Annáll ársins 2014

Við áramót er gott að staldra við, horfa yfir farinn veg, rifja upp hvað á dagana hefur drifið, þakka fyrir góða tíma, staldra við og læra af mistökum ef einhver voru og horfa aðeins fram á við og velta fyrir sér hvernig maður sjái fyrir sér komandi tíma.

IMG_2698Árið 2014 var mér að flestu leiti gott og viðburðaríkt. Ég fylgdist með barnabarninu henni Söru vaxa og þroskast úr ungabarni yfir í að verða krakki sem hægt er að eiga sífellt fleiri skemmtileg ævintýri með. Hún er farin að koma með í styttri gönguferðir, út á sleða og skoða dýrin í sveitinn. Allt þetta finnst henni mikið ævintýri, já og ömmunni ekki síður.

Börnin mín tvö stunda sitt háskólanám af miklum áhuga og má segja að þeim hafi aldrei gengið betur í skóla. Það skiptir svo miklu máli að hafa áhuga á viðfangsefninu og er mér oft hugsað til þess hvað þurfi til að grunnskólinn veki áhuga barna þannig að þau njóti sín sem best.

Á árinu átti ég ánægjustundir með ættingjum mínum fór á tvö ættarmót, annað með systkinum pabba og afkomendum þeirra og hitt með systkinum mömmu og afkomendum þeirra. Það er alltaf ánægjulegt að hitta ættingja sína, ekki síst þá sem maður umgekkst mest sem barn og eru á líkum aldri. Þrátt fyrir að maður hitti þetta fólk alltof sjaldan þá slitnar þráðurinn ekki.

IMG_4934Á árinu átti ég hálfraraldarafmæli, Darri átti samskonar tímamót rétt fyrir seinustu áramót og svo áttum við 25 ára brúðkaupsafmæli í júlí. Við ákváðum að fagna öllum þessum tímamótum með því að fara til Perú og ganga þar um í 7 daga og enduðum ferðina í Machu Picchu. Þetta var mikið ævintýri og stendur að sjálfsögðu uppúr sem ævintýri ársins.

Að venju átti ég margar ánægjustundir á göngu hér innanlands með félögum mínum. Gönguhópurinn Flökkukindur fékk nafn og með þeim ágæta hópi átti ég margar ánægjustundir. Við héldum vetrarfjallamennskunámskeið, gengum á Heiðarhorn við vetraraðstæður, gerðum tilraun til að arka Snæfellsnesfjallgarðinn vestanverðan, gengum á alla tinda Vestmannaeyja og margt fleira. Ótrúlega skemmtilegar stundir.

Annars voru gönguferðir ársins voru sem hér segir:

Janúar: Blákollur, Reykjadalur/Grændalur, vetrarfjallamennskunámskeið í Esju,
Febrúar: Gönguskíði í Bláfjöllum, Móskarðshnjúkar (2x), gönguskíði í Dalakofann (2 dagar).
Mars: Heiðarhorn, Gönguskíði um Mosfellsheiði, Hafrafell/Reykjaborg, gönguskíði í Bláfjöllum (2x), Kerhólakambur/Smáþúfur.
Apríl: Blákollur og hryggur bak við Hafnarfell, skíðaganga í Þjófahrauni, gönguskíði í Bláfjöllum
Maí: Blikdalshringur, Esja, hlíðar Tindstaðafjalls, Krýsuvík, Eyjafjallajökull, Grímannsfell, Hafrafell.
Júní: Jórufell/Háfell, Skarðsmýrarfjall, Vatnafell/Tröllatindar, Hestadalir/Kolgrafarfjörður, Bjarnarhafnarfjall, Hlöðufell.
Júlí: Stóra-Urð, Víknaslóðir (4 dagar), Biskupsfell, Kverkfjöll, Snæfell
Ágúst: Tindar Vestmannaeyja
September: Perú (8 göngudagar)
Október: Mosfell, Hvalfell, Brekkukambur.
Nóvember: Búrfell Þingvallasveit.
Desember: Reynivallaháls, Úlfarsfell

Allar þessar ferðir voru góðar og eftirminnilegar, hver með sínum hætti.

IMG_2083Fyrir utan Perúferðina standa hæst gönguskíðaferð sem við Darri fórum í. Dalakofann með vinnufélaga Darra. Frost var mikið og strekkingsvindur á móti okkur alla leiðina inn eftir, 23km leið með ca 500m hækkun. Hjarn var og erfitt færi. Þetta var líklega erfiðasta ferðin á árinu en verulega ánægjuleg og frábært að renna niður á við á leiðinni til baka.

IMG_2929

Um miðjan júni gerðu 5 Flökkukindur tilraun til að ganga Snæfellsnesfjallgarð vestanverðan. Áttum við dásamlegan dag þó við höfum í byrjun gengið upp í þokuna á Tröllatindum. Síðan létti til og á Hólsfjalli var hægt að dansa og njóta útsýnis. Gistum við uppi á fjallgarðinum en að morgni næsta dags dimmdi yfir og ekkert vit í að halda áfram. Engu að síður áttum við í framhaldinu góða göngu á Bjarnarhafnarfjall svo hægt er að segja að ferðin hafi verið hin ánægjulegasta. Eitt af markmiðum næsta árs er að ljúka þessari ferð og klára að ganga fjallgarðinn.

IMG_3540Við Darri fórum saman um svæðið norðan Vatnajökuls. M.a. gengum við á Kverkjökul og áttum þar verulega ánægjulegan dag. Þvílíkt útsýni og náttúrufegurð sem þarna er og ekki er hægt að lýsa víðáttunni með orðum og myndir sem ég tók ná ekki með nokkrum hætti að fanga tilfinninguna að standa þarna. Einnig finnst mér verulega gaman að hafa þarna virt fyrir mér svæðið þar sem nokkrum mánuðum síðar fór að gjósa og á myndinni hér að ofan er einmitt bakgrunnurinn það svæði þar sem hraunið vellur nú upp.

10616484_10203627148352228_1187234339997676031_nAð síðustu vil ég nefna ferð okkar Flökkukinda um tinda Vestmannaeyja. Fyrirfram var ég ekkert sérstaklega spennt fyrir þessari hugmynd, þ.e. að arka á alla tindana á einum degi,
fannst það svona rembingur, sjáið förin þarna fór ég. Ferðin var hins vegar hin ánægjulegasta, veður hið besta og félagsskapurinn frábær.

Fyrir árið 2014 setti ég mér eftirfarandi hreyfimarkmið:

  1. að fara í ræktina, gönguferð eða einhverja aðra alvöru hreyfingu a.m.k. fjórum sinnum í viku. Undantekningar eru: Sumarfrí, ferðalög erlendis, jólafrí, vika eftir erfiða ferð.
  2. að hjóla í vinnuna þegar fer að vora og gera það a.m.k. fram á haust
  3. að fara í gönguferðir a.m.k. 52 daga á árinu 2014
  4. að skrá þetta allt samviskusamlega niður

Markmiði nr 1 náði ég einnig að mestu. Þó voru 17 vikur þar sem ég náði ekki hreyfingu 4x í viku, var það vegna ferðalaga erlendis, sumarfrís og veikinda og nokkrum sinnum vegna þreytu eftir erfiða ferð. Í 8 af þessum vikum náði ég þó hreyfingu 3x í vikunni og 13 vikur náði ég 5 hreyfidögum. Hreyfingu skilgreini ég sem hjóla í vinnuna, a.m.k 30 mín púl í ræktinni eða 30 mín stífri göngu eða lengri (stundum allur dagurinn). Einungis 3 vikur skráði ég enga hreyfingu. Nokkrum sinnum  var ég með skráða hreyfingu 5 og 6 sinnum og stundum voru göngurnar sem ég fór í ansi stífar fjallgöngur þannig að ég er sátt við þennan árangur þó markmiðið megi vera orðað skýrar.

Markmiði 2 náði ég þar sem ég hjólaði í vinnuna frá því í mars og fram yfir miðjan október þegar aðstæður leyfðu.

Talning mín á gönguferðum skv skilgreiningu gefur að á árinu hef ég náð 53 göngudögum. Því get ég með góðri samvisku sagt að markmiði nr. 3 hafi náðst.

Öll hreyfing var skráð nákvæmlega þannig að ég tel að hreyfimarkmið mín hafi náðst nokkuð vel.

Annað áhugamál mitt seinustu ár hefur verið bóklestur. Vegna anna í ömmustandi hef ég verið heldur afkastaminni í lestrinum en oft áður. Hér er lestrarlisti ársins:

Ólæsinginn – Jonas Jonasson
Fátækt fólk – Tryggvi Emilsson
Baráttan um brauðið – Tryggvi Emilsson
Hús andanna – Isabel Aliende
Furðulegt háttalag hunds um nótt – Mark Haddon
Hljóðin í nóttinni – Björg G. Gísladóttir
Hamskiptin – Ingi Vilhjálmsson
Fiskarnir hafa enga fætur – Jón Kalman Stefánsson
Náðarstund – Hannah Kent
Lífið að leysa – Alice Munro
Konan við 1000° – Hallgrímur Helgason
Njála – Höfundur óþekktur
Sjálfstætt fólk – Halldór Laxnes
Sagan þeirra, sagan mín – Helga Guðrún Johnson
Ellefu líf – Steingrímur St Th Sigurðsson
Skálmöld – Einar Kárason

Eftirminnilegasta bókin sem ég las er Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Sú bók er skyldulesning fyrir alla. Stíllinn er góður og Tryggva tekst vel að koma til skila tíðaranda og aðstæðum alþýðu Íslendinga í upphafi 20. aldarinnar. Einnig fannst mér gaman að lesa Njálu að nýju og þar reyndurst ótal þræðir sem væri áhugavert að kryfja betur.

Á árinu fór ég þrisvar til útlanda, eina vinnuferð til Oslo og gat ég tekið lykkju á leið mína og átti helgi í Stokkholmi hjá Signýju frænku, einmitt þegar hún átti 50 ára afmæli og gat ég líka aðeins aðstoðað hana í flutningum. Góð ferð.

Ég fór með Darra í helgarferð til Prag og áttum við þar góðan tíma. M.a. leigðum við hjól og fórum í góðan 80km hjólatúr.

Seinasta ferðin var svo Perúferðin en það er útilokað að gera henni skil í stuttu máli en ég skrifaði ferðasögu í mörgum hlutum og er fyrsta færslan hér og síðan hver dagur í framhaldi.

Ég hef hér tæpt á ýmsu sem á daga mína hefur drifið á árinu. Enn á ég eftir að nefna það sem líklega hefur breytt mestu fyrir mig. Frá unglingsaldri hef ég fundið fyrir hjartsláttartruflunum og alltof hröðum hjartslætti. Um tvítugsaldurinn fékk ég lyf sem mér fannst lengst af duga vel og var mjög þakklát fyrir að vera ekki 100 árum fyrr á ferðinni, ég hefði ekki viljað lifa án þessara lyfja. Lyfin hafa þó háð mér í hreyfingu því þau tempra hjartað og hindra að ég geti stundað mikla áreynslu því lyfin hindra hjartað í að slá hraðar undir álagi. Ég hef þó reynt að láta þetta ekki á mig fá og engu að síður stundað hlaup og erfiðar göngur, stundum hefur það verið æði erfitt. Ég var farin að finna meir og meir fyrir þessu og fann fyrir þrekleysi og vaknaði iðulega þreytt snemma á morgnana, fann fyrir svima og ýmsum fleiri einkennum eins og að vera lengi að ná mér eftir erfiðar ferðir. Ég leitaði til læknis og til að gera langa sögu stutta þá greindist ég með lágt B12 vítamín. Ég hef síðan í júni tekið inn B12 töflur og nú er svo komið að ég er hætt að taka hjartalyfirn og djöflast í spinning eldhress eldsnemma á morgnana og næ að hamast undir miklu álagi og hjartað slær eftir pöntun. Þetta er mér sem nýtt líf. Ég er nú fyrst að átta mig á hversu mikið þetta háði mér og finnst þetta alveg stórmerkilegt. Sjálf áttaði ég mig á möguleikanum að B12 skortur væri að hrjá mig eftir að hafa heyrt samstarfskonu mína lýsa einkennum. Ekki síst þess vegna segi ég frá þessu.

Ný markmið fyrir árið 2015 verða með mjög svipuðu sniði og seinustu ár. Ég ætla þó að orða þau betur þannig að ég geti metið árangurinn. Í stað þess að miða við ákveðið mörg skipti á viku í hreyfingu ætla ég að telja hreyfidaga yfir árið. Ég náði 191 hreyfidegi á þessu ári og nota það sem viðmiðun fyrir næsta ár. Markmiðin eru sem hér segir:

  1. að ná að lágmarki 200 hreyfidögum á árinu. Hreyfing telst að hjóla í og úr vinnu, puð í ræktinni í að lágmarki 30 mín eða gönguferð að lágmarki 30 mín. Enginn bónus er fyrir hreyfingu oftar en 1x á dag eða langar göngur í þessari talningu
  2. að hjóla í vinnuna frá 20. mars fram til 20. október. Takmarkið er að 60% ferða í vinnuna á þessu tímabili verði á reiðhjóli.
  3. að fara í gönguferðir a.m.k. 52 daga á árinu 2014.
  4. að skrá þetta allt samviskusamlega niður.

Eins og að ofan greinir er ég hressari til heilsunnar en áður, aðeins þarf ég að vinna í að breyta tölunni sem birtist á baðvoginni en að öðru leiti er ég betur á mig komin en í mörg ár, þökk sé B12.

Ganga um Snæfellsnesfjallgarðinn er þegar á planinu einnig eru nokkrar aðrar hugmyndir fæddar en minna útfærðar.

Ég hlakka til að takast á við nýja tíma og þær áskoranir sem því fylgja. Ég þakka samferðafólki mínu fyrir ótal ánægjustundir á árinu og vonast til að eiga enn fleiri slíkar á nýju ári.

Ég óska öllum ættingjum mínum, vinum og öðrum sem þetta lesa gæfu og góðra stunda á nýju ári.

Um Kristjana Bjarnadóttir

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com
Þessi færsla var birt undir Blogg. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd