Mótlæti og meðlæti að Fjallabaki

Orka okkar í dagsins önn er ekki óþrjótandi auðlind. Öll höfum við þörf á að endurhlaða batteríin öðru hvoru, hvert okkar með sínum hætti. Orkuhleðsla mín felst í ferðum um óbyggðir Íslands, hvort sem er á sumri eða vetri. Vetrarferðum á hálendi Íslands fylgir ákveðin áhætta, það er ekki alltaf gefið að ferðin gangi fullkomlega samkvæmt plani, því verður maður ávallt að vera viðbúinn, líkamlega, útbúnaðarlega og ekki síst andlega.

Um seinustu helgi fór ég með Gönguskíðagengninu í ferð á gönguskíðum um syðra Fjallabak undir forystu Einars Torfa Finnssonar. Í svona ferðum er afar mikilvægt að allir þátttakendur uppfylli kröfur um líkamlegan og andlegan styrk sem og að hafa allan útbúnað í lagi. Hér að ofan má sjá ferðafélagana, talið frá vinstri: Einar, Frans, Grímur, Guðný, Kristjana, Lilja, Vala og Linda. Allt úrvalsfólk sem uppfyllir allt sem ég taldi að ofan, fyrirtaks ferðafélagar.

Á föstudegi var okkur ekið langleiðina að Öldufelli, norðaustan Mýrdalsjökuls. Færið á leiðinni var heldur blautt og þurfti margoft að beita lagni til að hjakkast í gegnum krapann á leiðinni. Við lögðum af stað úr Reykjavík kl. 8.00 um morguninn og var klukkan næstum orðin 17 þegar við lögðum af stað á skíðunum. Skal það viðurkennt að svona bílahjakk í slæmu færi er ekki beint mitt uppáhald og hef ég alveg takmarkaða þolinmæði fyrir slíku.

Eftirvænting bjó með okkur öllum þegar við hlóðum púlkurnar, áttum von á ca 14km göngu í skálann í Strútslaug, þetta er vegalengd sem var vel innan þægindamarka fyrir okkur öll. Þó við byggjumst við að ganga seinni hlutann í myrkri, þá var það einnig eitthvað sem við erum mjög vön að gera.

Fljótlega var okkur ljóst að þó við værum komin þetta ofarlega var allt rennblautt, mikill krapi og vatn lá í öllum lægðum. Það var alls ekki auðvelt að finna leið yfir krapann, sums staðar var straumur og djúpt vatn og sums staðar gaf krapaður ísinn sig og maður sökk skyndilega. Þannig þrömmuðum við áfram, Einar fann leiðir og við á eftir.

Svo kom myrkur…………við fundum til ljósin og vonuðum að batteríin dygðu þar til við kæmum í skála. Ég var með tvö ljós sem bæði voru fyrir 3 stk af AAA batteríum og til viðbótar ómælt magn af vara batteríum. Ég óttaðist ekki ljósleysi fyrir mig en verið gat að félagarnir væru verr settir. Í myrkrinu átti Einar einnig erfiðara með að finna leið, hann sá ekki marga metra fram fyrir sig og þurfti því að reiða sig á hæðarlínur á korti. Einhverju sinni hrundi snjólag undan Lindu og hún stóð í eðjunni upp í klof, með skíðin ofan í krapanum. Það var smábras að koma henni upp og var hún rennblaut. Hún skipti um sokka sem hafði í raun ekkert að segja þar sem skórnir voru rennandi, þeir voru það hjá okkur öllum. Einar fyrirskipaði okkur hinum að aðstoða hana, næra okkur öll og drekka, einnig að passa upp á næringu Lindu. Á meðan reyndi hann að glöggva sig á hæðarlínum.

Ótal sinnum þurftum við að snúa við, taka krækju, jafnvel gengum í hringi. Já við fórum í jaðar Mýrdalsjökuls til að vera nógu ofarlega og dugði það tæplega til, þvílíkur var krapinn…………Og svo varð miðnætti, þá vorum við á Mælifellssandi við rætur Mælifells. Meðfram því lá krapaá sem við komumst ekki yfir, gerðum margar tilraunir. Allan þennan tíma breyttust viðmið okkar um hvað væri fært, fyrst var það að krapinn færi ekki ofar en á miðja skó, þarna var viðmiðið orðið að vatnið færi ekki ofar en í miðja kálfa.

En allt hafðist þetta að lokum, við komumst upp að Mælifellinu og eftir það var bara að halda meðfram hlíðum í Strútsskála. Ég var allan þennan tíma róleg, mér leið orkulega vel, vissi af nægum smurðum flatkökum og lifrarpylsu í púlkunni og mér var ekki kalt á meðan ég var á hreyfingu.

Strútsskála náðum við um kl þrjú um nóttina og höfðum þá verið á gangi í rúma 10klst og í stað 14km höfðum við gengið 27km. Þetta var í misjöfnu veðri, stundum allmikilli rigningu og það var ekki fyrr en ég kom í skálann og stoppaði að mér var ljóst að ég var rennblaut. Fína þriggjalaga goretex úlpan mín er orðin 8 ára og míglak. Það sem var fyrir innan úlpuna var níðþungt af bleytu. Nýju fínu buxurnar mína héldu og var ég þurr frá mitti og niður á miðja kálfa. Skór og sokkar voru rennandi.

Við vorum fegin að komast í skálann, möguleikinn á að verða úti í rigningu á hálendinu var raunverulega fyrir hendi þarna um nóttina.

Forstofan í skálanum er lítil en rúmaði okkur öll. Einar stillti inn kóðann á lyklaboxinu en ekkert gerðist. Kóðinn virkaði ekki. Þarna er ekki símasamband en haft var samband við Útivist í gegnum krókaleiðir og gervihnött og við fengum sama kóðann og annan til, til baka. Ekker virkaði. Vissulega rúmaði forstofan okkur öll standandi, við yrðum amk ekki úti. En þetta var slæm staða, við Lilja vorum með bensínprímus og gátum því brætt snjó og orðið okkur úti um vatn en við þurftum meira skjól. Úr varð að með krók úr fatahenginu og ísexi að vopni voru lamirnar á hurðinni slegnar úr og hurðin svo spennt upp. með ísöxum……………..við brutumst inn.

Þetta bras okkar tók dágóðan tíma, líklega vorum við komin inn í skálann um kl 4 um nóttina. Við kyntum upp, dreifðum úr blautum fötum, suðum vatn og fengum okkur vel að borða. Í rúmin vorum við komin um kl 5 um morguninn, hvíldinni fegin.

Áætlunin var að fara á skíðum í Strútslaug á laugardeginum. Þá var veður frekar leiðinlegt, rigning og blautt. Við vöknuðum um kl 12, öll utanyfirföt enn blaut og stemning fyrir miklilli útiveru var takmörkuð. Því héldum við til í skálanum, hvíldum okkur, spjölluðum saman og spiluðum. Svona skálalíf er líka dásamlegt.

Svo rann upp sunnudagur, þá var kominn tími á að halda ferðinni áfram, næsti áfangastaður var Hvanngil. Nú voru öll föt orðin þurr og skór aðeins rakir en ekki rennblautir. Við tókum saman okkar hafurtask og þrifum skálann. Hurðin hafði strax verið sett á lamir, vissulega sá aðeins á körmunum en samviska okkar beið ekki mikinn hnekki því innbrotið var framið í neyð.

Um nóttina hafði frosið og minnháttar snjór lá ofaná hjarni, því var færið dásamlegt, eins og best verður á kosið með púlkur. Á myndinni hér að ofan má sjá Mælifellið og þetta bláa er vatn og krapi sem við höfðum þurft að ösla framhjá og stundum í gegnum.

Skyggnið þennan dag var gott og lífið varð bara dásamlegt. Allt erfiði föstudagsins gleymdist og við runnum áfram í tómri hamingju.

Ekki voru allar lægðir með vatni fullstirðnaðar í frostinu, stundum þurftum við að krækja langt fyrir, en okkur var alveg sama, færið var dásamlegt og við runnum bara áfram í algleymi.

Hádegispásan var tekin á sléttum snjónum, þar sem við horfðum agndofa á fegurðina í kring.

………..svo tók arkið við milli fagurra fjallanna.

Mótlæti föstudagsins gleymdist auðveldlega í meðlæti þessa dags.

Svo kom að því að skálinn í Hvanngili birtist eftir tæplega 17km gang. Allir í þurrum fötum, ennþá miður dagur, forstofan rúmgóð og lyklakóðinn sem við höfðum var réttur. Við komum okkur vel fyrir í skálanum, teygðum aðeins úr okkur og héldum síðan í eftirmiðdagstúr. Skoðum Brattháls og fórum síðan að kanna leið morgundagsins sem lá um Kaldaklofskvísl og Bláfjallakvísl. Það er göngubrú á Kaldaklofskvísl. Sú á var undir snjó en Bláfjallakvíslin var galopin og myndi þurfa að vaða. Það kom okkur ekki á óvart, við vissum það.

Um kvöldið tók hefðbundið skálalíf við með röfli og spilamennsku. Mikið hvað þetta er allt dásamlegt!

Máudagurinn rann upp, enn bjartari og fegurri og fínasta skíða og púlkufæri. Skálinn var tæmdur og þrifin á innan við 2klst.

Eins og við vissum þurfti að vaða Bláfjallakvíslina. Hún er ekki djúp og við vorum öll með góða neoprensokka og því var ekkert mál að fara þarna yfir þó hvert okkar þyrfti að fara tvær ferðir því tveir og tveir þurftu að bera hverja púlku.

Þennan dag var enginn endir á birtu og fegurð fjallanna.

Ég á endalausar myndir frá þessum degi og erfitt að velja úr.

Hér eru Tindfjöll framundan, snævi þakin.

Þarna komum við að þar sem vatnið sytraði úr tjörn í smá brekku. Vatnið hafði grafið nokkra farvegi gegnum þykkan snjóinn. Við gátum stokkið yfir skurðina og með því að draga púlkunna snöggt yfir hvern skurð gátum við komið þeim þurrum í gegn.

Við þurftum að ganga niður brekkuna niður að Markarfljótinu og hjálpast svo að við að bera púlkurnar yfir brúna. Það er létt verk fyrir samheldan hóp.

Seinasti spölurinn var aðeins hæðóttur, slíkt þykir mér mjög skemmtilegt og krefjandi að renna í hlykkjum niður brekkuna með púlkuna æðandi á eftir mér.

Seinasti dagurinn endaði í 18,5km. Við komumst ekki alveg niður á Einhyrningsflatir eins og áætlað var, bíllinn var kominn ofar til að sækja okkur.

Það var heldur betur kátur hópur sem stillti sér upp í ferðalok. Við höfðum svo sannarlega fengið dágóðan skerf af mótlæti fyrsta sólarhringinn, vaðið krapa og bleytu langt upp undir Mýrdalsjökul í 27km á 10klst í myrkri og rigningu. Komið í læstan skála og brotið hann upp.

Svona mótlæti kennir manni að njóta meðlætisins sem við fengum svo ríkulega seinustu tvo dagana. Ein samferðakonan sem var í sinni fyrstu púlkuferð hafði hugsað með sér þarna um nóttina að þetta væri nú ekki alveg fyrir hana. Sú hugsun var á bak og burt í ferðalok.

Svona ferðir eru ekki farnar nema vera með traustan leiðsögumann. Af miklu öryggi leiddi Einar okkur gegnum krapann og notaði hæðarlínur á kortum til að velja traustustu leiðina. Allir ferðafélagarnir voru rólegir allan tímann fullvissir um að leið að skálanum fyndist.

Hér að ofan er mynd af leiðinni
Neongrænt dagur 1: Öldufell – Strútsskáli 27km
Blátt dagur 2: Strútsskáli – Hvanngil 16,7km
Rautt dagur 3: Hvanngil – ofan Einhyrnings 8,4km

Birt í Blogg, Ferðalög | Færðu inn athugasemd

Kuldaþjálfun á Langjökli

Ferð eftir endilöngum Langjökli hefur um nokkra hríð verið á óskalistanum, horfa ýmist austur eða vestur yfir hálendið í vetrarskrúða hefur heillað mig og Þursaborgir á miðjum jöklinum hefur mig lengi langað að skoða. Því var það ekki spurning hjá mér að skrá mig í ferð með gönguskíðagengi Einars Torfa Finnssonar þegar slík ferð bauðst nú um liðna helgi.

Þegar styttist í ferðina var ljóst að ískalt heimskautaloft myndi næða yfir landið meðan á ferðatímanum stæði. Með slíka vitneskju tók sig upp alls kyns kvíði, kuldakvíði og sokkakvíði voru verstir. Ég taldi mig búa yfir ágætri vetrarferðareynslu þó ég hefði aldrei sofið í meira en -16°C frosti og ljóst var að frostið yrði allmiklu meira. Einnig taldi ég mig eiga útbúnað sem stæðist þetta að mestu leiti nema að skíðaskórnir mínir leyfa ekki nema takmarkað magn af sokkum. Helst þurfti ég að geta verið í tvennum sokkum en mögulega væru skórnir þá of þröngir. Því plagaði sokkakvíðinn mig verulega.

Þegar kom að ferðadeginum var einnig ljóst að Darri kæmist ekki með. Það er vont að hafa ekki besta ferðafélagann en í staðinn fékk ég Grænlandssvefnpokann og Grænlandsdúnúplpuna hans.

Það voru glaðbeittir ferðafélagar sem hittust snemma á föstudagsmorgni og létu ekki tal um -30°C frost raska góða skapinu.

Ferðafélagrnir voru að þessu sinni talið að ofan til vinstri: Kristjana, Lilja, Þorbjörg, Vala, Grímur, Hróbjartur Darri, Rósa og Páll Ásgeir.

Foringi okkar og leiðsögumaður var Einar Torfi Finnsson, margreyndur jökla og heimskautafari.

Við vorum flutt með miklum fjallatrukk upp fyrir Hveravelli með stuttu stoppi við Gullfoss þar sem sokkakvíði minn fékk útrás og ég fjárfesti í viðbótarsokkum og pari af ullarfingravettlingum. Þetta var svona „hífa, slaka, gera eitthvað“ ráðstöfun.

Fyrir norðan Hveravelli kræktum við upp fyrir norðanverðan Langjökul og trukkurinn okkar ók með okkur upp að jöklinum.

Þarna var alger stilla, heiðskírt og þó frostið væri töluvert var lítið mál að hlaða púlkurnar. Þvílíkur munur og þvílík sæla að hafa allt hálendið fyrir augunum og lífið gat ekki berið betra. Nú var bara að arka af stað.

Eftir 5,4km göngu vorum við komin í 1300m hæð og klukkan orðin 17:30, þá stöðvaði stjórinn gönguna og tilkynnti að hér skyldi tjaldað. Það var orðið framorðið og ekki gott að bíða of lengi með að setja okkur niður. Áður en tjöldun hófst fengum við okkur aðeins að borða og drekka og bættum aðeins á okkur fötum. Ég fór í regnbuxur og viðbótar flík að ofanverðu.

Ég var búin að fá inni í tjaldi með Einari og Lilju. Einar var með 4ra manna tjald sem var notað í leiðangri yfir Grænlandsjökul seinasta vor. Þetta er stórt og þægilegt tjald en það tók okkur smátíma að koma því upp. Ég tók að mér að hengja innra tjaldið upp í það ytra, það þurfti ég að gera berhent og það er engu logið með að ég varð algerlega freðin á puttunum við það verk. Þarna hefndist mér aðeins fyrir sjálfbirgingsskapinn, ég hef verið nokkuð roggin með mig þar sem ég hef getað unnið berhent í allnokkrum kulda. Þetta var hins vegar umfram þolmörkin og var ég svo sannarlega fullþrjósk í þessu verki og tók ég mér enga pásu til að hlýja hendurnar

Húsið okkar komst upp og þá tók við salernisgerð og hefðbundin tjaldverk svo sem að bræða snjó og hita vatn. Það er engu logið um kuldann þarna um kvöldið en inni í tjaldinu var þokkalega notalegt þar sem við vorum öll vel búin.

Nóttin var köld en eins og ég sagði þá var ég með Grænlandsjökulsbúnaðinn hans Darra og leið ágætlega. Ég var í tvennum síðum ullarbuxum, einum hálfsíðum og ullarnaríum. Til viðbótar svaf ég í primaloft buxum í jöklasvefnpoka. Þetta dugði vel. Um nóttina bætti ég á mig þykku dúnúlpunni og leið bara vel. Verstar eru pissuferðirnar á nóttunni en sem betur fer var veðrið stillt, enginn vindur.

Um morguninn var allt vel hrímað af kuldanum, skíðin, tjöldin og púlkupokarnir á púlkunum. Morgunverkin eru tafsöm og það tók okkur 3klst að taka okkur saman og komast af stað. Bræða þarf snjó fyrir allt drykkjarvatn og jafnvel þó bensínprímusar séu öflugir þá tekur tíma að kynda þá í svona kulda. Ég veit ekki alveg hvað hitastigið fór lágt en einhverjir töluðu um -26°C þarna um morguninn og hefur vafalaust verið talsvert kaldara um nóttina.

Sögðu Einar og Lilja að þetta hefði verið eins og það var á Grænlandsjökli í ferðinni síðastliðið vor. Ég verð að viðurkenna að mánuður í svona kulda er fullmikið fyrir mig þó þetta hefði verið í lagi svona eina nótt.

Klukkan var orðin 10 um morguninn þegar við lögðum af stað. Þá var lítill vindur og munar það miklu um hvernig maður upplifir kuldann. Ég lagði af stað í primaloftbuxunum mínum utanyfir göngubuxurnar og þar fyrir innan var ég í tvennum síðum ullarbuxum, einum hálfsíðum og ullarnaríum. Þessi búnaður reyndist feykivel. Primaloftbuxurnar mínar eru karlastuttbuxur en þar sem ég er mjög stuttfætt þá ná þær vel niður fyrir hné. Þar fyrir neðan var ég í þykkum legghlífum og var það einnig góður búnaður. Sokkakvíðinn skilaði mér þykkum sokkum og öðrum þynnri. Ég held að það hafi verið misráðið því þetta var heldur þröngt og gekk mér ekki vel að ná upp hita í tánum en það gekk þó alltaf á endanum. Ég var áfram kærulaus með fingurna því það hefur aldrei verið vandamál hjá mér að ná upp hita á höndum. Á höfðinu var ég með mörg lög af húfum og hettum sem auðvelt var að taka af eða setja upp eftir því hvernig mér leið. innst var ég með ullarlambhúshettu sem var með neti sem hægt var að draga upp fyrir nef og skýla þannig andlitinu. Þetta reyndist einnig mjög vel.

Leið okkar lá eftir vestanverðum jöklinum og blasti Eiríksjökull við. Vindurinn var í bakið og truflaði lítið. Sóttist okkur ferðin vel og allir kátir með stórkostlegt útsýni til suðurs og vesturs.

Fyrir hádegispásuna hlóðum við upp skjólvegg og munaði það miklu. Hitastigið var mælt og reyndist vera -24°C án vindkælingar. Með vindkælingu var það sagt -30°C. Mér gekk vel að borða, var með harðfisk, feitar pylsur sem ég hafði skorið niður, feitan ost í bitum og smjör í 30gr stykki sem ég einfaldlega beit í og hrökkbrauð. Þetta er nesti sem ég hef verið að útfæra í vetrarferðum og dugar vel. Smurt brauð og flatkökur er einfaldlega beinfreðið og erfitt að bíta í.

Eftir hádegismat var arkað áfram suður jökulinn og rétt suðvestan við norðurbunguna var tekin sveigur til austurs og stefndum við rétt norðan við Þursaborg. Þvílík fegurð. Þar var ég skynsöm og tók ekki upp myndavél eða síma, það var bara of kalt.

Þegar þarna var komið blasti við okkur hálendið austan Langjökuls, Kerlingarfjöll og Hofsjökull. Nær var svo Hrútfell og Fjallkirkja sem blasir við á myndinni hér að ofan. Fjallkirkja er snæviþakti kletturinn sem stendur hæst næst okkur. Á rananum sem gengur þar út frá má greina örlítið hús, en það er skálinn við Fjallkirkju en þangað stefndum við. Vorum við vel sátt við að eiga hús í vændum, það var kalt og heldur meiri vindur en kvöldið áður. Einnig var jökullinn þarna glerharður og líklega ekki auðvelt að stinga niður haldi fyrir tjöldinn, hvað þá að grafa fótagryfju í fortjaldinu.

Þarna var ég nokkuð kærulaus með fingurna, fegurðin var slíka að ég tók svolítið af myndum. Við það urðu puttarnir ansi kaldir og átti ég stundum erfitt með að renna upp úlpunni á eftir.

Til að komast upp að skálanum þurfti að klöngrast snarbratta brekku sem liggur þar upp. Í fjarska leist okkur ekki á að það væri vænlegt. Þegar nær dró sáum við bílför þar upp en eigi að síður var þetta snarbratt og voru keðjubroddar nauðsynlegir til að ná nægilegri fótfestu til að geta dregið púlkurnar.

Skálinn er pínulítill skúr og var hann vel ísaður að utan og þurfti að beita ísöxum til að komast að dyrunum. Það hafðist án erfiðleika. Þótt hann væri lítill og þröngur vorum við skjólinu fegin. Í rúmstæðunum voru engar dýnur enda eins gott því þær hefðu verið vel myglaðar og rakar. Við vorum með tjalddýnur sem dugðu okkur vel. Rúmstæði eru fyrir 12 manns, allt tvöfaldar kojur en svo þröngar að þær rúmuðu ekki tvær tjalddýnubreiddir. Rúmstæði við endagaflinn var stutt, svona passlegt fyrir mig sem næ ekki 160cm.

Í skálanum var -12°C þegar við komum en okkur fannst þetta hlýtt, engin vindkælig og munar það miklu. Ég tók að mér tvo bensínprímusa og í svona skálalífi um vetur er snjóbræðsla ærið verkefni. Það eru mörg önnur verk sem þarf að sinna, ganga frá skíðum og púlkum, bera inn dót og koma því haganlega fyrir í litlu plássi, berja klaka frá gluggum og bera inn ís og snjó til að bræða. Þetta er risastórt samvinnuverkefni og þarna unnum við öll eins og vel smurð vél að því að láta þetta litla samfélag okkar ganga. Þessi samvinna er það sem gerir svona ferðir svo gefandi, allir sýna sínar bestu hliðar og gefa af sér.

Fljótlega eftir að ég kom í skálann tók ég eftir bletti á hægri vísifingri og áttaði ég mig á að þetta var byrjandi kal. Eins og ég hef áður sagt var ég allan tímann mjög kærulaus með fingurna á mér en líklega fór puttinn verst þegar ég var að hengja upp innra tjaldið í tjaldhimininn kvöldið áður. Á nokkrum öðrum fingrum voru einnig hvítir blettir sem voru byrjandi yfirborðskal. Fingurgómarnir voru dofnir en ég var ekki með verki. Ég var ekki ein um að vera með yfirborðskal og eftir að hafa skoðað veðurspá fyrir næsta sólarhring var sú ákvörðun að kalla á bíl til að sækja okkur ekki erfið. Heldur hafði bætt í vindaspá miðað við það sem var þegar lagt var af stað. Öll hefðum við viljað klára ferðina, taka tvo skíðadaga í viðbót og eina tjaldnótt eins og áætlunin gerði ráð fyrir. Það er bara þannig að mesti hetjuskapurinn felst ekki í því að tefla öllu í tvísýnu heldur að kunna að hætta áður en þangað er komið.

Jökullinn var grjótharður og því auðvelt að komast að Fjallkirkju á samskonar bíl og ók með okkur upp eftir og því ekki erfitt að fá bíl þangað. Pínu skrýtið að kalla bara eftir leigubíl þarna á þessum stað.

Við biðum í skálanum þar til stutt var í bílinn, þá græjuðum við okkur af stað. Eins og sést hér á myndinni að ofan er skálinn mjög lítill en veitti okkur gott skjól þessa nótt og fór bara ágætlega um okkur.

Við þurftum að koma okkur niður af fjallsrananum sem skálinn stendur á og aftur niður snarbratta brekkuna með púlkurnar. Flest okkar tóku tvö hverja púlku og fóru því tvær ferðir. Betri er krókur en kelda, grínlaust að renna til á rassinn með þunga púlku í svona snarbrattri brekku.

Fyrir neðan brekkuna beið bíllinn og vorum við snögg að hlaða hann. Vindurinn jókst þegar við komum vestar á jökulinn og var skyggnið síðra en daginn áður. Vindaspáin gekk eftir og hefði verið lítið gaman að tjalda þarna um kvöldið og var ég mikið fegin þessari ákvörðun að snúa heim á leið.

Svona ferð fer í reynslubankann. Ég var að mestu ánægð með allan búnað, það er alltaf spurning með skóstærð og fjölda sokkapara í hverjum skó. Það er eitthvað sem ég þarf að velta fyrir mér, líklega hefði verið betra að vera í einum þykkum eða tvennum aðeins þynnri. Mestu mistök mín skrifast á kæruleysi mitt varðandi að vinna berhent. Ég hef alltaf verið fljót að ná upp hita á höndum aftur ef mér hefur orðið kalt, því var ég illa vakandi fyrir möguleika á kali. Sem betur fer er þetta bara yfirborðskalblettir sem verða fljótir að gróa og ég verð mun varkárari með hendurnar í framtíðinni.

Ég er ekki hætt, nei sko aldeilis ekki, því þrátt fyrir kuldann þá var þetta gaman og enn og aftur sný ég reynslunni ríkari til baka með útvíkkaðan þægindaramma.

Hér að neðan má sjá trakkið
Blátt: Dagur eitt 5,4km
Rautt: Dagur tvö 21,3km

Birt í Ferðalög | Færðu inn athugasemd

Við áramót

Ég hef haft þann sið um nokkurra ára skeið um áramót að gera upp nýliðið ár og jafnframt að velta framtíðinni fyrir mér og setja mér markmið.

Á árinu 2022 vorum við orðin vön takmörkunum á umgengni við fólkið okkar, samkomutakmarkanir, fjöldatakmarkanir á viðburðum og fjarlægðartakmarkanir vegna covid var orðið partur af okkar venjulega lífi. Mögulega vorum við orðin svo vön þessu að þegar við fengum frelsið aftur um mitt ár, vorum við svo vön að liggja í hýði okkar að við erum enn ekki að fullu farin að lifa fyrra félagslífi.

Stærsti fjölskyldutengdi viðburðurinn var fæðing fjórða barnabarnsins þann 3. nóvember en þá fæddi Rán lítinn dreng sem síðar fékk nafnið Darri. Litli Darri dafnar vel og mun von bráðar taka þátt í ærslum eldri frændsystkinanna.

Eldri barnabörnin uxu og döfnuðu einnig vel. Sara er orðin 9 ára, æfir fimleika af krafti og farin að keppa á fimleikamótum og stendur sig þar með miklum sóma. Söru fór mikið fram á skíðum og fórum við nokkrar ferðir saman á svigskíði. Í vor renndi hún sér niður Kóngsgilið í Bláfjöllum og telst hún þá vera útskrifuð úr skíðaskólanum. Hún kom með okkur í helgarferð í Strútslaug þar sem við fórum með allan farangur á bakinu og tjölduðum við laugina. Mikið hvað það verða til dýrmætar minningar í slíkum ferðum.

Ég sé að í seinasta áramótapistli setti ég mér það markmið að taka Arnar með í göngu með allt á bakinu. Ekki stóð ég við það en svo sannarlega langar mig til þess. Arnar fékk byrjendakennslu á svigskíðum og á vormánuðum fórum við með alla krakkana í Bláfjöll og drógum þau á púlkum. Það var mikið ævintýri. Á haustmánuðum tókum við Söru og Arnar með okkur í helgarferð til Kaupmannahafnar. Við fórum í Tívolí, dýragarðinn og borðuðum á MacDonalds og skemmtum okkur vel.

Ennþá er Emma of lítil fyrir mikla skíðaiðkun, hún fór þó aðeins á skíði, mánuði fyrir tveggja ára afmælið og var bara nokkuð sátt. Það var líka ákveðið að hún væri of lítil fyrir helgarferð til Kaupmannahafnar, Sara ákvað að Emma og litli bróðir sem þá var ófæddur, færu saman seinna. Eins gott að standa við það. Í haust tók ég upp á því að sækja Arnar og Emmu í leikskólann einu sinni í viku og dekra aðeins við þau. Það dekur fólst að mestu í sundferðum og skemmtum við okkur öll vel í þeim hamagangi. Á vormánuðum stefni ég á að taka þau þrjú til skiptis í eitthvað prívatdekur. Er ég búin að fjárfesta í árskorti í skíðalyftur og vonandi get ég tekið þau eitthvað með mér.

Að venju átti alls konar útivist hug minn og hér er yfirlit yfir helstu ferðir:

Hér er útivistaannállinn:
Janúar:
Gönguskíði: 6x Bláfjöll
Febrúar:
Gönguskíði: 3x Bláfjöll, 2x Hólmsheiði, 2x Heiðmörk, Litla Kaffistofan/Hádegismóar
Göngur: Sprungubjörgunarnámsekið Sólheimajökli 2 dagar.
Mars:
Gönguskíði: Mosfellsheiði, Heiðmörk, Hólmsheiði, Vatnsnes, Jökulheimar-Sigalda 3 dagar
Apríl:

Gönguskíði: 5x Bláfjöll, Hellisheiði, Heiðmörk
Maí:

Gögnugskíði: 3x Bláfjöll, Skálpanes, Drangajökull 5 dagar
Hjól: Skógarhólar, Stýflisvatn
Júní:
Göngur: Möðruvallaháls/Esjuhorn, Kerlingar Vatnajökli
Júlí:

Göngur: Strútslaug 2 dagar, Úlfarsfell, Skúmhöttur Skriðdal, Hólmatindur, Vindbelgur Mývatnssveit, Ernir við Ísafjörð
Hjól: Jökuldalur/Jökuldalsheiði, Jökulsá Eystri, kringum Eyrarfjall Ísafjarðardjúpi, Vesturgatan 2 dagar, Dynjandi/Langanes
Ágúst:

Gönguskíði: Bárðarbunga
Göngur: Eldgos í Merardölum, Gígtindur Eyjafjallajökli, Dolomítar Ítalíu 5 dagar
September:
Göngur: Dolomítar Ítalíu 2 dagar
Október:

Göngur: Búrfell Grímsnesi, Vörðuskeggi Hengill
Desember:

Göngur: Hafrafell
Gönguskíði: Hólmsheiði, Heiðmörk

Þetta var ekki stóra ferðaárið þar sem ég fór færri stórar ferðir en oft áður og engin ferð með allt á bakinu var farin í sumar. Besta ferð ársins er án efa þegar við Ásdís vinkona mín fórum í 5 daga skíðaferð á Drangajökul. Þessi ferð var í svo mörgum skilningi frábær. Við vorum bara tvær á ferð með púlkurnar okkar og tjald og sáum sjálfar um allt skipulag og rötun sem er viðbótaráskorun. Slíkt hafði ég aldrei gert áður í vetrarferð og var mikill áfangi að takast á við það. Við áttum heilan dag uppi á jöklinum og vorum mjög heppnar með veður og höfðum útsýni yfir alla Vestfirði, gengum á Hrolleifsborg og helstu jökulbungur og gáfum okkur góðan tíma í að horfa út og suður. Á báðum leiðum þurftum við að takast á við „skyggni ekkert“ sem reyndi mikið á rötun og einbeitingu.

Í ágsút fylgdi ég Betu vinkonu minni á Bárðarbungu. Beta náði því á árinu að vera fyrsta konan sem toppar 100 hæstu tinda landsins og var Bárðarbunga einn af þeim. Við ókum í Gæsavötn þar sem við gistum og ókum upp að jöklinum og fórum svo á gönguskíðum á Bárðarbungu. Það var sérstök tilfinning að renna sér á gönguskíðum í ágústmánuði og mikið ævintýri að fá að taka þátt í þessari tindasöfnun með Betu.

Um mánaðamótin ágúst september fór ég í 7 daga göngu um ítölsku Dólómítana. Það var mikið ævintýri með félögum mínum í TKS. Dagleiðirnar voru strangar, flestar í kringum 20km og u.þ.b. 1000m hækkun og 1000m lækkun á hverjum degi. Náttúran er ægifögur þarna og kom það mér á óvart hversu vel hnén mín stóðu sig í þessari göngu.

Í árslok 2021 fór ég á námskeið í kuldaþjálfun sem varð til þess að ég fór reglulega í kalda pottinn í sundlauginni eftir átök í ræktinni. Ég get ekki fullyrt um áhrif kuldaþjálfunar á líkamann en ég hef ekki verið betri í hnjánum lengi og almennt líður mér vel eftir þessi kuldaböð hvort sem það er bara andleg vellíðan yfir að sigrast á kuldanum eða lífeðlisfræðileg áhrif. Ég hef tekið þessi kuldaböð skrefinu lengra og eftir vel heppnað ættarmót Stakkhamarsættarinnar þar sem nokkrar frænkur skelltu sér í sjóinn á Stakkhamarsströndinni hef ég farið reglulega í sjóinn í Nauthólsvík með þessum frænkum mínum. Þessar sjósundsstundir hafa verið dásamlegar, frábært að kynnast þessum frænkum mínum upp á nýtt og einnig nærandi að synda í sjónum. Nú seinast milli jóla og nýárs fór ég í -2°C kaldann sjóinn og það merkilega var að það var ekkert mál að synda í svona miklum kulda. Á ferðalögum um landið litast ég um og velti fyrir mér hvernig sé að synda á hinum ýmsu stöðum, í sjónum við ströndina og einnig í ám og vötnum. Mig langar á nýju ári að taka þetta nýja sport skrefinu lengra og synda sem víðast.

Hreyfimarkmið mín fyrir árið 2022 voru svipuð og undanfarin ár:

  1. að ná að lágmarki 200 hreyfidögum á árinu. Hreyfing telst að hjóla í og úr vinnu, puð í ræktinni í að lágmarki 30 mín eða gönguferð að lágmarki 30 mín. Enginn bónus er fyrir hreyfingu oftar en 1x á dag eða langar göngur í þessari talningu fyrir utan hvað spinning á þriðjudögum og gönguskíði á þriðjudögum teljast sem 2
  2. að hjóla í vinnuna oftar en 52 sinnum eða oftar en árið 2021
  3. að fara í gönguferðir a.m.k. 52 daga á árinu 2020 (lesist fjallgöngur og gönguskíði)
  4. að skrá þetta allt samviskusamlega niður

Þessum hreyfimarkmiðum náði ég öllum. Það var tæpt að ég næði markmiðinu að hjóla oftar en 52 sinnum í vinnuna en það tókst í snjónum milli jóla og nýárs þegar ég hjólaði á ómokuðum stígunum á þriðja í jólum. Kom það skemmtilega á óvart hversu auðvelt það er að hjóla í snjónum á góðu fjallahjóli. Mér hefur oft fundist erfitt að hjóla í vinnuna eftir að fara í ræktina á morgnana. Á haustmánuðum tókst mér að yfirvinna þetta og selja sjálfri mér hugmyndina að þetta væri lítið mál. Vonandi tekst mér að halda því áfram á nýju ári.

Hreyfimarkmið fyrir árið 2023 eru þau sömu og fyrir árið 2022 nema hvað mér finnst það hljóma betur að stefna á að hjóla í vinnuna 52 daga að lágmarki. Einnig langar mig að skrifa meira en ég hef skrifað ferðasögur sjaldnar en ég gerði áður.

Ég las færri bækur en oft áður og sumar af þeim sem eru á leslistanum hér að neðan hlustaði ég á. Það fer vel saman að hlusta á bækur og hjóla um stíga borgarinnar.

  1. 11.000 volt – Erla Hlynsdóttir, Guðmundur Felix Grétarsson
  2. Elpsa – Guðrún Frímannsdótir
  3. Álfadalur – Guðrún Jónína Magnúsdóttir
  4. Meydómur – Hlín Agnarsdóttir
  5. Inngangur að efnafræði – Bonnie Garmus
  6. Punktur punktur komma strik – Pétur Gunnarsson
  7. Konan hans Sverris – Valgerður Ólafsdóttir
  8. Sonja Líf og leyndardómar – Reynir Traustason
  9. Berskjaldaður – Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
  10. Merking – Fríða Ísberg
  11. Eftirlifendurnir – Alex Schulman
  12. Berlínaraspirnar – Anne B. Ragde
  13. Kuðungakrabbarnir – Anne B. Ragde

Eins og undanfarin ár hef ég hitt lessystur mínar reglulega oftast einu sinni í mánuði þar sem við fjöllum um eina bók. Þetta árið kom ég reyndar nokkrum sinnum ólesin, eitt af áramótaheitunum er að standa mig betur í bóklestri.

Ég tek fagnandi móti nýju ári og hlakka til að eiga ótal ánægjustundir með samferðafólki mínu, fjölskyldu minni, barnabörnunum, göngufélögum, skíðafélögum, lesklúbbnum, saumaklúbbnum og svo frábæru sjósundsfrænkunum, Það er algerlega ómetanlegt að eiga svona marga góða félaga með svipuð áhugamál.

Ég þakka öllu samferðafólki mínu allar ánægjustundirnar á liðnu ári og óska ykkur gæfu og gleði á nýju ári.

Birt í Blogg, Vinir og fjölskylda | Færðu inn athugasemd

Drangajökulsdans

Í vetur hef ég fylgst með Darra og nokkrum félögum mínum undirbúa sig fyrir göngu yfir Grænlandsjökul. Öðru hvoru fylltist ég óstjórnlegri löngun til að verða þeim samferða, en þess á milli var ég óendanlega ánægð með að vera laus við fyrirferðakvíðann sem þau voru haldin. Það sem hjálpaði mér hvað helst við að bægja frá mér lönguninni að skella mér með var að mér bauðst snemma í vetur að verða samferða kunningja mínum í 9 daga ævintýraferð um Vatnajökul þar sem farið yrði um mörg spennandi svæði og gengið á marga spennandi tinda.

Darri og félagar fóru til Grænlands og eftir sat ég með meiri löngun til að fylgja þeim en ég hafði áður upplifað. Þegar svo kom að Vatnajökulsferðinni var veðurspáin vægt til tekið óhagstæð og féll ferðin því niður. Það var auðvelt að verða vonsvikin……………ég var svolítið þar en ákvað strax að kanna möguleika í stöðunni. Ég sá strax að veðurspáin fyrir Vestfirði var hin besta fyrstu 5 dagana og vefmyndavél Vegagerðarinnar sýndi allt hvítt á Steingrímsfjarðarheiði. Þetta leit strax vel út. Ég var búin að pakka fyrir Vatnajökulsferðina einnig allan mat fyrir mig til 9 daga. Nú var bara að finna ferðafélaga því ég vildi síður vera ein á ferð. Ásdís vinkona mín var fljót að bíta á agnið, enda þurfti hún ekki að hugsa fyrir mat þar sem ég var búin að hafa hann til, ekki þarf að bæta miklu við mat fyrir einn í 9 daga til að það dugi fyrir tvo í 5 daga!

Mig hafði lengi langað á Drangajökul og á Hrolleifsborg sem er klettaborg sem gengur út úr jöklinum austanverðum. Frá Steingrímsfjarðarheiði og að Hrolleifsborg eru um 50km sem eru tvær góðar dagleiðir á skíðum, með því að ætla svo einn dag til að fara á Hrolleifsborg og umhverfi var ég komin með gott plan að 5 daga ferð. Kvöldið fyrir ferðina skoðaði ég kortagrunn gaumgæfilega og rissaði upp leið sem leit út fyrir að vera hagstæð með tilliti til hæðalína og kom trakkinu í tvö GPS tæki. Já ég ákvað að vera með tvö tæki þar sem við værum einar á ferð. Þegar hópurinn er lítill er ýmislegt fleira sem þurfti að huga að, ég var með nokkuð magn af bandspottum, duct tape, neyðarskýli og til viðbótar við bensínprímusinn minn tók ég jetboil og svolítið af gasi.

Laugardaginn 14. maí vaknaði ég klukkan hálf sex, kláraði að pakka og hlaða bílinn. Klukkan var ekki orðin 7 að morgni þegar við renndum út úr bænum og tókum stefnuna á Steingrímsfjarðarheiði. Við lögðum bílnum efst á heiðinni á stæði við vefmyndavél vegagerðarinnar. Þar var þegar mættur flokkur af vélsleðamönnum frá Ísafirði, þeir voru einnig á leið á Hrolleifsborg en aðeins í dagsferð. Við vorum nokkuð ánægðar með okkur þegar við renndum okkur með púlkurnar okkar niður af vegöxlinni á Steingrímsfjarðarheiði rétt um klukkan 11.

Þar sem vélsleðamennirnir voru á leið á Drangajökul eins og við ákváðum við að fylgja förunum þeirra enda sýndist okkur leiðavalið þeirra þokkalegt. Svo kom þó að við áttuðum okkur á að þeir ætluðu að leggja lykkju á leiðina og yfir í Norðurfjörð svo við sveigðum af þeirra leið. Þá varð fyrir okkur þetta einkennilega stauravirki, tveir staurar með línu á milli. Helst datt mér í hug að þetta væri athugun á uppsetningu á raflínu á Ófeigsfjarðarheiði en þetta var allnokkru sunnar en línustæðið hefði átt að vera fyrir raflínu frá Ófeigsfirði og yfir að Nauteyri, forvitnilegt eigi að síður.

Þennan dag skein sólin, hvít breiða var yfir öllu og fjöllin yfir Norðurfirði og Trékyllisvík blöstu við í austri, nyrst og lengst til vinstri á myndinni er Krossnesfjall. Það var svo sannarlega nægur snjór um allt.

Eftir 25km göngu og rúmlega 7 klst, ákváðum við að komið væri nóg og við fundum okkur tjaldstað í lægð sem þýddi auðvitað að símasamband við umheiminn var ekkert. Það var bæði Eurovisionkvöld og sveitastjórnarkosningar. Þessir tveir stórviðburðir voru fullkomlega utan við okkar veruleika og söknuðum við þess ekkert.

Á þessum árstíma er útilega í snjó alls ekki kalsöm, hiti rétt um frostmark og lífið hið indælasta. Við Ásdís erum báðar árrisular, vöknuðum um kl 7 og vorum búnar með öll morgunverk og dótið komið í púlkuna kl 9. Nú var kominn sunnudagur, meirihlutar víða um land ýmist fallnir eða ekki, algerlega án okkar vitundar og gengi íslensku júrovisonfaranna utan við okkar áhugasviðs.

Þennan dag var hin mesta blíða en loftið heldur þyngra og eftir því sem á daginn leið og við hækkuðum okkur í landslaginu, var ekki bara jörðin hvít heldur runnu himin og jörð í eina hvíta veröld. Ég studdist algerlega við GPS tækið, reyndi að finna punkt í tækinu og miða leiðavalið þannig að við slyppum við að þræða hæðir og lægðir, værum sem mest á sömu hæðapunktum. Það getur verið lýjandi að velja sér punkt í alhvítu umhverfinu og stefna á hann, velja sér annan í hvítu tilbreytingarlausu umhverfi og stefna á hann og svo koll af kolli. Svona gekk þetta mikið þennan daginn, sem betur fer er landslagið þarna laust við gil og laust við kletta þannig að þetta var hættulítið. Einu sinni vorum við samt skyndilega komnar í snarbratta hlíð þannig að púlkurnar rúlluðu á hliðina. Við höfðum ekki hugmynd hversu langt væri þarna niður. Þá sáum við líklega ekki meira en 5m frá okkur. Við klöngruðumst upp hlíðina og upp á hæðina og komumst klakklaust út úr þessu. Á bakaleiðinni skoðuðum við þessa hæð, líklega var þetta nálægt því eini staðurinn á leiðinni þar sem hægt var að komast í þessar aðstæður.

Jafnramt því að paufast áfram í hvítunni, hækkuðum við okkur og í um 600m hæð vorum við komnar á sjálfan Drangajökul. Planið var að komast langleiðina að Hrolleifsborg og tjalda þar. Eftir að við komum á jökulinn tók við nokkur hækkun og tók hún aðeins í. Eftir nokkurt pjakk í hvítunni duttum við inn á vélsleðaslóð Ísfirðinganna frá því daginn áður. Var það mikill léttir að geta áreynslulaust gengið áfram án þess að vera stöðugt að kíkja á GPS tækið og athuga stefnuna.

Þennan dag gekk ferðin okkar hægar og eftir 23km göngu ákváðum við að líta eftir tjaldstað en það var ekki auðvelt þar sem við vorum í hlíðum jökulsins og þó hann væri ekki brattur var hann nógu aflíðandi til að það væri ekki ákjósanlegur tjaldstaður. Í hvítunni fannst okkur þetta flatt en þegar við ætluðum að þjappa undirlagið undir tjaldið, fundum við hallann. Tjaldstaðinn fundum við eftir 24km og höfðum ekki hugmynd í hvaða umhverfi við værum, vissum bara að það væru u.þ.b. 4km að Hrolleifsborg. Við vorum aðeins lúnar og þurftum aðeins að moka til grunninn til að slétta undir tjaldið. Einnig var smágjóla þannig að það var dálítið bras á okkur þarna uppi á jöklinum að koma tjaldinu niður. Allt hafðist þetta nú og ósköp var nú ljúft að koma sér fyrir, nærast og hvíla lúin bein enda höfðum við verið rúmlega 9klst á ferðinni og klukkan orðin rúmlega 19 um kvöld.

Klukkan 2 um nóttina vakti Ásdís mig. „Kristjana, þú verður að koma út og sjá!“. Það hafði létt til og fullt tunglið rólaði á himninum. Við sáum að við vorum rétt ofan Kaldalóns og fegðurðinni var ekki hægt að lýsa. Ég náði í myndavélina og smellti af en hún nær ekki að fanga nema brot af upplifuninni.

Morguninn eftir blasti þessi sýn út um tjaldopið. Já, það er á svona stundum sem maður áttar sig á því af hverju maður paufast klukkutímum saman í hvítablindu, tjaldar í gjólu og svo blasir þetta við.

Þennan dag höfðum við hugsað okkur að skoða okkur um á Drangajökli, Hrolleifsborg var efst á óskalistanum og þangað stefndum við. Ekki þurftum við að taka okkur saman, bara útbúa nesti, ákveða hvaða flíkur við hefðum í dagpokanum og arka svo af stað.

Þarna blasti hún við okkur, Hrolleifsborgin, tignarleg svo sannarlega. Neðan við hana er svo Reykjafjörðurinn og Þaralátursfjörður vinstra megin við hann og Þaralátursnes fyrir miðri mynd. Sýndist okkur að vel væri hægt að skíða þarna niður, langleiðina niður í fjöru en það varð að bíða, verður vonandi síðar.

Planið var að ganga á Hrolleifsborgina en þarna um morguninn sýndist okkur að þröngt haft efst í borginni væri snarbratt. Vorum við sammála um að við ætluðum ekki að gera neina vitleysu og yrðum bara að láta Hrolleifsborgina bíða betri tíma……………….óttaðist ég þetta yrði til þess að á þetta fjall færi ég aldrei á, því tæplega sextugar kerlingar hafa ekki endalausan tíma framundan til að stunda krefjandi fjallgöngur.

Það var hins vegar hægt að dunda sér og dást að útsýni til allra átta. Á myndinni hér að ofan sjáum við fjöllin yfir Norðurfirði og svo allt austur að Tröllaskaga.

Úsýnið til norðurs var einnig stórbrotið, Þaralátursfjörður, Furufjörður, Göngumannaskörð og við þóttumst greina Kálfatinda í Hornbjargi. Á svona stundum er lífið ekkert nema dásamlegt.

Við yfirgáfum Hrolleifsborg, glaðar með útsýnið en ég var töluvert hugsi…………….borgin togaði í mig. Á myndinni hér að ofan sést haftið efst í borginni sem okkur virtist það snarbratt að við vildum ekki reyna að klífa það.

Næsta verkefni var að kanna lendur Drangajökuls. Á myndinni sjáum við frá vinstri Reyðarbungu, Jökulbungu og Hljóðubungu þar sem klettarnir eru.

Reyðarbunga var fyrst og fórum við yfir hana og þaðan á Hljóðubungu.

Þó við létum Hrolleifsborg á móti okkur var ekki séns að við stæðumst Hljóðubungu og útsýnið sveik ekki. Hér sjáum við Furufjörð lengst til vinstri, þá Þaralátursfjörð og síða Reykjafjörð og síðan Geirólfsnúp. Það var alveg sérlega ánægjulegt fyrir okkur að horfa svona ofan á þetta landslag þar sem við gengum þarna um seinasta sumar.

Já við vorum heldur betur kátar þarna í sólinni og snjónum!

Næsta verkefni var Jökulbungan sjálf. Þar var nú enginn sérstakur hæsti punktur, þetta er mjög svo ávöl bunga. En útsýnið maður minn! Við vorum algerlega heillaðar. Hér að ofan sjáum við fjöllin handan Ísafjarðardjúps, þá Dalsheiði fyrir miðri mynd, síðan niður í Leirufjörð, Flæðareyri og svo niður í Jökulfirði.

Á svona stundum er auðvelt að dansa á skíðunum, það er sem maður eigi heiminn allan aleinn.

…………….og hér sjáum við niður í Kaldalón.

En dagurinn var ekki búinn. Allan daginn hugsaði ég um Hrolleifsborg……….horfði á hana frá öllum sjónarhornum. Tilsýndar á hlið virtist haftið sem ég óttaðist ekki svo bratt og þegar við fórum á Hljóðubungu fundum við að við sukkum svo í snjóinn að við þurftum ekki að óttast klaka í sporinu. Ég laumaði því þeirri hugmynd að Ásdísi að skíða aftur að Hrolleifsborg og skoða aðstæður. Við myndum hins vegar lofa hvorri annarri að við færum ekki út í neina vitleysu! Snúa við ef þetta væri eitthvað hæpið.

Og viti menn, það fór eins og ég vonaði, haftið reyndist ekki átakanlega bratt og sporin voru trygg. Það voru því ánægðar vinkonur sem sneru við af Hrolleifsborg þennan dag.

Hér sést haftið „ógurlega“. Tilsýndar virkaði þetta mun þrengra en það var í raun.

Nú áttum við vísan næturstað, ekki þurftum við að bisa við að koma okkur upp húsi heldur gátum notið þess að fá okkur góðan forrétt og fordrykk og fagna dásamlegum degi, já einum þeim besta sem ég hef átt á fjöllum!

Kvöldkyrrðin á Drangajökli ofan Kaldalóns var algerlega dásamleg.

Ofan af Hrolleifsborg náðum við símasambandi, fengum fréttir af sveitastjórnarkosningum, júrovision og létum okkar nánustu vita af okkur. Við vissum áður en við lögðum af stað að það spáði góðu veðri fram á seinni partinn á miðvikudag en þá færi að þykkna upp, hvessa og bresta á með úrkomu. Á Hrolleifsborg fengum við staðfestingu á að þessi spá stæðist, líklega yrði veðrið farið að versna strax upp úr hádegi. Því ákváðum við að vera árrisular á Drangajökli þriðjudaginn 17. maí, við vöknuðum kl 6 og vorum komnar með allt okkar hafurstask á púlkur klukkan 8.

Það var bjart yfir öllu og alveg ljóst hvar leið okkar lá. Nú höfðum við trakkið frá leið okkar til að styðjast við. Eins og áður sagði er landslagið þarna þægilegt og hættulítið, ávalar hæðir og ávalar dældir. Ein hæð með bratta í hliðum sást, hún er hér að ofan fyrir miðri mynd. Þetta var einmitt hæðin sem við álpuðumst í og rötuðum í vanda í mesta brattanum á leið okkar tveimur dögum áður. Höfðum ekki hugmynd um hversu langt væri niður og klöngruðumst þar upp.

Takmark okkar þennan dag var að ná a.m.k. 30km til að létta seinasta daginn og lenda ekki í veðrinu sem spáð var. Urðum við staðfastari í því eftir að hafa hringt í tengilið okkar sem skoðaði vel veðurspá og sagði að strax um hádegi færi veðrið að versna.

Enn vorum við samt í sól…………..en skýjum ofar. Hér sjást fjöllin ofan Norðurfjarðar gægjast upp úr skýjunum, við enn ofan þeirra en fyrirsjáanlegt að við þyrftum að skella okkur niður í þau. Að skíða í skýjum er annað orð yfir að skíða í hvítu myrkri………………….ekkert að sjá. Þetta var samt heldur þægilegra en á uppeftir leiðinni, að þessu sinni gátum við stuðst við trakkið okkar sem við vissum að lá um þægilegt svæði. Eigi að síður þreytandi og tafsamt að sjá ekkert. Urðum við því heldur kátar þegar við rákumst á okkar eigin skíðaslóð sem vissulega var orðin máð en sérstaklega greindum við stafaförin.

Þegar við komum fram hjá fyrsta tjaldstaðnum misstum við skíðaslóðina því hún var orðin of gömul. Tók þá aftur við slagurinn við hvítuna. Þeim mun meiri varð ánægjan þegar við duttum niður á vélsleðaför sem sannarlega lá í sömu átt og við vorum að stefna.

Þegar kvöldaði birti til og var orðið vel bjart þegar við slógum upp tjaldi eftir 32km göngu á um 10,5klst. Vissulega lúnar en ánægðar því eftir voru um 15km í beinni línu í bílinn. Reiphólsfjöllin blöstu við og kyrrðin alger.

Við ákváðum að taka næsta dag snemma, vakna klukkan 5 og vorum lagðar af stað klukkan 7 um morguninn til að forðast að lenda í leiðindum. Því fylgdi óvæntur ávinningur, snjórinn var enn aðeins kaldur eftir nóttina og ólíkt betra rennsli en í sykrinum sem myndast við hærra hitastig. Við runnum því betur og fundum aðeins fyrir að þetta væri heldur niður í móti þennan daginn. Við vorum komnar að bílnum kl hálf tólf. Það tók okkur nokkra stund að hlaða bílinn, skipta um föt og vesenast. Þegar við vorum ferðbúnar var skollin á þoka og kalsavindur. Veðurspár eiga það til að standast.

Dásamlegum fimm daga túr um Ófeigsfjarðarheiði og Drangajökul var lokið. Eiginmennirnir báðir á Grænlandsjökli, líklega munaði 20-30°C á hitastiginu hjá okkur og þeim og líklega sáum við meira á mánudeginum þegar við dönsuðum um allan Drangajökul en þeir á 4 vikum á Grænlandsjökli……………við vorum bara nokkuð sáttar með okkar dansleik á Drangajökli.

Hér að ofan má sjá leið okkar.
Dagur 1 rauður: 24,7km
Dagur 2 blár: 24,5km
Dagur 3 grænn: 21,9km
Dagur 4 gulur: 32,1km
Dagur 5 bleikur: 15,3km

Birt í Ferðalög | Ein athugasemd

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur

Þegar ferðast er um jökla þarf ætíð að hafa í huga að þar gætu leynst sprungur undir þunnu snjólagi. Því er nauðsynlegt að ferðast ætíð með leiðsögumanni sem kann að bjarga sér og öðrum ef óhapp hendir.

Ég hef um árabil ferðast um jökla að vetri og að vori, oftast með þaulvönum mönnum sem ég treysti í hvívetna. Sjálf hef ég verið alger farþegi og litið á sprungubjörgun sem eins konar geimvísindi sem aðeins sé á færi snillinga og að þeir búi yfir yfirnáttúrulegri færni og kunnáttu. Mig hefur hins vegar lengi langað til að skyggnast inn í þennan heim og fá örlitla innsýn í út á hvað þessi vinna gengur, því greip ég tækifærið um nýliðna helgi og skráði mig á sprungubjörgunarnámskeið sem Einar Torfi Finnsson minn frábæri gönguskíðaforingi hélt fyrir meðlimi í gönguskíðagenginu.

Námskeiðið var haldið á Sólheimajökli sem liggur hér að ofan, tunga niður úr Mýrdalsjökli. Ótrúlegt hvað hann hefur hopað á seinustu árum. Fyrir 10 árum lá jökultungan neðan við þann stað þar sem þessi mynd er tekin.

Við gengum upp á jökultunguna og leituðum að heppilegum stað með bröttum nánast lóðréttum nokkurra metra háum ísvegg.

Þar hófst kennslan, fyrst var að hreinsa ísinn á svæði til að festa ísskrúfur.

Svo var að festa skrúfurnar, en þær þurfa að vera tvær, bæði til að dreifa álaginu en ekki síður til að hafa aðra til vara ef önnur gæfi sig.

Karabínur eru festar í ísskrúfurnar og í þær er festur spotti sem kallaður er „sling“ en hann er úr þéttofnum þráðum.

Klifurlína var fest í þetta og þá var komið að því að festa þátttakendur í línuna og síga niður. Við festum okkur með svokölluðu prússikbandi sem hægt er að færa til á línunni og einnig með hnút sem kallast hálfbragð en með honum er hægt að slaka sig niður en ráða hraðanum og halda við þegar sigið er.

Þá var komið að því að síga niður á botn „sprungunnar“.

Nú var verkefnið að koma sér upp línuna. Það gerðum við með því að nota tvö prússikbönd sem voru fest í klifurlínuna, annað langt til að stíga í með öðrum fætinum og hitt stutt sem var fest í klifurbeltið. Hér á myndinni sést að ég er með fótinn í langa bandinu, þá gat ég stigið í það og hnikað svo hinu prússikbandinu upp meðan ég stóð í fótinn. Síðan settist ég í beltið, þá var slaki á fótbandinu og hægt að hnika því upp, síðan gekk þetta koll af kolli þar til upp var komið. Þetta var reyndar hið mesta puð og betra að vera ekki mikið lofthræddur. Lofthræðslu fann ég ekki fyrir þar sem ég treysti beltinu og línunni fullkomlega og einnig var ég svo upptekin við að brasa þetta að tími fyrir lofthræðsluhugmyndir var bara ekki til staðar.

Þennan fyrri dag var algert logn og hitastigið ekki mjög langt undir frostmarki, semsagt algerar kjöraðstæður.

Að loknum góðum degi ókum við að Sólheimatunguhjáleigu þar sem við gistum og fengum góðan kvöldmat. Kvöldið fór í að rifja upp og læra alla mögulega og ómögulega hnúta sem við kunnum, áttum að kunna og kunnum bara alls ekki, áttuhnút, butterfly, pelastikk, hálfbragð, fiskimannahnút, prússikhnút, backmann………………. uh, var það eitthvað fleira?

Seinni dagurinn var örlítið kalsalegri, svolítill vindur og meira kul. Nú var komið að því að æfa sig með púlkurnar.

Fyrir hádegi settum við sjálf upp alls konar tryggingar og varð okkur bara nokkuð kalt við þetta dund. Fyrir hádegismatinn fengum við okkur smágöngutúr til að ná up hita, það sést líklega að við erum nokkuð dúðuð þarna.

Nú skiptumst við á að leika fórnarlambið sem datt í sprungu með púlkuna sína.

Hinir báru svo ábyrgð á að setja upp línur með alls kyns tólum til að auðvelda að toga upp mann með púlku.

Svo þegar búið var að setja upp kerfið þá var bara að toga. Prófuðum við nokkrar útfærslur og græjur til að átta okkur á kostum og göllum hvers kerfis.

Hér er ég að bíða eftir björgun.

Okkur tókst að bjarga öllum á þessu námskeiði enda allan tímann með traustan kennara, Einar Torfa Finnsson sem vakti yfir öllum okkar aðgerðum.

Klárlega lærði ég heilan helling og klárlega var þetta bráðskemmtilegt. Ég er hins vegar ekki viss um að ég treysti mér til að bjarga neinum úr svona aðstæðum en það er örugglega betra að vita út á hvað þessi vinna gengur þegar ferðast er um við aðstæður sem geta krafist svona björgunar.

Þetta var frábær helgi með frábærum félögum og afbragðs kennara, takk fyrir mig!

Birt í Ferðalög | Ein athugasemd

Horft yfir farinn veg

Enn og aftur eru komin áramót, við slík tímamót er gott að horfa yfir farin veg, rifja upp, gera upp og horfa fram á veginn.

Þetta ár hefur verið litað af blessaðri Covid19 veirunni sem er orðin partur af lífi okkar. Grímur eru orðinn sjálfsagður búnaður utan heimilis, handabönd og knús hvers konar eru ekki lengur velkomin. Lífið með veirunni er það sem við höfum verið að venja okkur á, eða kannski leikritið „hvernig slepp ég undan veirunni“. Stundum hefur hringurinn um okkur þrengst, ýmsir nákomnir eru klukkaðir og maður hugsar að nú sé nú komið að manni, forðum okkur í „stikkið“ sem heimili okkar er og reynum að kúra okkur þar með okkar nánusut. Hvað um það, enn hef ég sloppið, bæði við veiruna og sóttkví.

Prívatlífið hefur gengið sinn vanagang. Vinna, barnabarnastúss, vera með fjölskyldunni og svo er það útivistadellan sem stundum tekur yfir allt annað.

Ég ætla að byrja á barnabarnaannál ársins. Þar eru stjörnurnar mínar þau Sara, Arnar og Emma. Við reynum að hafa fjölskyldumat sem oftast, kannski ekki alveg vikulega en svona næstum því. Þá fá þau oft að gista og finnst þeim það afar gaman. Sara og Arnar eru mjög góðir vinir þrátt fyrir aldursmuninn og munu þau njóta þessa sambands alla ævi. Þau leika eins og jafningjar, kvarta undan hvort öðru en svo getur Sara breyst í stóru frænku, les fyrir Arnar og kemur honum í rúmið.

Okkur tókst að ná nokkrum ferðum í skíðalyftunum, þrátt fyrir covid takmarkanir. Arnar var farinn að standa barnabrekkuna og skíðakennsla ömmu náði að taka Söru tvær ferðir í stólalyftuna í Bláfjöllum. Við vorum í góðum gír og búnar að ná fínum takti einn daginn þegar lyftan lokaði……..í það skiptið vegna jarðskjálfta. Já, þetta ár, ef það var ekki covid, þá voru það jarðskjálftar sem gerðu okkur grikk.

Eftir vetur kemur vor og svo kemur sumarið. Að þessu sinni var nú ekki veðurfarið hér sunnanlands það albesta en við náðum að fara í útilegu saman. Áttum m.a. fínan dag í Þakgili og óhætt að mæla með dásamlegum læk þar sem grísirnir dunduðu sér við að sulla.

Verslunarmannahelgarútilegan var tekin í Strútslaug. Að taka krakka með í útilegu með allt á bakinu er alger dásemd. Kynna þeim fyrir þeim minimaliska lífsstíl sem svona útilega er.

Emmuskottið var lengi vel dæmigert covidbarn. Við héldum að hún væri hin mesta mannafæla. Það hefur nú heldur betur breyst. Þegar hún loksins fékk að fara í leikskólann nú í haust þá fannst henni það hin mesta skemmtun og er hin brattasta. Henni finnst alveg óþarfi að tala mikið en skilur allt og er hin mesta ráðskona. Stjórnar öllum með bendingum og gefur ekkert eftir. Dæmigert barn númer tvö sem ætlar ekki að missa af neinu.

Arnar er orðinn 4 ára og hinn mesti gaur. Þessi mynd er tekin á Bakkatjörn nú nýlega þegar við bundum sleða aftan í fjallahjól á nagaldekkjum og brunuðum um. Hann æfir fótbolta tvisvar í viku kl 7:45 sem er alger snilldartími fyrir hressa gaura.

Sara er orðin 8 ára. Hún æfir fimleika og fékk Gróttukeppnisbol í jólagjöf. Hún hefur nú þegar keppt á einu fimleikamóti og gekk ákaflega vel.

Á nýju ári er ég með ýmsar hugmyndir að skemmtiatriðum með þessum gríslingum. Ég hef þegar fjárfest í árskorti í skíðalyfturnar, hef hugsað mér að nýta styttingu vinnuvikunnar að einhverju leiti til að stela börnum og bjóða þeim á skíði, meiri snjó, meiri snjó. Svo verður Arnar að fá að kynnast betur gönguferðum, helst með allt á bakinu. Ekki má gleyma Emmu sem fær ekki alveg sama ömmudekur og þau eldri en hún minnir á sig og ætlar svo sannarlega ekki að missa af neinu. Ég þarf að vera duglegri að taka hana í hjólakerruna og moka svolítið í sandinum hér í fjörunni.

Ég hélt að ég væri orðin of gömul til að toppa mig í útivistaáráttunni en þetta ár held ég hafi toppað allt annað. Eins og undanfarin ár hafa gönguskíðin vinninginn en fjallahjólið er að koma sterkt inn. Göngur verða aðeins útundan, það er ekki hægt að vera góður í öllu.

Hér er útivistaannállinn:
Janúar:
Gönguskíði: 5x Bláfjöll, Skjaldbreiður, Vetrarfjallamennskunámskeið Bláfjöll 2 dagar
Febrúar:
Gönguskíði: 3x Bláfjöll
Mars:
Gönguskíði: 2x Bláfjöll, Langjökull 2 dagar, Sprengisandur 6 dagar
Apríl:

Gönguskíði: 3x Bláfjöll
Göngur: 2x að gosi í Geldingadölum, Kerhólakambur
Maí:

Gögnugskíði: Mýrdalsjökull 4 dagar
Göngur: Flekkudalshringur, Langihryggur að gosi
Júní:
Gönguskíði: Eiríksjökull, Vatnajökull 5 dagar
Göngur: Fagraskógafjall, Búrfellsgjá
Júlí:

Göngur: Norðurstrandir 4 dagar, Reykjaneshyrna, Spákonufell, Strútslaug 2 dagar
Hjól: Kringum Skaga 2 dagar
Ágúst:

Göngur: Að Snagafossi, Miklafell að Hverfisfljóti, Hálfhringur um Eiríksjökul
Hjól: Síðuafréttur 4 dagar, Mosfellsheiði
September:

Hjól: Seltjarnarnes-Þingvellir
Október:

Göngur: Klofningsfjall, Lambafell, Kálfstindar
Hjól: Fellsströnd
Desember:

Göngur: Sandfell

Eins og sjá má af þessum lista er þetta ekki gönguárið mikla. Vegna snjóleysis voru flestar kvöldgönguskiðaferðirnar á Bláfjallasvæðinu, alls ekki alltaf um sömu slóðir, þar eru ýmsir möguleikar sem voru notaðir í ýmsum útfærslum. Dagsferðir voru fáar en helgar og lengri ferðir þeim mun fleiri og ævintýralegri. Þar má helst telja að ég fór á gönguskíðum upp á Langjökul og gisti þar um miðjan vetur, gekk á gönguskíðum yfir Sprengisand, yfir Mýrdalsjökul og í júní átti ég þess kost að fylgja Betu vinkonu minni yfir Vatnajökul á gönguskíðum með viðkomu á nokkrum af 100 hæstu tindum landsins. Þvílík ævintýri sem þetta var allt saman. Ég kemst enn í vímu, bara við að hugsa um þessar ferðir.

Hjólaferðirnar voru allnokkrar um stíga höfuðborgarsvæðisins á cyclocross hjólinu mínu. Toppurinn var þó þegar ég í spetember ákvað einn laugardagsmorguninn að hjóla í átt að Þingvöllum og snúa við þegar kílómetramælirinn sýndi 50km. Þá sneri ég við og náði alls 100km hjólatúr. Það var sætur sigur. Fjallhjólaferðirnar voru færri en í fyrra en hápunktur þeirra var fjögurra daga hjólaferð um Síðuafrétt sem var mikið ævintýri.

Seinustu ár hef ég valið þrjár eftirminnilegustu/bestu ferðir ársins. Þetta árið er vissulega úr vöndu að velja en líklega fer ferðin yfir Sprengisand um harða vetur í efsta sætið. Þessi ferð gaf mér svo margt, fyrsta daginn gengum við úr sólskini og veðurdásemd upp úr Eyjafirði, hrepptum síðan stórhríð með engu skyggni og þurftum að þreifa fyrir skálanum í Berglandi þar sem við biðum af okkur dýrvitlaust veður. Gengum síðan í grimmdarfrosti í Laugafell og þaðan á einum degi 38km í Nýjadal, seinni hlutann í strekkingsvindi á móti okkur. Það var komið myrkur þegar við náðum skálanum í Nýjadal, þá vorum við flest orðin æði lúin, ískuldi og fyrsta verkið var að moka snjó úr rúmum. Svona dagar fara í minninga og reynslubankann. Seinni hluta ferðarinnar fengum við dýrðarveður, tjölduðum í Tröllahrauni og sváfum þar í miklum kulda. Fyrir utan að njóta stórfenglegrar náttúru og félagsskapar þá var þetta þvílík lífsreynsla að takast á við og mun þetta ævintýri fylgja mér og minningarnar ylja um ókomin ár.

Beta vinkona mín á sér þann draum og takmark að verða fyrsta konan til að toppa 100 hæstu tinda landsins. Í júní lagði hún í leiðangur yfir Vatnajökul til að toppa 7 af þessum tindum og bauðst mér að fylgja henni í þeirri ferð. Þessi leiðangur keppir svo sannarlega við Sprengisandsleiðangurinn um ferð ársins og ekki auðvelt að gera upp á milli. Hér var það fegurð fjallanna sem sprengdi skilningarvitin, fengum við að mestu bjart veður og frábært skyggni og þurftum ekki að berjast við kuldann eins og í vetrarferðinni. Toppur ferðarinnar var klárlega að renna sér niður Löngufönn niður í Kverkfjöll með púlku í eftirdragi og allt norðurhálendið og Herðurbreið liggjandi fyrir framan okkur. Þessi sýn og upplifun fylgir mér enn og var það verulega óraunverulegt að koma aftur til byggða eftir þetta ævintýri.

Í júlí fórum við Darri með góðum vinum okkar þeim Ásdísi og Ágústi í fjögurra daga göngu um Norðurstrandir. Þetta er ferð sem er búin að vera á teikniborðinu árum saman, loksins fannst veðurglufa á tíma sem hentaði okkur öllum. Gengum við úr Furufirði í Reykjafjörð og þaðan með ströndinni suður að Hvalá í Ófeigsfirði. Þetta er skemmtileg leið um fáfarnar slóðir. Kom það mér nokkuð á óvart hvað göturnar þarna virðast vera lítið gengnar. Hrepptum við frábært veður alla dagana og fer þessi ferð í minningabankann góða. Það eru mikil lífsgæði í því að eiga svona góða vini og geta átt með þeim svona gæðastundir.

Þetta ár einkenndist af því að þægindamörkin í útivist voru víkkuð enn frekar og eftir því sem reynsla og öryggi í vetrarferðum eykst heillar það meira að stunda útilegu allt árið. Að tjalda í snjó er orðið eðliegt og lítið mál að sofa í grimmdarfrosti. Svo sannarlega er þetta ferðamáti sem ég kann vel við og ætla að gera meira af á nýju ári.

Hreyfimarkmið mín fyrir árið 2021 voru svipuð og undanfarin ár:

  1. að ná að lágmarki 200 hreyfidögum á árinu. Hreyfing telst að hjóla í og úr vinnu, puð í ræktinni í að lágmarki 30 mín eða gönguferð að lágmarki 30 mín. Enginn bónus er fyrir hreyfingu oftar en 1x á dag eða langar göngur í þessari talningu fyrir utan hvað spinning á þriðjudögum og gönguskíði á þriðjudögum teljast sem 2
  2. að hjóla í vinnuna oftar en 31 sinni eða oftar en árið 2020
  3. að fara í gönguferðir a.m.k. 52 daga á árinu 2020 (lesist fjallgöngur og gönguskíði)
  4. að skrá þetta allt samviskusamlega niður

Þessu náði ég öllu og hér að neðan birti ég súlurit yfir hreyfiárangurinn og árin 2019, 2020 og 2021 til samanburðar:

Eins og sjá má náði ég að hjóla 52 sinnum í vinnuna sem er vel yfir markmiði, fjallgöngur og gönguskíðaferðir urðu 56, og fjöldi hreyfidaga urðu 201. Allt var þetta samviskusamlega skráð niður þannig að öllum markmiðum var náð.

Fyrir árið 2022 set ég mér sömu hreyfimarkmið, nema að þessu sinni stefni ég að ná enn fleiri dögum þar sem ég hjóla í vinnuna, markmiðið er að hjóla oftar en 52 sinnum.

Ég hef undanfarin ár skráð niður þær bækur sem ég les. Listi ársins 2021 lítur svona út:

  1. Enn er morgun – Böðvar Guðmundsson
  2. Æskuár mín á Grænlandi – Peter Freuchen
  3. Eldarnir – Sigríður Hagalín Björnsdóttir
  4. Blóðberg – Þóra Karítas Árnadóttir
  5. Minn hlátur er sorg – Friðrika Benónýs
  6. Rauða minnisbókin – Sofia Lundberg
  7. Herbergi í öðrum heimi – María Elísabet Bragadóttir
  8. Rætur – Ólafur Ragnar Grímsson
  9. Leyndardómur Býflugnanna – Sue Monk Kidd
  10. Steiktir grænir tómatar – Fannie Flagg
  11. Horfnar – Stefán Máni
  12. Fíkn – Rannveig Borg Sigurðardóttir
  13. Bakaríið Vest – Solja Krapu-Kallio
  14. Tilfinningar eru fyrir aumingja – Kamilla Einarsdóttir
  15. Barnið í garðinum – Lárus Sigurður Lárusson, Sævar Þór Jónsson
  16. Sögur og ljóð – Ásta Sigurðardóttir
  17. Hansdætur – Benný Sif Ísleifsdóttir
  18. Sól af lofti líður – Hannes Pétursson

Bókaklúbburinn minn hvetur mig til lesturs og eru þá oft á leslistanum bækur sem ég að öðrum kosti hefði ekki valið mér. Stundum kemur fyrir að ég gefst upp, það er einfaldlega svo að bókasmekkur okkar er mismunandi og hefur samviskusemi mín til að lesa bækur sem höfða lítið til mín dvínað. Hér að ofan eru aðeins bækur sem ég hef náð að klára.

Árið sem bíður nú handan við hornið er að venju óskrifað blað. Öll vonum við að nú fari veiruskömmin loks að gefa eftir og við fáum aftur gamla lífið okkar. Líklega mun nú verða bið á því en vonandi munum við smám saman færast nær því takmarki með einum eða öðrum hætti.

Klárlega bíða mörg ævintýrir á nýju ári, nokkrar ferðir eru á teikniborðinu og vonandi koma nýjar áskoranir inn á mikils fyrirvara. Ég hef lært að þrátt fyrir að vera farin að nálgast 60 árin er alls ekki of seint að víkka út þægindarammann og takast á við eitthvað nýtt. Ég tek því nýju ári fagnandi og er spennt að sjá hvað það ber með sér.

Ég þakka samferðafólki mínu fyrir góðar stundir á árinu 2021 og óska öllum sem lesa þessar línur gleði og gæfu á árinu 2022.

Birt í Blogg | Færðu inn athugasemd

Fyrir norðan veginn

Árneshreppur á Ströndum er með afskekktustu byggðum á Íslandi, „Þar sem vegurinn endar“ segir Hrafn Jökulsson í samnefndri frásögn sinni. Þar er ekki heilsársvegasamband og byggðin á undir högg að sækja. Þar bjuggu forfeður mínir, Amma mín fæddist þar, átjánda barn hjónanna Valgeirs og Sesselju í Norðurfirði og ólst upp í húsi sem nú eru kallaðir Valgeirsstaðir. Þar rekur Ferðafélag Íslands nú gistiaðstöðu. Flestir íbúar Árneshrepps í dag eru afkomendur Valgeirs og Sesselju og því frændfólk mitt en vegna stærðar fjölskyldunnar og fjarlægðar þekki ég fæst af þessu fólki.

Í mörg ár hefur mig dreymt um að arka um svæðið fyrir norðan byggðina. Nú í júlí var loksins komið að því að veður, tími og annað skipulag rann saman og draumurinn varð að veruleika.

Þetta var fámennt en góðmennt, með mér komu Darri, Ásdís og Ágúst. Með þeim Ásdísi og Ágústi höfum við Darri þegar gengið tvisvar sinnum um Hornstrandir og var þessi ferð eðlilegt framhald af þeim ævintýrum.

Laugardaginn 17. júlí sigldum við frá Norðurfirði í einstakri blíðu, spegilsléttur sjór og sólin skein sem aldrei fyrr.

Drangaskörðin blösgu við og fjær sést Geirólfgnúpur, kennileiti sem við hugðumst ganga um næstu daga.

Við létum skutla okkur í land í Furufirði. Það sem réði því var að við Darri höfðum áður gengið þangað frá Hornbjargsvita og yfir í Hrafnfjörð. Vildum við taka leiðina suður um frá þeim stað þar sem við höfðum þegar farið um.

Furufjörður tilheyrir Grunnavíkurhreppi og langt er að sækja kirkju til Gurnnavíkur. Því var reist lítið bænhús í Furufirði og í kringum það eru grafir seinustu íbúa þessa svæðis og er hægt að geta sér til um örlög og líf þeirra með því að staldra við og lesa á legsteinana.

Leið okkar lá yfir í Reykjafjörð en við höfðum skilið stóru bakpokana okkar eftir þar þegar báturinn stoppaði þar á leiðinni norður. Leiðin liggur yfir Svartaskarð sem liggur í 400m hæð. Það er nokkuð bratt upp skarðið beggja vegna og víst er að leiðin hefur ekki verið greiðfær þar yfir vetrartímann hér áður fyrr.

Sunnan við Svartaskarð er Þaralátursfjörður sem sem þótti kostalítil jörð og fór í eyði árið 1946. Þar flæmist jökuláin um eyrarnar en er ekki erfið yfirferðar. Upp úr Þaralátursfirði að sunnanverðu er aðeins yfir lágan háls að fara áður en komið er til Reykjafjarðar.

Við komum í Reykjafjörð eftir um 6klst göngu og þá blasti við Geirólfsgnúpur fjær og Sigluvíkurnúpur nær.

Í Reykjafirði var seinast búskapur árið 1964. Þar er nú rekin ferðaþjónusta á sumrin af hálfu afkomenda seinustu íbúanna, gistiaðstaða, tjaldstæði og sundlaug.

Þetta var nokkuð léttur göngudagur, við gengum um 14km án byrða í dýrðarveðri. Það var eigi að síður ljúft að dýfa sér í dásemdarlaugina í Reykjafirði í dásemdarveðri.

Næsti dagur heilsaði bjartur og ægifagur. Það var verulega ljúft að snæða morgunmat á fögru tjaldsvæðinu í Reykjafirði.

Að loknum morgunmat var öllu pakkað og lagt af stað. Leið okkar lá gegnum kríuvarp og voru kríurnar nokkuð aðgangsharðar enda höfðu þær unga að verja.

Reykjafjarðaráin er jökulá sem fellur úr Drangajökli. Við fundum vað á henni nokkuð neðarlega. Hér er vaðið yfir fyrri álinn sem var grunnur. Sá síðari var alldjúpur og náði okkur í klof en þar sem veður var gott gerði það ekkert til, það var hinn fínasti nærbuxnaþurrkur þennan dag.

Við gengum fyrir Sigluvíkurnúp og hækkuðum okkur svo upp um ca 200m í skarðið yfir í Skjaldabjarnarvík. Upp úr skarðinu var tilvalið að ganga á Geirólfsnúp með viðbótar 200m hækkun, en þar er hið ágætasta útsýni suður að Drangaskörðum og einnig enn lengra suður allar strandir.

Útsýnið norður er ekki síðra, þarna er Reykjafjörður næstur, svo Þaralátursnes og Þaralátursfjörður, þá Furufjörður og Bolungarvíkurófæra og Bolungarvík eystri. Lengst til hægri erur svo Kálfatindar á Hornbjargi.

Þegar Geirólfgnúpur var fullkannaður komum við okkur aftur niður að sjávarmáli og könnum landgæði í Skjaldabjarnarvík. Ljóst er að þar sem víðar hefur sjórinn fært björg í bú en landgæði til hefðbundins landbúnaðar rýr.

Í Skjaldabjarnarvík er grafinn Hallvarður Hallson, kenndur við Horn. Hann mun hafa krafist þess að vera grafinn utangarðs og hafa margir heitið á Hallvarð. Fé sem safnast hefur af þeim sökum hefur verið notað til að setja upp legstein og snyrta gröfina ásamt því að setja upp slysavarnarskýli í Skjaldabjarnarvík.

Eftir skoðun á landgæðum í Skjaldabjarnarvík var haldið áfram götuna upp Sunnudal yfir í Bjarnarfjörð. Það kom mér óneitanlega á óvart að gatan á þessum slóðum er víða ógreinileg og lítið um merkingar eða vörður. Upp Sunnudalinn var undantekning þar sem við rákumst á þessa uppbyggðu götu.

Þegar komið var upp í skarðið milli Sunnudals og Bjarnarfjarðar blasti Bjarnarfjörður nyrðri við. Hann hefur aldrei verið í byggð enda er undirlendi afar lítið. Í botni hans rennur straumhörð jökulá sem er erfið viðureignar. Besta leiðin þar um er að sæta sjávarföllum og fara á fjöru yfir fjörðinn og stefna á nesið sem skagar fram á myndinni hér að ofan.

Þennan dag var háfjara um kl 20.30. Við vorum komin þarna nokkru fyrr og biðum átekta eftir fjöru þar sem við vissum ekki hversu djúpt væri þarna. Við fundum okkur skjól og hituðum vatn til að útbúa kvöldmat sem við snæddum í góðu skjóli.

Þegar klukkan sagði okkur að háfjöru væri náð ákváðum við að vaða yfir. Komið var kalsaveður, hávaðarok og farið að kula. Við klæddum okkur í pollabuxurnar og óðum út í. Það var smástreymt og því féll minna út en ella en eigið að síður var fjörðurinn grunnur, náði okkur aldrei nema í hné og botninn þéttur og góður.

Við fundum okkur tjaldstað á nesinu sem kallast Langaeyri. Það var allhvasst þegar við settum tjöldin niður og blakti tjaldið okkar nokkuð en hélt þó vel.

Þó aldrei hafi verið búið í Bjarnarfirði nyrðri þá eru garðhúsgögnin af betri sortinni. Hér snæða Ágúst og Ásdís morgunverðinn í garðinum.

Já það er sagt að þarna hafi aldrei verið búið eða skráð búseta. Þarna hafa þó fundist mannvistaleifar sem sagnir og getgátur eru um að séu eftir Fjalla-Eyvind. Var hann um tíma á þessum slóðum og sagt er að Hallvarður, sá sem jarðsettur var í Skjaldabjarnarvík hafi aðstoðað hann í útlegðinni.

Við vorum örlítið velkt og lúin eftir langan dag daginn áður, lögðum að baki yfir 20km og hátt í 800m hækkun og komum seint í náttstað. Hjá okkur telst það að vakna kl 8.00 og leggja af stað kl 9.30 að drolla og sofa út.

Leiðin út með Bjarnarfirði liggur með ströndinni og er frekar auðfarin. Við fórum hægt um og nutum náttúrunnar, fuglalífið var margbrotið, sólskríkjan skoppaði kringum okkur, æðarfuglinn úaði við ströndina, skarfar sátu á skerjum og tjaldurinn gjammaði í fjörunni.

Við Meyjarsel gerðum við gott stopp. Þar lágu landselir á skerjum, horfðu forvitnir á okkur en létu þó ekki styggjast þó við gægðumst á þá úr hæfilegri fjarlægð.

Við fundum vað á Meyjaránni en djúpt var í henni og klárlega langaði okkur ekki að vaða þá á í vexti. Fyrir þremur árum lenti gönguhópur í vandræðum við að vaða Meyjarána. Vildi þeim til happs að geta gert vart við sig á Dröngum og í úrhellisrigningu var þeim bjargað.

Við veltum þessum atburði fyrir okkur og vorum sammála um að það sé mikilvægt öllum sem ferðast um slóðir fjarri alfaraleiðum og fjarskiptasambandi að læra af þeim mistökum sem aðrir hópar hafa gert.

Á Dröngum bönkuðum við Ásdís upp á og vonuðumst til að hitta fyrir gamlan skólastjóra okkar, Svein Kristinsson sem ólst þarna upp. Heppnin var ekki með okkur en við hittum þar fyrir mág hans sem einmitt var staddur á Dröngum þegar gönguhópurinn lenti þar í vanda fyrir þremur árum og lýsti hann fyrir okkur þeim atburðum.

Drangar voru í byggð til 1966. Þangað fluttu Kristinn Jónsson og Anna Guðjónsdóttir árið 1953 með stóran barnahóp frá Seljanesi. Drangar eru mjög afskekktir, jafnvel á þeim tíma, en þarna eru mun meiri landkostir en á Seljanesi og hlunnindi mikil.

Þetta var eini dagurinn sem var þungt yfir. Drangaskörðin létu bara rétt sjá í neðri hlutann.

Við höfðum skipulagt leiðina þannig að við gengjum um skörðin og var það mikil upplifun. Þau eru til að gera auðfarin að norðanverðu en snarbrött niður að sunnanverðu.

Þar þarf að sæta sjávarföllum til að komast auðveldlega um. Við vorum heldur snemma á ferðinni og ákváðum að klöngrast þarna um frekar en að bíða.

Á einum stað liggur berggangur í sjó fram og þar þurftum við að fara úr skónum og vaða. Neðan berggangsins var stórgrýti með þörungum og ekki auðvelt að fóta sig.

EFtir þetta klöngur tók við nokkuð löng leið með stórgrýttri fjöru. Skal ég viðurkenna að þessi leið var mun torfarnari en ég hafði gert mér grein fyrir. Eftir þessa ferð átti ég samtal við Gerðu fræknu mína sem ólst upp í Norðurfirði. Þegar hún var 13 ára var faðir hennar veikur og hún ásamt systrum sínum sá um sláttinn það sumarið. Í verðlaun fengu þær að heimsækja vinkonur sínar sem bjuggu að Dröngum. Þær fóru að Dröngum með bát en fóru til baka á hesti. Sagðist hún hafa farið fyrir Drangaskörðin á hestunum, það hlýtur að hafa verið hið mesta torleiði og finnst mér það verulega vel gert. Þessi saga minnir okkur á hversu nálægt okkur í tíma það er að þetta þótti hinn eðlilegasti ferðamáti.

Við höfðum tekið daginn rólega og notið til ýtrasta þess sem fyrir augu bar. Við komum í Drangavík um kl 19 um kvöldið eftir ca 18km göngu og slógum upp tjöldum og nutum samverunnar í blíðunni.

Í Drangavík er þessi undurfagri foss með reisulegum drangi sem skiptir fossinum í tvennt. Rétt við fossinn fann Ágúst blóm sem gladdi okkur lítið, það var lúpína. Við veltum fyrir okkur hvernig í veröldinni hún hefði komist þarna. Vissulega er til fólk sem gerir hvað það getur til að sá lúpínu út um allt, en var þetta ekki full langt gengið? Þarna ógnar hún náttúrulegu vistkerfi og líklegt er að eftir nokkur ár muni hún yfirtaka holtin og fjallahlíðarnar og þar verði blátt yfir að líta, náttúrulegi lynggróðurinn muni gefa eftir.

Eftir ferðina kom Ásdís með kenningu sem mér finnst líkleg, það er að lúpínufræ hafi fokið yfir Drangajökul, mögulega úr Leirufirði þar sem henni hefur verið sáð.

Þennan dag voru Drangaskörðin ekki í felum og var það ósjaldan sem vil litum við til að virða þau fyrir okkur og mynda.

Þennan dag voru engin skörð eða hækkanir, aðeins rölt meðfram grónum sjávarbökkum. Þar gengum við fram á þennan götótta berggang sem kallaður er Gathamar.

Við Gathamar gengum við framá rebbafjölskyldu, nokkrir verulega forvitnir yrðlingar vöppuðu um en voru óðara reknir inn í grenið af ákveðinni móður sinni. Mátti samt sjá nokkur eyru gægjast upp og kíkja á okkur, hversu hættuleg við værum var alsendis óvíst.

Síðla dags komum við svo að Eyvindafjarðará sem var æði vatnsmikil. Þessi mynd nær engan veginn að fanga kraftinn sem við skynjuðum í vatninu. Það er ekki erfitt að skilja löngun virkjanasinna að beisla þennan kraft. Jafnauðvelt er að heillast af óbeisluðu aflinu og þrá það eitt að það fái að fossa þarna óbeislað áfram um aldur og ævi.

Þarna er brú ofar á klöppum þannig að ekki þarf að óttast erfitt vað. Vafalaust hefur þetta áður verið farartálmi gangandi mönnum og jafnvel ríðandi þegar vöxtur hefur verið í ám.

Í göngulok komum við að Hvalá. Krafturinn í vatninu þar er enn meiri en í Eyvindafjarðaránni og ekki síður heillandi.

Komið var að ferðalokum. Við höfðum lagt að baki rétt um 70km, að mestu götur á sjávarbökkum en einnig yfir há og brött skörð, grýtta fjöru og brattar hlíðar. Kom mér á óvart hvað göturnar voru víða ógreinilegar, líklega er þetta svæði mun minna gengið en á Hornströndum.

Þarna blasir náttúran og sagan við í hverju skrefi og endalaust hægt að njóta. Það leyfðum við okkur svo sannarlega og auðvelt að mæla með göngu um þessar slóðir.

Dagur 1: Blátt 14km
Dagur 2: Grænt ca 20km (tækið mitt stoppaði og hef því ekki nákvæma mælingu)
Dagur 3: Gult 18km
Dagur 4: Rautt 17km

Birt í Ferðalög | 2 athugasemdir

Að elta drauminn

Að eiga sér draum er svo mikilvægt, draum um að gera eitthvað sem manni finnst jafnvel sjálfum fráleitt að geti orðið vað veruleika. Tískuorð yfir þetta er að setja sér markmið, horfa á takmarkið og vinna að því, hversu fjarlægt sem það kann að virðast

Í mörg ár hef ég átt mér draum sem mér fannst lengi vel afar fjarlægur …………..drauminn um að þvera Vatnajökul á gönguskíðum. Fyrst fannst mér að þetta væri bara fyrir einhverja sem væru „ofur“ á einhvern hátt. En eftir því sem þekking og færni í ferðalögum á jöklum og að vetri jókst, varð mér ljóst að þessi draumur minn gæti orðið að veruleika, spurningin var aðeins hvenær rétta tækifæri byðist.

Gönguvinkona mín til margra ára, Elísabet Sólbergsdóttir (Beta) á sér líka draum, sá draumur er töluvert ofur á minn mælikvarða, hún hefur sett sér það markmið að toppa hundrað hæstu tinda Íslands. Margir þeirra eru í Vatnajökli og til að ná nokkrum þeirra skipulagði hún ferð yfir þveran jökulinn með viðkomu á 7 þeirra. Ég naut þeirrar gæfu að fá að fylgja henni nú nýlega.

Þar sem markmiðið var ekki aðeins að þvera jökulinn heldur að toppa nokkra af hæstu tindum landsins í leiðinni gefur auga leið að þetta er ferð sem reynir á ýmsa færni. Ferðaáætlunin var þannig að byrjað var á því að fara upp Breiðamerkurjökul og inn í Mávabyggðir og toppa þar hæsta tind, fara upp fyrir Esjufjöll og toppa þar þrjá tinda, arka síðan yfir jökulinn að Kverkfjöllum, toppa þar þrjá tinda og renna sér svo niður Kverkjökul.

Þetta var metnaðarfullt plan en svo spennandi að ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar mér bauðst að slást í för með Betu. Hún hafði fengið Leif Örn Svavarsson til að leiða okkur um jökulinn. Leifur er þrautreyndur á jöklum Íslands og hefur hann einnig toppað hæstu tinda allra heimsálfanna tvívegist og farið tvisvar á báða pólana fyrir utan aðra leiðangra. Því er ljóst að betri leiðsögumann í þetta verkefni er ekki hægt að fá.

Aðrir ferðafélagar voru, talið ofan frá og til vinstri: Beta, Bjarni, Darri, Kristjana, Lilja og Inda.

Ferðin hófst við sporð Breiðamerkurjökuls sem hefur hopað verulega seinustu ár. Eigi að síður var hægt að aka okkur nálægt jökuljaðrinum. Það er allnokkur búnaður sem fylgir svona leiðangri, ég hafði vigtað nákvæmlega það sem við Darri vorum með, það voru samtals 64 kíló fyrir okkur bæði og þó hægt væri að aka nálægt jöklinum þurftum við að bera dótið rétt tæplega 200m. Vorum við með bakpoka sem við fylltum með þyngsta dótinu en bárum svo púlkurnar á milli okkar með restina. Ansi var jökullinn úfinn og þakinn möl og sandi þarna neðst.

Þegar komið var á jökulinn þurftum við svo að umstafla öllu og hlaða á púlkurnar.

Þarna neðst er jökullinn þakinn sandi og jökulruðningi, ekki albesta undirlendið fyrir harðplastpúlkurnar en ekki var annað í boði en að draga þær eftir þessu undirlagi. Skíðin voru kirfilega fest ofan á púlkurnar.

Eftir því sem ofar dró minnkaði sandurinn og harðísinn tók við.

Inn á milli var jökullinn nokkuð sprunginn. Það var viðbótaráskorun fyrir púlkurnar að renna ofan af íshryggjunum og skella niður. Skal viðurkennt að það var meira en margar þeirra þoldu með góðu móti. Nokkrar púlkur fengu ýmist rifur á botninn eða klesst nef eftir ferðina upp Breiðamerkurjökulinn.

Ofan við Bræðrasker komumst við á snjó og var það mikill léttir eftir harðísinn. Við gátum þá spennt á okkur skíðin og hin eiginlega skíðaferð hófst. Þá blöstu Mávabyggðir betur við. Mávabyggðir eru fjallaklasi sem stendur upp úr Vatnajökli ofan við Breiðamerkurjökul. Lengst til vinstri í Mávabyggðum má greina hvítan strýtulaga tind en þann tind stefndum við á og var hann toppaður daginn eftir.

Til vinstri við okkur blasti svo Öræfajökull við upp úr hvítri breiðunni. Fyrir miðri mynd er Þuríðartindur eins og nabbi upp úr og lengst til vinstri er strýtulaga Káratindur. Báða þessa tinda hefur Beta toppað undir leiðsögn Leifs á þessu ári.

Undir austanverðum Mávabyggðum fundum við okkur tjaldstæði í kvöldsólinni í ca 1000m hæð. Í mörg ár hefur mig einmitt dreymt um að koma í Mávabyggðir, mér hefur alltaf fundist þetta svæði sveipað ákveðinni dulúð. Þetta kvöld var mikil veðurstilla og létt verk að tjalda í logninu og algerlega dásamlegt að leggja höfuðið á koddann á þessum langþráða stað.

Við höfðum lagt að baki 18,4km með samanlagðri hækkun um 981m á um 9klst.

Við vorum árrisul daginn eftir, vöknuðum kl 6.00, það þýðir ekkert að sofa úr sér augun í svona ferðalagi. Nú vorum við komin upp á alvöru jökul og á alvöru sprungusvæði. Þá er ekki boðið upp á neitt kæruleysi og allir festir saman í línu til öryggis. Alltaf prófar maður eitthvað nýtt, þetta var í fyrsta skipti sem ég fer um jökul með púlku í línu. Línunni var smeygt undir böndin á púlkunni og þvældist línan ótrúlega lítið fyrir manni.

Það var nánast heiðskýrt, sólin skein og fegurðin var ótrúleg. Á myndinni hér að ofan má sjá Veðurárdalsfjöll fyrir miðju og síðan rana af Esjufjöllum sem einnig eru fjallgarður inni í Vatnajökli ofan Breiðármerkurjökuls, rétt eins og Mávabyggðir.

Hér nálgumst við hæsta tind Mávabyggða 1439m en hann er einn af hundrað hæstu tindum Íslands.

Útsýnið af tindinum er stórkostlegt, hér horfum við niður á Breiðamerkurlón, Breiðamerkurjökul, Veðurárdalsfjöll og rétt gilttir í rana Esjufjalla.

Eftir að hafa dáðst að fegurðinni allt í kring var komið að því að stefna á næsta tind sem var Snæhetta 1761m. Til að komast að henni þurftum við að taka U laga krók til að sneiða hjá sprungusvæði og einnig til að hafa hækkunina nokkuð jafna og þétta.

Flestir ferðafélaga minna voru með hin dásamlegustu hálfskinn undir skíðunum. Þau henta afar vel við þessar aðstæður. Hjá mér var það allt eða ekkert, engin skinn eða alskinn sem renna nákvæmlega ekkert. Þarna byrjaði ergelsi mitt út í skinnin mín en það getur verið þreytandi að vera með alskinn undir skíðunum allan daginn.

Upphaflega planið var að tjalda rétt undir Snæhettu og fara svo á hana næsta dag. Um það leyti sem við vorum búin með plönuðu dagleiðina kom sú hugmynd upp að fara á Snæhettu og ganga síðan 10km í viðbót og tjalda þar til tveggja nátta. Skal ég játa að ég var svona u.þ.b. búin að fá nóg en málið var að daginn eftir spáði miklum vindi og það var afar freistandi að þurfa ekki að taka upp tjald í miklu roki, hvað þá að tjalda því aftur. Hugmyndin var því alls ekki svo slæm og við örkuðum á Snæhettu. Þar uppi var snjórinn afar ísaður en með skinnin undir rann ég ekkert og á niðurleiðinni var herfilegt að vera með púlkuna sem rann vel en ég ekkert. Því var þrautalendingin að taka skinnin af og láta bara vaða með púlkuna dansandi við hliðina í glerjuðu færinu.

Nokkuð fyrir neðan Snæhettu í ca 1600m hæð slógum við upp tjöldum í nokkrum vindi. Við byrjuðum á að byggja skjólgarða til að skýla fyrir vindinum. Urðu þeir nánast mannhæðarháir og töluvert mannvirki. Skal það bara játast að skrokkurinn fann alveg fyrir þessum degi enda höfðum við lagt að baki 28km með 1032m hækkun á rétt um 10klst.

Nokkuð hvasst var um nóttina, tjaldið okkar blakti aðeins þrátt fyrir skjólvegginn. Yfirborð snjósins var algert gler eftir frostið um nóttina. Verkefni dagsins var að ganga á Ugga 1586m og Esju 1661m. Frá tjaldinu voru um 7km að Ugga, styttra að Esju. Leifur ákvað að fara þetta ekki á skíðum þar sem það var glerhált og útlit fyrir stífan vind á móti þegar liði á daginn. Ég var strax ákveðin í að taka þennan dag sem hvíldardag og það gerðu þær Lilja og Inda einnig en Bjarni og Darri fylgdu Betu í verkefni dagsins.

Ég skrapp því í heimsókn í tjaldið til Indu og Lilju og átti gott röfl með þeim. Tjöldin í svona ferðum minna mest á unglingaherbergi eða þátt úr seríunni allt í drasli, þannig er þetta bara.

Eftir góða heimsókn til þeirra systra fór ég heim í mitt eigið unglingaherbergi og lá fyrir og hlustaði á hljóðbók, dásamlegt líf.

Það var farið að hvessa allverulega þegar göngugarparnir komu til baka, Uggi og Esja toppuð og allir kátir. Hins vegar hafði hlýnað verulega og hlýr vindurinn nagaði skjólgarðana okkar stöðugt. Urðu þeir fljótt eins og gatasigti og þynntust verulega og hrundu. Vorum við í stöðugum endurbótum. Við Darri gerðum nýjan garð öðru megin við tjaldið um kvöldmatarleytið og þóttumst vera nokkuð góð með hann. Seinna um kvöldið lágum við og hlustuðum á hljóðbók, ég var meira að segja rétt sofnuð þegar garðuinn hinu megin við tjaldið hrundi nánast ofan á það og Darra.

Það þýddi ekkert að væla, upp úr pokanum og í útifötin fórum við og hlóðum nýjan garð þó klukkan væri langt gengin í 11 um kvöldið og hávaðarok úti.

Um nóttina var allmikill vindur en öll tjöld stóðu það af sér, þökk sé góðum skjólgörðum.

Daginn eftir biðum mesta rokið af okkur og lögðum ekki af stað fyrr en um kl 13. Þá var enn töluvert rok giskuðum við á að það væri nálægt 15-18m/sek.

Stefnan var tekin á Kverkfjöll sem virtust bara örskammt framundan. Skíðin runnu vel í snjónum og lífð var dásamlegt. Leifur gaf upp strax í upphafi að við myndum ganga í 6 lotum og taka stutta pásu á klukkutíma fresti. Það gekk eftir, við héldum vel áfram, meðalhraði á ferð þennan dag var 4,4km/klst sem er nokkuð gott með púlku í eftirdragi. Meðalhraði með stoppum var 3,5km/klst sem er einnig góður ferðahraði. Alls gengum við 25km þennan dag á 7klst og 20mín.

Þegar við lögðum af stað var vindurinn líklega 15-18m/sek líklega að norðvestan en við gengum nánast í hánorður. Það var nokkuð lýjandi að hafa vindinn svona skáhallt á móti og fundum við flest fyrir því í vinstri hendinni að degi loknum. Gerðum við ráð fyrir að vindinn myndi lægja fljótlega en það var langt liðið á dag þegar það fór að hægja. Eftir eina pásuna þegar ég hafði bætt á mig úlpu datt vindurinn skyndilega niður og sólin fór að skína, þvílík umskipti. Það var algerlega nauðsynlegt að rífa af sér nokkrar spjarir og lofta um.

Klukkan var langt gegnin í hálf níu þegar 6 göngulotum var lokið. Þá var komið að því að tjalda, að þessu sinni í hinni mestu blíðu á miðjum Vatnajökli í 1500m hæð. Á myndinni hér að ofan má sjá Snæfell gnæfa yfir tjaldið þeirra Betu og Bjarna.

Við höfðum komið seint í tjaldstað eða ekki fyrr en um kl 20:20. Dagurinn hafði verið nokkuð strangur og því vöknuðum við ekki fyrr en kl 8 og lögðum af stað um kl 10. Nú var skyggni ekkert og er það ansi krefjandi að vera fremstur við slíkar aðstæður, ekkert kennileiti til að miða stefnuna við og meira að segja verða stefnan upp og niður ekki alveg skýr.

Næsta takmark var Brúðarbunga 1781m. Henni var náð í engu skyggni, myndir teknar þar hefðu getað verið teknar hvar sem er.

Þetta var dagur hálfskinna. Ég með mín heilskinn átti í erfiðu sambandi við þau. Vissulega var betra að vera með þau en án þeirra en það er ekki áreynslulaust að vera á þeim í lengri tíma þar sem rennslið er ekkert. Geðslag mitt lét á sjá og aumkaði Darri sér yfir mig og skiptum við um skíði. Verður að segjast eins og er að það er ólíkt léttara að vera á þessum dásamlegu hálfskinnum ef brekkan er ekki of brött.

Þegar við höfðum gengið í rúmar 8klst vorum við rétt undir tindinum Jörfa 1944m. Þá höfðum við lagt að baki 22km og hækkað okkur um 513m. Skal ég bara viðurkenna að ég var alveg til í að tjalda. Þarna kom upp sú hugmynd að toppa Jörfa í engu skyggni og bæta svo ca 6km við og fara í efri skálann í Kverkfjöllum. Klukkan var 18 og við nánari umhugsun varð okkur ljóst að það verkefni tæki okkur hátt í 4klst. Þótti það ekki góður kostur svo við slógum upp tjöldum þarna í ca 1900m hæð.

Það reyndist góð ákvörðun, um nóttina létti til og þessi mynd er tekin um kl 3 um nóttina þar sem morgunsólin slær roða á tindinn Jörfa sem er fimmti hæsti tindur landsins.

Húsið okkar og bílarnir í morgunroðanum.

Við áttum allnokkurt dagsverk fyrir höndum, taka okkur saman, toppa tvo tinda og koma okkur niður Kverkjökul þangað sem við yrðum sótt kl 14. Því voru vekjarar stilltir á kl 6.00 og við vorum rösk að taka okkur saman þannig að við vorum tilbúin með allt okkar dót kl 7.30.

Þá var arkað á Jörfa sem virtist nú ekki vera meira en minni háttar hæð þarna í landslaginu. Á Jörfa vorum við með sýn yfir allan Vatnajökul og gátum við geint helstu tinda hans í allar áttir. Magnað útsýni.

Til vesturs var svo Hverasvæðið sem frá þessu sjónarhorni var töluvert fyrir neðan okkur.

Tindasöfnun þessa dags var ekki lokið, við áttum eftir Vestari-Kverk 1818m.

Útsýni til norðurs er stórkostlegt á þessum stað.

Eftir vel heppnað toppatrítl var næsta verkefni að koma sér niður af jöklinum. Hann er allbrattur þarna og því var það töluverð áskorun að renna niður á gönguskíðunum með púlkuna í eftirdragi. Útsýnið var þannig að maður varð að stoppa öðru hvoru og horfa.

Hér er Darri á góðu skriði með sýn yfir Dyngjujökul og Kistufell.

Hér erum við komin niður bröttustu brekkuna og úfinn skriðjökullinn framundan með sprungusvæði niðurundan.

Nú tók við ark um sprungið völundarhús.

Litið til baka upp brekkuna.

Engin orð fá lýst ævintýrinu að skíða þarna fyrir neðan úfinn skriðjökulinn.

Neðst tók við sprunginn harðís. Þá dugði ekkert annað en að vera á jöklabroddum og hafa púlkuna fyrir framan sig.

Öll ævintýri taka enda, jökullinn líka. Nú var aftur komið að því að hlaða þyngsta dótinu í bakpoka og klöngrast yfir jökulurðina í bílinn, fara svo aðra ferð og ná í púlkurnar með léttara dótinu.

Öll ævintýri taka enda, svo var einnig um þetta. Á planinu neðan Kverkjökuls var tekin hópmynd.

Engin orð fá lýst þessu magnaða ævintýri, þvílík forréttindi sem það eru að fá að taka þátt í þessu verkefni hennar Betu, það verður spennandi að fylgjast með áframhaldinu en eftir þessa ferð hefur hún toppað 88 af hundrað hæstu tindum Íslands, það er ekki langt í að hennar draumur rætist.

Ferðafélagarnir voru frábærir og leiðsögumaðurinn í heimsklassa. Einstakt ævintýri.

Draumurinn um að þvera Vatnajökul rættist og ekki bara þvera hann heldur fara um algerlega einstakt svæði, Mávabyggðir, efri hluta Esjufjalla og efsta hluta Kverkfjalla. Þessi ferð verður seint toppuð.

Dagur 1 – grænt – Breiðamerkurjökull – Mávabyggðir 18,3km. Hækkun 981m, lækkun 18m
Dagur 2 – bleikt – Mávabyggðir – ofan Esjufjalla 27,9km. Hækkun 1032m, lækkun 369m
Dagur 3 – Uggi og Esja (ég hvíldi)
Dagur 4 – ljósblátt – Ofan Esjufjalla – Miður Vatnajökull 25,5km. Hækkun 312m, lækkun 456m
Dagur 5 – rautt – Miður Vatnajökull Kverkfjöll – 21,5km. Hækkun 513m, lækkun 152m
Dagur 6 – blátt – Kverkjöll efst og niður að bílastæði – 14,3km. Hækkun 126m, lækkun 1154m

Alls voru þetta 107km og samanlögð hækkun 2.964m,

Birt í Ferðalög | Ein athugasemd

Snjófíklar á Mýrdalsjökli

Á snjóléttum vetrum getur verið erfitt að vera snjófíkill, þannig hefur liðinn vetur farið með mig og fleiri vini mína sem hafa verið í gönguskíðagengi Einars Torfa. Þegar fer að vora og snælína hækkar verður þetta enn örðugra en með því að stefna á jökla þá geta snjófíklar enn svalað fíkn sinni.

Þar sem uppstinginadag ber ævinlega upp á fimmtudag og þá er kjörið að næla sér í frídag á föstudegi og gera eitthvað skemmtilegt. Að þessu sinni stefndu snjófíklar í gönguskíðagengi Einars Torfa á Mýrdalsjökul. Var það að vísu varaplan, aðalplanið var suðaustanverður Vatnajökull en þar sem vindaspá var óhagstæð var plani breytt á seinustu stundu.

Hópurinn taldi 12 manns, talið að ofan til vinstri og niður: Einar Torfi leiðsöðumaður, Ingibjörg hans aðstoðarkona, Ágúst, Ásdís, Bjarki, Gylfi, Darri, Kristjana, Kristinn, Sigrún, Lilja og Guðrún Hrefna.

Við hittumst við Ytri-Sólheima kl 18 á miðvikudagskvöldi, með farangur og nesti pakkað til 4 nátta og 5 göngudaga. Ferðafiðringurinn var áþreifanlegur, er ég með allt, hvað gleymdist var svona það sem fór í gegnum huga okkar.

Okkur var svo ekið í ca 730m hæð en þar var nægur snjór. Þar pökkuðum við í púlkurnar og var okkur þá ekkert að vanbúnaði að leggja af stað.

Við lögðum af stað rétt fyrir kl 20 um kvöldið og sóttist okkur ferðin upp jökulinn val. Skinn voru undir skíðunum þannig að það var ekki erfitt að ganga upp jökulinn. Ekki var þó um marga staði að ræða til að tjalda þar sem hallinn var full mikill. Það var ekki fyrr en við komum upp á hásléttu jökulsins að við námum staðar til að setja niður búðir. Þá var klukkan orðin rúmlega 23 og vorum við komin í 1350m hæð, búin að hækka okkur um rúmlega 600m á 3,5klst. Það var ekki alveg laust við að við værum lúin og þrátt fyrir sumarnóttina var þörf á ljósum. Ekki var gefinn afsláttur á eldamennsku, það er líka nauðsynlegt að taka inn orku á svona dögum.

Eftir góðan svefn kom nýr dagur, það var sko fallegur dagur! Fundum við hvernig sólin hitaði tjaldið um morguninn og var ekki ský að sjá á himni, hvílík sæla sem það er að vakna í slíkri dásemd uppi á miðjum jökli.

Tjaldlíf á jökli er samt ekki bara sól og sæla, eldhússtörfin eru tímafrek þar sem það þarf að bræða snjó og hita vatn, bæði fyrir morgunmat og svo til að hafa nægan vökva yfir allan daginn.

Við tókum okkur saman í rólegheitum og lögðum af stað rétt fyrir kl 11. Háslétta Mýrdalsjökuls var framundan og sólin skein á okkur sem aldrei fyrr.

Það var ósvikin gleði í hverju andliti og við runnum nokkuð áreynslulaust áfram þrátt fyrir að vera með púlkuna í eftirdragi.

Hádegisnesti tókum við nokkuð léttklædd.

Okkar trausti leiðsögumaður klikkar aldrei á græjunum sínum, áttaviti, GPS og kort eru yfirfarin reglulega.

Norðanverður Mýrdalsjökull er þægilega aflíðandi og runnum við ljúlega eftir vélsleðaslóð niður hann. Þetta var svolítið eins og bobsleðabraut.

Við fengum þær upplýsingar hjá vélseðamönnum sem við mættum á leið yfir jökulinn, að nægur snjór væri á Mælifellssandi og allar ár lokaðar………….raunin var nú ekki alveg þannig og þarna þurftum við að krækja upp á hæð nokkra þar sem á nokkur var búin að ryðja sig. Skíðafærið var aðeins mosavaxið.

Hér er þessi sama á en að þessu sinni er eftir smá skafl í hlíðinni til að feta sig eftir á skíðunum.

…………..á stöku stað voru snjóbrýr yfir ána þannig að vandræðalaust var að komast yfir.

Við vorum fegin að komast í Strútsskála. Áætlunin hafði reyndar hljóðað upp á að tjalda aftur uppi á jöklinum en okkur sóttist ferðin það vel að það var ákveðið að fara alla leið í skálann. Urðu þetta rétt um 32km sem við runnum á tæplega 10klst.

Næsti dagur heilsaði okkur bjartur og fagur, þó með þungskýjuðu yfir Mýrdalsjökli.

Nú var ferðinni heitið í Strútslaug. Var yfir nokkuð hæðótt og giljótt landslag að fara og reyndi aðeins á skíðatækni okkar.

Torfajökulssvæðið blasti við og skein sólin fallega á það.

Strútslaug var á sínum stað, en nánast vatnslaus og skítköld. Höfðu einhverjir snillingarnir veitt öllu vatninu framhjá lauginni. Hér erum við búin að ryðja öllum stíflum burt og Einar er að bæta rennsli milli efri og neðri laugar. Sátum við í hátt í klukkutíma og fengum okkur nesti meðan við biðum eftir að laugin fylltist og hitnaði.

Það kom að því að hún þótti nægilega heit og skelltu húfuklæddir gestir sér ofaní.

Eftir gott stopp í Strútslaug var haldið til baka í skálann en aðra leið. Samtals lögðum við að baki ca 12,5km þennan dag. Var það nokkuð kærkomið að eiga örlítið léttari dag svona inn á milli.

Næsta dag var risið snemma úr rekkju, ræs var kl 6.00 og vorum við komin af stað rétt rúmlega kl 8 um morguninn. Veðrið var fallegt en þétt skýjahula yfir öllu.

Strútsskáli er á miðri mynd hér fyrir ofan.

Við stilltum okkur upp fyrir hópmynd sem Ágúst tók á sína vél en Ásdís var á endanum og smellti þessari.

Hér er svo Ásdís á Mælifellssandi.

Nú lá leiðin aftur upp á Mýrdalsjökul, hér eru Kaldaklofsfjöllin, Torfajökull og svo Strútur í baksýn.

Svo fór sólin að skína, þá varð nú heldur heitt í kolunum og fötum því fækkað.

Við fetuðum okkur upp jökulinn, náðum hásléttunni norðanmegin. Þá höfðum við hækkað okkur um ríflega 800m, á rétt um 8,5klst og lagt að baki rúmlega 19km. Klukkan var rétt um hálf fimm og nægur tími til tjaldlífs.

Hér er foringinn að störfum í sínu eldhúsi. Ketillinn er frá Marokkó og algerlega brilljant í svona snjóbræðslueldhúsi.

Tjaldbúðirnar.

Nú var kominn sunnudagur, aftur var ræs kl 6.00 en eitthvað vorum við þung á okkur, við komumst ekki af stað fyrr en kl 8.30. Hér erum við að leggja af stað og lá leiðin yfir hásléttu Mýrdalsjökuls.

Það var magnþrungið að arka þarna með endalausan snjóinn framundan.

Svo fór að halla niður. Hér erum við Ásdís vinkona mín á niðurleið með Sólheimajökul og svo Eyjafjallajökul í baksýn.

Hér er Einar Torfi á niðurleið, Dyrhólaey og Pétursey sjást þarna fyrir neðan.

Það er ótrúlega gaman að renna svona niður jökulinn með púlkuna í eftirdragi. Það getur verið kúnst að stýra henni en þegar maður kemst upp á lag með það er það ótrúlega gaman.

Við enduðum ferðina á sama stað og hún hófst. Þvílíkt hvað við vorum sæl og ánægð með okkur. Á 5 dögum höfðum við lagt að baki rúmlega 90km og hækkað okkur um vel yfir 1500m. Veðrið lék við okkur allan tímann og nutum við landsins, útiverunar og félagsskaparins til hins ýtrasta.

Svona ferðir taka svo sannarlega líkamlega á, en andlega orkan sem þær gefa er ómetanleg. Það eru svo forréttindi að tilheyra svona góðum hóp og hafa framúrskarandi leiðsögumann til að vísa leiðina um hálendi landsins.

Hér að neðan er svo ferðin í tölum:

Dagur 1 – gult: 7km á 3,5klst, hækkun 620m
Dagur 2 – rautt: 32km á 9klst og 50mín, lækkun 920m
Dagur 3 – svart: 12,5km – Strútslaug
Dagur 4 – grænt: 19km á 8klst og 20mín, hækkun 820m
Dagur 5 – blátt: 21km á 6kls og 20mín, lækkun 710m

Birt í Ferðalög | Ein athugasemd

Yfir ískaldan eyðisand

Sprengisandur að vetri, á gönguskíðum, allra veðra von. Það er ekki langt síðan mér fannst tilhugsunin um slík vetrarferðalög fjarstæðukennd, en nú seinustu árin hefur þægindaramminn stöðugt verið víkkaður. Ferðir á gönguskíðum hafa átt hug minn allan og eftir að ég komst upp á lag með að ferðast um með tjald að vetrarlagi verður nánast allt mögulegt. Því var það ekki erfið ákvörðun að fara með gönguskíðahópnum mínum í slíka ferð um nýliðna páska. Í vetur höfum við farið í tvær helgarferðir með tjald og var það mikilvægur undirbúningur að þessari ferð.

Áætlunin hljóðaði upp á 11 daga ferð, 10 nætur ýmist í skála eða tjöldum. Því þurftum við að taka með mat fyrir 11 daga og til viðbótar einn varadag ef veðuraðstæður yrðu slíkar að ekki yrði hægt að sækja okkur á tilskyldum tíma. Slíkan mat þarf að velja af kostgæfni, huga vel að orkuinnihaldi og þyngd. Innkaupaferðin var því fólgin í því að leita að matvöru með sem hæstu orkuinnihaldi per 100gr. Á þeim lista voru feitar þurrkaðar pylsur, harðfiskur, smjör, feitir ostar, orkustykki og kex með háu hitaeiningagildi. Þetta var fært vandlega inn í exelskjal þar sem hitaeiningar og þyngd fyrir hvern dag var vandlega skrásett og síðan vandlega skipt í 11 pakka, einn fyrir hvern dag. Reiknaðist mér til að minn matarskammtur væri 882g á dag og innihéldi 4200 hitaeiningar.

Hér að ofan má sjá 11 slíka matarpakka fyrir tvo, einnig hrökkbrauð og plastílát með kakó, kaffi, þurrmjólk og súpukrafti.

Þó allur búnaður sé dreginn á farangurspúlku en ekki borinn, er mikilvægt að huga að þyngd, velja léttan útbúnað, ekki of mikið en samt nógu mikið af öllu. Fatnaður skal vera úr ull og hafa nóg til að skipta ef maður blotnar en alls ekki of mikið. Svefnpoki þarf að vera hlýr og miðast við vetraraðsæður, eldunargræjur þurfa að þola mikið frost. Það er erfitt að hitta á hinn gullna meðalveg og eldsneyti verður að vera frekar of mikið en of lítið. Samanlagt vorum við Darri með um 66kg, miðast það við að vera einnig með 3lítra af vatni á mann og tel ég það vel sloppið.

Í ferð sem þessari er mikilvægi trausts leiðsögumanns mikið. Ég hef átt því láni að fagna að vera meðlimur gönguskíðagengis sem Einar Torfi Finnsson, fjallaleiðsögumaður, hefur haldið úti frá því í ársbyrjun 2016. Þessi ferð var á hans vegum og þvílík forréttindi sem það eru að fá að njóta hæfileika hans. Góður leiðsögumaður í svona ferð þarf að vera veðurglöggur, vera glöggur á landakort, lesa landslag, kunna á leiðsögutæki, vera góður félagi og síðast en ekki síst að vera góður foringi. Þessa kosti hefur Einar til að bera í ríkum mæli og þrátt fyrir válynd veður og stundum arfaslæmt skyggni þá varð ég þess aldrei vör að honum fipaðist leiðaval. Ákvarðanir um hvenær ætti að leggja af stað úr náttstað eða ekki að leggja af stað m.t.t. veðurs voru einnig alltaf hárréttar.

Það er líka mikilvægt að vera með góða ferðafélaga. Hér að ofan eru þeir talið frá vinstri og niður: Kristjana, Darri, Guðrún, Jóhanna, Beta, Bjarni, Steinunn, Hugrún og Gestur. Fyrir utan Gest eru þetta allt félagar úr TKS sem ég hef ferðast margoft með að sumri en minna að vetri á skíðum. Öll eru þau fyrirtaks félagar enda er það bara gott fólk sem stundar útivist sem þessa. Í svona ferðum er ekki hægt að láta smámuni fara í taugarnar á sér, þolinmæði og þrautseigja eru mikilvægir eiginleikar.

Ferðin hófst snemma morguns fimmtudaginn 25. mars, var okkur ekið frá Akureyri og innst í Eyjafjörðinn. Ferðinni var heitið upp Vatnahjalla, en þar er bílslóði upp bratta hlíðina. Hér að ofan sést hvar við þræðum snjólænur upp að bílslóðinni en þar sat oftast nægur snjór til að við gætum þrætt okkur upp.

Hækkunin til að byrja með var nokkuð snörp en með skinn undir skíðunum gekk þetta vel. Eftirvæntingin leynir sér ekki enda mikið ævintýri framundan.

Snjórinn í vegstæðinu dugði vel en það kom þó fyrir að við þurftum að bera púlkurnar stutta leið.

Þegar ofar dró jókst snjórinn og hallinn varð meira aflíðandi. Það hafði verið logn og sól þegar við lögðum af stað en fljótlega eftir hádegispásuna fór að hvessa að norðan. Það gerði ekki mikið til þar sem við höfðum vindinn í bakið. Eftir því sem á daginn leið minnkaði skyggnið og smám saman brast á með stórrhríð með ca 15-20m/sek. Þá reyndi verulega á rötun og leiðaval en það leysti Einar vel af hendi. Verst var þó að ekki var hægt að sneiða hjá hliðarhalla og vorum við nokkrum sinnum í erfiðum hliðarhalla með sléttlendi við hliðina en vegna skyggnis var erfitt að átta sig á því. Skyggnið var það lítið að litlu mátti muna að við týndum hvert öðru, skyggnið var einungis nokkrir metrar. Því var mikilvægt að við pössuðum hvert upp á annað og hefðum alltaf auga með að við sæjum næsta mann fyrir aftan okkur.

Þökk sé GPS tækni og ratvísi Einars að skálinn í Berglandi fannst vandræðalaust. Það var gott að komast í skálann eftir 14km leið upp Vatnahjallana, hækkunin var um 900m með fullhlaðna púlku, oft í hliðarhalla.

Þegar að skálanum var komið skiptum við með okkur verkum, inni þurfti m.a. að kynda upp kamínu og gasofn, raða púlkupokunum í litlu plássinu og bræða snjó. Úti þurfti að taka púlkupokana af púlkunum og rétta þeim sem voru inni, raða saman púlkum og festa tryggilega, moka út kamarinn og sækja snjó í potta og tiltækar skálar. Veðrið var ískalt og ísaði vel á þá sem sinntu útiverkum.

Skálinn í Berglandi er lítill en mjög notalegur. Vel er hugað að aðstöðu til að þurrka föt og kamínan og gasofninn hituðu rýmið mjög fljótt. Svo var heitt að þeir sem sváfu í efri koju notuðu ekki svefnpokana og kvörtuðu mikið undan hita.

Það er mikilvægt að þurkka allan búnað vel, hér eru skinnin hengd til þerris.

Við áttum von á því að veðurútlit næsta dag væri ekki vænlegt til útiveru en eigi að síður vöknuðum við snemma næsta dag til að gá til veðurs og var það eins og við buggumst við, snarvitlaust. Skyggnið var það lélegt að það sást ekki út að kamrinum sem einungis var í ca 20m fjarlægð. Í skálanum var langbylgjuútvarp og heyrðum við þar í fréttum að það var gul viðvörun um allt land og víða lokun á heiðarvegum. Í áætluninni var gert ráð fyrir varadögum vegna veðurs og því var ekki annað að gera en taka slíkan dag á degi tvö.

Það var ósköp ljúft að sitja í skála og hvílast. Ýmislegt gerðum við okkur til dundurs, þarna var prýðis lesefni um skálann og einnig um ferðir yfir Sprengisand. M.a. frásögn af skíðaferð frá árinu 1927 og annarri ferð frá árinu 1996. Með í ferðinni voru bæði spil og Yatzy sem við gripum í ásamt því að segja sögur og spjalla saman.

Í Berglandi er ekki símasamband en hægt var að senda SMS gegnum fjarskiptabúnað sem við vorum með og sendi Einar skilaboð til Ingibjargar konu sinnar og bað hana um að skoða vel veðurspá. Síðan hringdi hann í hana gegnum gervihnattasíma og fékk greinargóðar upplýsingar um veðurútlit næsta dag. Það var ljóst að góður veðurgluggi yrði fyrri partinn, því nauðsynlegt að vakna snemma til að ná í Laugafell áður en næsta óveður skylli á.

Við vöknuðum kl 4:30 næsta dag og bjuggum okkur af stað. Við vorum búin að hafa til nesti kvöldið áður og gekk það því nokkuð greiðlega að rýma skálann. Eigi að síður tekur það tíma að bræða snjó fyrir alla og hita vatn á hitabrúsa fyrir daginn.

Við vorum ferðbúin og skálinn skúraður kl 6.30 og lögðum af stað í átt að Laugafelli.

Það var ekki orðið fullbjart þegar við lögðum af stað en veðrið var stillt og ægifagurt í sólarupprásinni. Okkar ágiskun var að hitastigið hafi verið -20°C, það beit verulega í kinnarnar og vorum við ánægð með að það var ekki mikill vindur með þessum kulda.

Okkur sóttist ferðin vel enda ekki mikið um hækkanir eða lækkanir á leiðinni.

Hér liggja leiðir til ýmissa átta, við eigum ca 4km eftir í skálann í Laugafelli.

Frjáls í víðáttu hálendisins.

Hér nálgumst við Laugafell og virðum fyrir okkur Hofsjökul, Miklafell í Hofsjökli í austurjaðri hans.

Hér rennum við okkur niður að FÍ skálanum í Laugafelli. Klukkan var 13.30 og höfðum við lagt að baki 22km á 7 klst.

Þar sem það er heitt vatn í Laugafelli er skálinn upphitaður og er það óneitanlega notalegt að koma inn í hlýjan skálann. Hins vegar er aðstaða til að þurrka föt bágborin og vorum við fegin að koma ekki blaut og hrakin þarna.

Í Laugafelli er heit laug, hér að ofan er hitastigið kannað. Verður að segjast eins og er að hitinn var svona á mörkunum en slapp þó. Stutt frá lauginni er upphitað salerni og skiptiaðstaða. Við vorum með sundföt með okkur og þótti tilvalið að skola af okkur skítinn og fara í laugina. Skal viðurkennt að það var alveg áskorun að skokka berfættur í snjónum á sundfötum til að fara í laugina.

Meðan við vorum í lauginni brast á með skafrenningi og hlóðst myndarlegur snjótúrban ofaná húfurnar sem var nauðsynlegur búnaður í rétt volgri lauginni.

Eftir baðið tók við mesta þrekraun dagsins, það er að hlaupa/ganga virðulega yfir í salernishúsið. Á þeirri leið tókst mér að stíga ofan í holu sem hafði myndast vegna jarðhita og sökk upp í klof. Gestur var heldur óheppnari, hann flaug á magann, gerði nokkra snjóengla og slasaði á sér eina tána. Gerði hann ekki mikið úr því slysi, bruddi að vísu verkjalyf það sem eftir var ferðarinnar. Eftir ferðina kom í ljós að táin var brotin, fór semsagt tábrotinn yfir Sprengisand, vel gert það!

Eftir baðið áttum við notalega stund í skálanum, enn nóg eftir af deginum. Veðrið lét samt ekki bíða lengi eftir sér og hvessti smám saman. Um kvöldið gerði dýrvitlaust veður og byl svo ekki sást út úr augum og erfitt að rata yfir í salernishúsið. Var lagt bann við að þangað færu menn einsamlir þar sem mögulegt var að villast og jafnvel detta ofan í heitu laugina.

Veðrið gekk niður um nóttina og daginn eftir var bjart og fallegt veður. Við vöknumum um kl 5:00 og náðum að leggja af stað kl 7:30. Veðurspá gerði ráð fyrir að það myndi hvessa þegar liði á daginn og lítt skemmtilegu ferðaveðri daginn þar á eftir. Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir að við færum yfir í Nýjadal á 2 dögum. Fannst okkur tilhugsunin um tjaldnótt í vitlausu veðri ekki vænleg og því var lagt af stað með það í huga að reyna að ná alla leið í Nýjadal á einum degi. Var okkur ljóst að við ættum fyrir höndum drjúga dagleið eða 38km. Til að slíkt mætti hafast yrðum við að halda vel á, stoppa stutt en næra okkur vel og drekka í hverju stoppi.

Þennan morgun var bjart, vindur hægur og mun hlýrra en dagana á undan, líklega ca -5 til -10°C. Skíðin mín runnu vel enda hafði ég borið á þau kvöldið áður og það borgaði sig. Við skíðuðum lengi vel eftir farvegi Bervatnskvíslar sem er ein af upptökuám Þjórsár.

Þessi mynd er tekin í hádegispásunni, þá er farið að hvessa og kólna og vottar fyrir úrkomu.

Hér erum við á hásléttu Sprengisands, farið að hvessa af suðvestri og byrjað að skafa. Það bætti smám saman í vindinn og teljum við að hann hafi verið um og yfir 15m/sek sem er allnokkuð svona nánast í fangið. Skyggnið var þó þokkalegt og landslag ekki erfitt yfirferðar. Þó var allnokkuð hjarn og klaki á köflum og þurfti ekki mikinn bratta upp í móti til að það væri erfitt að ná spyrnu. Reyndi þetta færi verulega á bak og axlir og var ég ekki ein um að finna fyrir þreytu í baki eftir þennan dag.

Einar passaði vel upp á að stoppa stutt eftir hverja 3-5km og lagði ríka áherslu á að við fengjum okkur eitthvað að borða og drekka. Mikilvægi þess að sinna orkuinntöku og vökvabúskap við svona áreynslu er seint ofmetið.

Þegar ca 10km voru eftir í skálann í Nýjadal kallaði Einar okkur á fund. Vorum við tilbúin til að fara alla leið? Þetta var ekki spurining um meirihlutavilja heldur sneri spurningin að því hvort einhver okkar væri orðið það lúinn að hann treysti sér ekki lengra. Tilhugsunin um að tjalda í þessu roki og skafrenningi á hjarni var ekki kræsileg svo við svöruðum öll að við vildum fara alla leið. Á þessum tímapunkti fannst mér tjaldútilega að vetri á Sprengisandi alls ekki góð hugmynd og velti fyrir mér hvernig mér hefði yfir höfuð dottið í hug að gera þetta.

Áfram héldum við og svo fór að það tók að skyggja. Ég var enn með sólgleraugun og það byrgði mér enn frekar sýn og datt ég um minnstu misjöfnu. Ég hafði svitnað í vettlingunum fyrr um daginn en nú voru þeir klakavöndull eftir hvert stopp og náði ég illa að hita þá upp. Já þarna reyndi örlítið á þrautseigju okkar, ískaldar hendur, dofnir puttar og sprungnir puttar, basl á hjarni og lítið skyggni.

Þegar ca 1km var eftir stoppaði Einar og lagði til að við settum skinn undir skíðin. Ég maldaði í móinn, nennti því ómögulega í þessum kulda því maður verður að vera berhentur við það. Einar sat fastur við sitt. Ég tók skinnin og var snögg að setja þau undir, gekk frá sólgleraugunum og setti upp skíðagleraugun, fann ljósið og fór í þurra vettlinga. Þvílíkur munur, nú fannst mér ég geta gengið endalaust í viðbót.

Við komum í Nýjadal um kl 20:30 um kvöldið eftir að hafa lagt að baki 38km á 13klst. Það eru engar ýkjur að við höfum verið lúin. Einar hreinsaði frá skáladyrunum og hann og Darri fóru inn til að hafa skálann til fyrir okkur. Einar kveikti upp í olíuvélinni en þarna er olíukynding. Skálinn er gríðarstór og var ískaldur. Darri fékk það verk að hreinsa snjó úr skálanum, þar á meðal rúmstæðunum. Fyrir utan skálann var glæra svell og stórhættulegt að fóta sig. Ég tók að mér að hökkva með ísexinni í svellið fyrir utan dyrnar. Þarna sannaðist það að þegar maður heldur að maður sé búinn með alla orku eigi maður fullan varatank. Næst þurfti að ferja púlkupokana inn og ganga frá skíðum og púlkum úti. Bjarni var beðinn um að moka út kamarinn, kom hann til baka og sagði það dagsverk. Ég hef aldrei áður vitað til að hann biðjist undan verki, enda vorum við hin varla vöknuð daginn eftir þegar hann var búinn að moka þar út.

Gestur hinn tábrotni var fullkomlega búinn á því, á þessum tímapunkti vissi enginn að hann væri beinbrotinn en við lögðum okkur öll fram við að hjúkra honum. Engin furða að orkan væri búin því það tekur mikið á að geta ekki beitt sér að fullu og vera jafnframt með verki.

Þrátt fyrir langan og erfiðan dag var lystaleysi almennt meðal ferðafélaganna. Við beittum hvert annað hörðu, það var ekki í boði annað en að borða kvöldmat, snjór var bræddur og vatn soðið til að útbúa dýrindis þurrmatskássu. Við hrúguðumst öll inn í eldhúsið, annars staðar í húsinu var hrollkuldi. Eftir matinn stýrði Steina liðkunar og teygjuæfingum, mikið var það gott að liðka lúna vöðva.

Uppi á svefnloftinu var skítakuldi, þar hafði verið snjór í rúmum þannig að hitastigið var undir 0°C. Við reimuðum vetrarsvefnpokana þétt að okkur með húfur á höfði og upp úr okkur stóð gufustrókurinn. Flest sofnuðum við samt fljótt eftir erfiðan dag.

Ég svaf vel um nóttina, fór niður frekar snemma og fékk mér kakó í eldhúsinu. Fór svo aftur upp og sofnaði.

Eins og áður sagði var Bjarni búinn að moka út kamarinn áður en við hin vöknuðum. Kamarinn var bara hinn vistlegasti og þar var gott skjól og gott símasamband sem var vel þegið því þarna gátum við látið ættingja vita af okkur.

Í hvert skipti sem maður fór út tók maður með sér lausa potta og skálar til að sækja snjó til að bræða.

Annars fór dagurinn í letilíf, engum datt í hug annað en að taka þann dag sem vara dag enda búið á öllum orkubönkum. Ásamt því að fylla á líkamlegan orkubanka var hægt að hlaða síma og rafræna orkubanka, var það vel þegið.

Þennan dag var sól en nokkur vindur og lágrenningur.

Næsta dag vöknuðum við um kl 6:00 og höfðum okkur til. Við náðum að leggja af stað um ca kl 8:30. Það var skýjað og lítilsháttar andvari þegar við lögðum af stað en fljótlega birti til og mestan daginn gengum við í glampandi sól og logni. Svona dagar fá mann til að gleyma að það hafi nokkru sinni verið vindur eða kuldi.

Halarófan leggur af stað frá Nýjadal

Hér er farið að birta og lífið tóm fegurð.

Horft til baka, Miklafell í Hofsjökli til vinstri. Held það sé Laugafell sem sést hægra megin við miðja mynd. Á mydninni sést hvar við þurftum stundum að fara yfir klakabunka. Þarna erum við með skinn undir skíðunum en það gat verið erfitt að paufast upp þá skinnlaust.

Það var ótrúlega notalegt að svífa um í sólinni.

Þennan daginn var hádegispásan tekin í sólbaði og var það góð tilbreyting frá kuldanum dagana á undan.

Hér eru Hágöngur framundan.

…………………og Hágöngulón. Við fórum yfir það og slógum upp tjöldum í hrauninu hinu megin við lónið.

Þegar við höfðum lagt Hágöngulón að baki var kominn tími á að huga að náttstað. Við höfðum lagt að baki um 27,5km og átt dásemdardag á skíðum. Eftir því sem á daginn leið varð meira landslag í kringum okkur, Hágöngur, Hágöngulón, Tröllahraun, Bárðarbunga og Hamarinn í Vatnajökli.

Við komum tjöldunum fyrir í jaðri Tröllahrauns í dásemdarkvöldsól.

Hér er ég búin að koma eldunargræjunum fyrir og raða upp í eldhúsinu. Drykkjarbrúsar, hitabrúsar, kakó, kaffi, þurrmjólk, stroh og hrökkbrauð.

Í svona vetrarferðum er töluvert bras að bræða snjó og hita vatn. Ég er orðin nokkuð örugg með mig við að meðhöndla bensínprímusinn en það þarf þó að vanda til verka að vera með opinn eld inni í nælontjaldi. Hitinn frá prímusinum nær að hita aðeins inni í tjaldinu og munar alveg um það. Vinkonur okkar Guðrún og Jóhanna fengu vatn hjá okkur og voru því ekki með prímus. Þeirra tjald var því eins og kaldur og klakafullur hellir miðað við okkar. Um kvöldið komu þær yfir til okkar, fyllti ég sjóðandi heitu vatni á vatnsbrúsa sem þær stungu inn á sig til hitunar og fóru með í svefnpokann. Við Darri vorum einnig með slíka brúsa í okkar pokum og munaði alveg um það. Þessa nótt varð mér kalt, hef aldrei verið svona köld í útilegu að vetri til. Skýringuna fengum við daginn eftir, hitastigið var í kringum -16°C.

Morguninn eftir var ræs kl 6:00. Þá var sólin ekki komin upp, aðeins roði í austrinu. Fjallafegurðin og kyrrðin var alger.

Við lögðum af stað um kl 8:30, þá var enn nokkuð kalt en heiður himinn lofaði góðum degi.

Nú lá leiðin um Tröllahraun með Kerlingu í Vatnajökli framundan. Þetta var svo sannarlega ferðadagur eins og þeir gerast bestir. Þennan dag var það frekar hiti sem við kvörtuðum yfir og um tíma gengum við á stuttermabolum. Það er hins vegar svo að skjótt skipast veður í lofti og þarf ekki annað en að ský dragi fyrir sólu til að hitastigið falli þannig að þörf sé á betri skjólfatnaði.

Tröllahraun var æði tafsamt yfirferðar þar sem það er óvenju snjólétt og þurfti oft að gæta lagni í púlkudrætti til að forðast að draga þær yfir hraunnibbur. Þegar mér fannst að við værum búin með gott dagsverk og vonaðist til að stutt væri í skálann í Jökulheimum, þá voru enn 15km eftir.

Þegar leið á daginn dró fyrir sólu og þykknaði upp og þá kólnaði. Neðar var snjólétt og þurfti Einar að gæta útsjónarsemi í leiðavali til að koma okkur í Jökulheima. Seinasta spölinn fórum við eftir árfarvegi í gili til að sleppa við brölt í hrauninu.

Þegar við komum í Jökulheima höfðum við lagt að baki 28km. Jökulheimar eru dásamlegur staður, velbúinn skáli í eigu Jöklarannsóknafélagsins og að þessu sinni vorum við svo heppin að nýlega höfðu einhverjir verið í honum þannig að hann var enn hlýr. Í Jökulheimum þarf bara að ýta á takka og þá kemur vatn! Mikið fannst okkur notalegt að vera laus við snjóbræðsluna.

Við vorum þarna búin með 7 daga ferðalag og áttum eftir 4 daga. Okkur var ljóst að breyting yrði á plönum þar sem áætlunin hljóðaði upp á að fara í Landmannalaugar á 2 dögum en skálinn þar var lokaður, út af dáltlu. Veðurspá fyrir seinustu 2 dagana var arfaslæm og ljóst að eina vitið væri að koma sér heim fyrir þann tíma. Því var afráðið að fara úr Jökulheimum í Sigöldu/Bjallavaði á tveimur dögum, það yrðu tveir 30km km langir dagar.

Við lögðum af stað úr Jökulheimum milli klukkan 8 og 9 um morguninn. Nú var hiti rétt um 0°C og er það erfitt skíðafæri því það vill festast svo undir skíðunum. Reyndum við að bera undir skíðin og bætti það ástandið eitthvað. Skyggni var að þessu sinni hvítt og hélst það svo allan daginn. Planið var að halda niður farveg Tungnár næstu tvo daga.

Þegar við höfðum lagt að baki um 6km stoppaði Einar og kallaði á fund. Fannst honum okkur miða heldur hægt og taldi að það yrði okkur erfitt að ná tveimur svona löngum dagleiðum. Einnig var hann ekki viss um að snjóalög væru næg þegar neðar drægi. Lagði hann til að við stefndum aðeins í vestur í átt að Veiðivötnum og létum sækja okkur þangað, myndu það verða styttri dagleiðir. Þetta var að sjálfsögðu samþykkt og við tókum smá sveigju til vesturs.

Þannig þrömmuðum við, kílómeter eftir kílómeter……………………..

……………….arkandi í auðninni.

Og nestispásurnar voru án útsýnis.

Þarna komumst við aftur í gott símasamband. Einum ferðafélaganum bárust miður góðar fréttir úr fjölskyldunni og hugsaði stíft heim. Brugðið var á að halda fund. Ákveðið var að kanna hvort mögulegt væri að sækja allan hópinn þá um kvöldið þar sem við vorum komin langleiðina í Veiðivötn þangað sem ferðinni var heitið. Það munaði ekki öllu hvort við gistum eina nótt í tjöldum og gengjum nokkra kílometra daginn eftir.

Þetta varð niðurstaðan. Aðilinn sem búið var að semja við um að sækja okkur var til í að leggja strax af stað. Við gengum örfáa kílómetra til viðbótar og slógum upp tjöldum til skjóls meðan við biðum eftir bílnum. Drógum upp helstu kræsingar sem eftir voru, hituðum vatn og fengum okkur seinustu þurrmatskássuna sem auðvitað bragðaðist dásamlega.

Eins og sjá má af þessari mynd er snjór farinn að minnka, er ég ekki viss um hversu mikið lengra við hefðum komist á skíðunum með púlkurnar.

Við tókum upp tjöldin í snatri og pökkuðum okkur inn í bílinn. Það var komið að ferðalokum. Við höfðum lagt að baki tæplega 150km, gengið yfir hálendið, lent í öllum gerðum af veðri, stórhríð, ískulda, skafrenningi, sól, logni, þoku. Við vorum svo sannarlega lúin en ánægð með afrekið.

Enn á ný hafði ég víkkað út þægindarammann, farið þvert yfir hálendið á gönguskíðum að vetrarlagi. Það veitir óneitanlega góða tilfinningu að hafa náð þessu takmarki, vita að þetta sé gerlegt. Með góðum ferðafélögum og ekki síður afburða leiðsögumanni eru svona ferðir dýrmætir molar í minningabankanum.

Birt í Ferðalög | Ein athugasemd