munu teljast sem 2 dagar.

Lestur skipar að venju stóran sess í afþreyingu hjá mér og að venju hef ég haldið bókhald yfir þær bækur sem ég hef lesið á árinu.

Saga Ástu – Jón Kalman
Sakramentið – Ólafur Jóhann Ólafsson
Smartís – Gerður Kristný
Dagar höfnunar – Elena Ferrante
Blómin í ánni – Edita Morris
Elsku Drauma mín – Vigdís Grímsdóttir
Ekki gleyma mér – Kristín Jóhannsdóttir
Týnd í Paradís – Mikael Torfason
Minningar Geisju – Arthur Golden
Kalak – Kim Leine
Hús tveggja fjölskyldna – Lynda Cohen Loigman
Einn Dagur – David Nicholls 
Það sem við tölum um þegar við tölum um ást – Raymond Carver
Kapítóla – Emma D.E.N.Southworth
Á hæsta tindi heims – John Hunt
Á fjalli lífs og dauða – Jon Krakauer
Ör – Auður Ava Ólafsdóttir

Hér heldur lesklúbburinn Lespíurnar mér við efnið og margar bækur hef ég lesið með þeim sem ég annars hefði ekki litið við. Margt mér til mikillar ánægju en stundum þarf ég að harka af mér til að komast í gegnum torfið.

Ég nýt þeirrar gæfu að hafa ákaflega gaman af starfi mínu og á þess kost að fylgjast með því sem er að gerast í mínu fagi. Ég fór í mars á vikulangt námskeið til Vínar og í maí fór ég á nokkurra daga ráðstefnu í Feneyjum. Báðar þessar ferðir veittu mér nýja þekkingu sem ég hef reynt að nýta í starfi. Já þrátt fyrir að vera orðin 54 ára er enn mögulegt að læra, þróast og þroskast og enn er þetta bara gaman. Ég veit að á nýju ári bíða mín enn frekari áskoranir sem ég er full eftirvæntingar að takast á við.

Heilsa og þrek er með besta móti og er það ótrúleg gæfa að geta sagt það. Það er því full ástæða til að vera óhrædd við að skipuleggja enn frekari ferðalög sem krefjast líkamlegrar áreynslu og vonandi bíða mín spennandi ævintýri á nýju ári.

Ég þakka öllu samferðafólki mínu ánægjulegar samverustundir á þessu ári sem og öðrum sem liðin eru. Ég hlakka til frekari samveru með ættingjum og vinum á nýju ári.

Öllum sem lesa þessar línur óska ég gæfu og gleði á komandi tímum.

Um Kristjana Bjarnadóttir

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com
Þessi færsla var birt undir Blogg. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd