Að elta drauminn

Að eiga sér draum er svo mikilvægt, draum um að gera eitthvað sem manni finnst jafnvel sjálfum fráleitt að geti orðið vað veruleika. Tískuorð yfir þetta er að setja sér markmið, horfa á takmarkið og vinna að því, hversu fjarlægt sem það kann að virðast

Í mörg ár hef ég átt mér draum sem mér fannst lengi vel afar fjarlægur …………..drauminn um að þvera Vatnajökul á gönguskíðum. Fyrst fannst mér að þetta væri bara fyrir einhverja sem væru „ofur“ á einhvern hátt. En eftir því sem þekking og færni í ferðalögum á jöklum og að vetri jókst, varð mér ljóst að þessi draumur minn gæti orðið að veruleika, spurningin var aðeins hvenær rétta tækifæri byðist.

Gönguvinkona mín til margra ára, Elísabet Sólbergsdóttir (Beta) á sér líka draum, sá draumur er töluvert ofur á minn mælikvarða, hún hefur sett sér það markmið að toppa hundrað hæstu tinda Íslands. Margir þeirra eru í Vatnajökli og til að ná nokkrum þeirra skipulagði hún ferð yfir þveran jökulinn með viðkomu á 7 þeirra. Ég naut þeirrar gæfu að fá að fylgja henni nú nýlega.

Þar sem markmiðið var ekki aðeins að þvera jökulinn heldur að toppa nokkra af hæstu tindum landsins í leiðinni gefur auga leið að þetta er ferð sem reynir á ýmsa færni. Ferðaáætlunin var þannig að byrjað var á því að fara upp Breiðamerkurjökul og inn í Mávabyggðir og toppa þar hæsta tind, fara upp fyrir Esjufjöll og toppa þar þrjá tinda, arka síðan yfir jökulinn að Kverkfjöllum, toppa þar þrjá tinda og renna sér svo niður Kverkjökul.

Þetta var metnaðarfullt plan en svo spennandi að ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar mér bauðst að slást í för með Betu. Hún hafði fengið Leif Örn Svavarsson til að leiða okkur um jökulinn. Leifur er þrautreyndur á jöklum Íslands og hefur hann einnig toppað hæstu tinda allra heimsálfanna tvívegist og farið tvisvar á báða pólana fyrir utan aðra leiðangra. Því er ljóst að betri leiðsögumann í þetta verkefni er ekki hægt að fá.

Aðrir ferðafélagar voru, talið ofan frá og til vinstri: Beta, Bjarni, Darri, Kristjana, Lilja og Inda.

Ferðin hófst við sporð Breiðamerkurjökuls sem hefur hopað verulega seinustu ár. Eigi að síður var hægt að aka okkur nálægt jökuljaðrinum. Það er allnokkur búnaður sem fylgir svona leiðangri, ég hafði vigtað nákvæmlega það sem við Darri vorum með, það voru samtals 64 kíló fyrir okkur bæði og þó hægt væri að aka nálægt jöklinum þurftum við að bera dótið rétt tæplega 200m. Vorum við með bakpoka sem við fylltum með þyngsta dótinu en bárum svo púlkurnar á milli okkar með restina. Ansi var jökullinn úfinn og þakinn möl og sandi þarna neðst.

Þegar komið var á jökulinn þurftum við svo að umstafla öllu og hlaða á púlkurnar.

Þarna neðst er jökullinn þakinn sandi og jökulruðningi, ekki albesta undirlendið fyrir harðplastpúlkurnar en ekki var annað í boði en að draga þær eftir þessu undirlagi. Skíðin voru kirfilega fest ofan á púlkurnar.

Eftir því sem ofar dró minnkaði sandurinn og harðísinn tók við.

Inn á milli var jökullinn nokkuð sprunginn. Það var viðbótaráskorun fyrir púlkurnar að renna ofan af íshryggjunum og skella niður. Skal viðurkennt að það var meira en margar þeirra þoldu með góðu móti. Nokkrar púlkur fengu ýmist rifur á botninn eða klesst nef eftir ferðina upp Breiðamerkurjökulinn.

Ofan við Bræðrasker komumst við á snjó og var það mikill léttir eftir harðísinn. Við gátum þá spennt á okkur skíðin og hin eiginlega skíðaferð hófst. Þá blöstu Mávabyggðir betur við. Mávabyggðir eru fjallaklasi sem stendur upp úr Vatnajökli ofan við Breiðamerkurjökul. Lengst til vinstri í Mávabyggðum má greina hvítan strýtulaga tind en þann tind stefndum við á og var hann toppaður daginn eftir.

Til vinstri við okkur blasti svo Öræfajökull við upp úr hvítri breiðunni. Fyrir miðri mynd er Þuríðartindur eins og nabbi upp úr og lengst til vinstri er strýtulaga Káratindur. Báða þessa tinda hefur Beta toppað undir leiðsögn Leifs á þessu ári.

Undir austanverðum Mávabyggðum fundum við okkur tjaldstæði í kvöldsólinni í ca 1000m hæð. Í mörg ár hefur mig einmitt dreymt um að koma í Mávabyggðir, mér hefur alltaf fundist þetta svæði sveipað ákveðinni dulúð. Þetta kvöld var mikil veðurstilla og létt verk að tjalda í logninu og algerlega dásamlegt að leggja höfuðið á koddann á þessum langþráða stað.

Við höfðum lagt að baki 18,4km með samanlagðri hækkun um 981m á um 9klst.

Við vorum árrisul daginn eftir, vöknuðum kl 6.00, það þýðir ekkert að sofa úr sér augun í svona ferðalagi. Nú vorum við komin upp á alvöru jökul og á alvöru sprungusvæði. Þá er ekki boðið upp á neitt kæruleysi og allir festir saman í línu til öryggis. Alltaf prófar maður eitthvað nýtt, þetta var í fyrsta skipti sem ég fer um jökul með púlku í línu. Línunni var smeygt undir böndin á púlkunni og þvældist línan ótrúlega lítið fyrir manni.

Það var nánast heiðskýrt, sólin skein og fegurðin var ótrúleg. Á myndinni hér að ofan má sjá Veðurárdalsfjöll fyrir miðju og síðan rana af Esjufjöllum sem einnig eru fjallgarður inni í Vatnajökli ofan Breiðármerkurjökuls, rétt eins og Mávabyggðir.

Hér nálgumst við hæsta tind Mávabyggða 1439m en hann er einn af hundrað hæstu tindum Íslands.

Útsýnið af tindinum er stórkostlegt, hér horfum við niður á Breiðamerkurlón, Breiðamerkurjökul, Veðurárdalsfjöll og rétt gilttir í rana Esjufjalla.

Eftir að hafa dáðst að fegurðinni allt í kring var komið að því að stefna á næsta tind sem var Snæhetta 1761m. Til að komast að henni þurftum við að taka U laga krók til að sneiða hjá sprungusvæði og einnig til að hafa hækkunina nokkuð jafna og þétta.

Flestir ferðafélaga minna voru með hin dásamlegustu hálfskinn undir skíðunum. Þau henta afar vel við þessar aðstæður. Hjá mér var það allt eða ekkert, engin skinn eða alskinn sem renna nákvæmlega ekkert. Þarna byrjaði ergelsi mitt út í skinnin mín en það getur verið þreytandi að vera með alskinn undir skíðunum allan daginn.

Upphaflega planið var að tjalda rétt undir Snæhettu og fara svo á hana næsta dag. Um það leyti sem við vorum búin með plönuðu dagleiðina kom sú hugmynd upp að fara á Snæhettu og ganga síðan 10km í viðbót og tjalda þar til tveggja nátta. Skal ég játa að ég var svona u.þ.b. búin að fá nóg en málið var að daginn eftir spáði miklum vindi og það var afar freistandi að þurfa ekki að taka upp tjald í miklu roki, hvað þá að tjalda því aftur. Hugmyndin var því alls ekki svo slæm og við örkuðum á Snæhettu. Þar uppi var snjórinn afar ísaður en með skinnin undir rann ég ekkert og á niðurleiðinni var herfilegt að vera með púlkuna sem rann vel en ég ekkert. Því var þrautalendingin að taka skinnin af og láta bara vaða með púlkuna dansandi við hliðina í glerjuðu færinu.

Nokkuð fyrir neðan Snæhettu í ca 1600m hæð slógum við upp tjöldum í nokkrum vindi. Við byrjuðum á að byggja skjólgarða til að skýla fyrir vindinum. Urðu þeir nánast mannhæðarháir og töluvert mannvirki. Skal það bara játast að skrokkurinn fann alveg fyrir þessum degi enda höfðum við lagt að baki 28km með 1032m hækkun á rétt um 10klst.

Nokkuð hvasst var um nóttina, tjaldið okkar blakti aðeins þrátt fyrir skjólvegginn. Yfirborð snjósins var algert gler eftir frostið um nóttina. Verkefni dagsins var að ganga á Ugga 1586m og Esju 1661m. Frá tjaldinu voru um 7km að Ugga, styttra að Esju. Leifur ákvað að fara þetta ekki á skíðum þar sem það var glerhált og útlit fyrir stífan vind á móti þegar liði á daginn. Ég var strax ákveðin í að taka þennan dag sem hvíldardag og það gerðu þær Lilja og Inda einnig en Bjarni og Darri fylgdu Betu í verkefni dagsins.

Ég skrapp því í heimsókn í tjaldið til Indu og Lilju og átti gott röfl með þeim. Tjöldin í svona ferðum minna mest á unglingaherbergi eða þátt úr seríunni allt í drasli, þannig er þetta bara.

Eftir góða heimsókn til þeirra systra fór ég heim í mitt eigið unglingaherbergi og lá fyrir og hlustaði á hljóðbók, dásamlegt líf.

Það var farið að hvessa allverulega þegar göngugarparnir komu til baka, Uggi og Esja toppuð og allir kátir. Hins vegar hafði hlýnað verulega og hlýr vindurinn nagaði skjólgarðana okkar stöðugt. Urðu þeir fljótt eins og gatasigti og þynntust verulega og hrundu. Vorum við í stöðugum endurbótum. Við Darri gerðum nýjan garð öðru megin við tjaldið um kvöldmatarleytið og þóttumst vera nokkuð góð með hann. Seinna um kvöldið lágum við og hlustuðum á hljóðbók, ég var meira að segja rétt sofnuð þegar garðuinn hinu megin við tjaldið hrundi nánast ofan á það og Darra.

Það þýddi ekkert að væla, upp úr pokanum og í útifötin fórum við og hlóðum nýjan garð þó klukkan væri langt gengin í 11 um kvöldið og hávaðarok úti.

Um nóttina var allmikill vindur en öll tjöld stóðu það af sér, þökk sé góðum skjólgörðum.

Daginn eftir biðum mesta rokið af okkur og lögðum ekki af stað fyrr en um kl 13. Þá var enn töluvert rok giskuðum við á að það væri nálægt 15-18m/sek.

Stefnan var tekin á Kverkfjöll sem virtust bara örskammt framundan. Skíðin runnu vel í snjónum og lífð var dásamlegt. Leifur gaf upp strax í upphafi að við myndum ganga í 6 lotum og taka stutta pásu á klukkutíma fresti. Það gekk eftir, við héldum vel áfram, meðalhraði á ferð þennan dag var 4,4km/klst sem er nokkuð gott með púlku í eftirdragi. Meðalhraði með stoppum var 3,5km/klst sem er einnig góður ferðahraði. Alls gengum við 25km þennan dag á 7klst og 20mín.

Þegar við lögðum af stað var vindurinn líklega 15-18m/sek líklega að norðvestan en við gengum nánast í hánorður. Það var nokkuð lýjandi að hafa vindinn svona skáhallt á móti og fundum við flest fyrir því í vinstri hendinni að degi loknum. Gerðum við ráð fyrir að vindinn myndi lægja fljótlega en það var langt liðið á dag þegar það fór að hægja. Eftir eina pásuna þegar ég hafði bætt á mig úlpu datt vindurinn skyndilega niður og sólin fór að skína, þvílík umskipti. Það var algerlega nauðsynlegt að rífa af sér nokkrar spjarir og lofta um.

Klukkan var langt gegnin í hálf níu þegar 6 göngulotum var lokið. Þá var komið að því að tjalda, að þessu sinni í hinni mestu blíðu á miðjum Vatnajökli í 1500m hæð. Á myndinni hér að ofan má sjá Snæfell gnæfa yfir tjaldið þeirra Betu og Bjarna.

Við höfðum komið seint í tjaldstað eða ekki fyrr en um kl 20:20. Dagurinn hafði verið nokkuð strangur og því vöknuðum við ekki fyrr en kl 8 og lögðum af stað um kl 10. Nú var skyggni ekkert og er það ansi krefjandi að vera fremstur við slíkar aðstæður, ekkert kennileiti til að miða stefnuna við og meira að segja verða stefnan upp og niður ekki alveg skýr.

Næsta takmark var Brúðarbunga 1781m. Henni var náð í engu skyggni, myndir teknar þar hefðu getað verið teknar hvar sem er.

Þetta var dagur hálfskinna. Ég með mín heilskinn átti í erfiðu sambandi við þau. Vissulega var betra að vera með þau en án þeirra en það er ekki áreynslulaust að vera á þeim í lengri tíma þar sem rennslið er ekkert. Geðslag mitt lét á sjá og aumkaði Darri sér yfir mig og skiptum við um skíði. Verður að segjast eins og er að það er ólíkt léttara að vera á þessum dásamlegu hálfskinnum ef brekkan er ekki of brött.

Þegar við höfðum gengið í rúmar 8klst vorum við rétt undir tindinum Jörfa 1944m. Þá höfðum við lagt að baki 22km og hækkað okkur um 513m. Skal ég bara viðurkenna að ég var alveg til í að tjalda. Þarna kom upp sú hugmynd að toppa Jörfa í engu skyggni og bæta svo ca 6km við og fara í efri skálann í Kverkfjöllum. Klukkan var 18 og við nánari umhugsun varð okkur ljóst að það verkefni tæki okkur hátt í 4klst. Þótti það ekki góður kostur svo við slógum upp tjöldum þarna í ca 1900m hæð.

Það reyndist góð ákvörðun, um nóttina létti til og þessi mynd er tekin um kl 3 um nóttina þar sem morgunsólin slær roða á tindinn Jörfa sem er fimmti hæsti tindur landsins.

Húsið okkar og bílarnir í morgunroðanum.

Við áttum allnokkurt dagsverk fyrir höndum, taka okkur saman, toppa tvo tinda og koma okkur niður Kverkjökul þangað sem við yrðum sótt kl 14. Því voru vekjarar stilltir á kl 6.00 og við vorum rösk að taka okkur saman þannig að við vorum tilbúin með allt okkar dót kl 7.30.

Þá var arkað á Jörfa sem virtist nú ekki vera meira en minni háttar hæð þarna í landslaginu. Á Jörfa vorum við með sýn yfir allan Vatnajökul og gátum við geint helstu tinda hans í allar áttir. Magnað útsýni.

Til vesturs var svo Hverasvæðið sem frá þessu sjónarhorni var töluvert fyrir neðan okkur.

Tindasöfnun þessa dags var ekki lokið, við áttum eftir Vestari-Kverk 1818m.

Útsýni til norðurs er stórkostlegt á þessum stað.

Eftir vel heppnað toppatrítl var næsta verkefni að koma sér niður af jöklinum. Hann er allbrattur þarna og því var það töluverð áskorun að renna niður á gönguskíðunum með púlkuna í eftirdragi. Útsýnið var þannig að maður varð að stoppa öðru hvoru og horfa.

Hér er Darri á góðu skriði með sýn yfir Dyngjujökul og Kistufell.

Hér erum við komin niður bröttustu brekkuna og úfinn skriðjökullinn framundan með sprungusvæði niðurundan.

Nú tók við ark um sprungið völundarhús.

Litið til baka upp brekkuna.

Engin orð fá lýst ævintýrinu að skíða þarna fyrir neðan úfinn skriðjökulinn.

Neðst tók við sprunginn harðís. Þá dugði ekkert annað en að vera á jöklabroddum og hafa púlkuna fyrir framan sig.

Öll ævintýri taka enda, jökullinn líka. Nú var aftur komið að því að hlaða þyngsta dótinu í bakpoka og klöngrast yfir jökulurðina í bílinn, fara svo aðra ferð og ná í púlkurnar með léttara dótinu.

Öll ævintýri taka enda, svo var einnig um þetta. Á planinu neðan Kverkjökuls var tekin hópmynd.

Engin orð fá lýst þessu magnaða ævintýri, þvílík forréttindi sem það eru að fá að taka þátt í þessu verkefni hennar Betu, það verður spennandi að fylgjast með áframhaldinu en eftir þessa ferð hefur hún toppað 88 af hundrað hæstu tindum Íslands, það er ekki langt í að hennar draumur rætist.

Ferðafélagarnir voru frábærir og leiðsögumaðurinn í heimsklassa. Einstakt ævintýri.

Draumurinn um að þvera Vatnajökul rættist og ekki bara þvera hann heldur fara um algerlega einstakt svæði, Mávabyggðir, efri hluta Esjufjalla og efsta hluta Kverkfjalla. Þessi ferð verður seint toppuð.

Dagur 1 – grænt – Breiðamerkurjökull – Mávabyggðir 18,3km. Hækkun 981m, lækkun 18m
Dagur 2 – bleikt – Mávabyggðir – ofan Esjufjalla 27,9km. Hækkun 1032m, lækkun 369m
Dagur 3 – Uggi og Esja (ég hvíldi)
Dagur 4 – ljósblátt – Ofan Esjufjalla – Miður Vatnajökull 25,5km. Hækkun 312m, lækkun 456m
Dagur 5 – rautt – Miður Vatnajökull Kverkfjöll – 21,5km. Hækkun 513m, lækkun 152m
Dagur 6 – blátt – Kverkjöll efst og niður að bílastæði – 14,3km. Hækkun 126m, lækkun 1154m

Alls voru þetta 107km og samanlögð hækkun 2.964m,

Um Kristjana Bjarnadóttir

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com
Þessi færsla var birt undir Ferðalög. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Að elta drauminn

  1. Bakvísun: Horft yfir farinn veg | Efst í huga

Færðu inn athugasemd